Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/18

Haraldur konungur fór víða um Gautland herskildi og átti þar margar orustur tveim megin elfarinnar og fékk hann oftast sigur en í einni hverri orustu féll Hrani gauski. Síðan lagði Haraldur konungur land allt undir sig fyrir norðan elfina og fyrir vestan Væni og Vermaland allt. En er hann snerist þaðan í brott þá setti hann þar eftir til landsgæslu Guttorm hertoga og lið mikið með honum. En hann snerist þá til Upplanda og dvaldist þar um hríð, fór síðan norður um Dofrafjall til Þrándheims og var þar enn langar hríðir.

Hann tók þá að eiga börn. Þau Ása áttu sonu þessa: Guttormur var elstur, Hálfdan svarti, Hálfdan hvíti, þeir voru tvíburar, Sigröður hinn fjórði. Þeir voru allir upp fæddir í Þrándheimi með miklum sóma.