Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/22
Haraldur konungur átti margar konur og mörg börn. Hann fékk þeirrar konu er Ragnhildur hét, dóttir Eiríks konungs af Jótlandi. Hún var kölluð Ragnhildur hin ríka. Þeirra sonur var Eiríkur blóðöx.
Enn átti hann Svanhildi dóttur Eysteins jarls. Þeirra börn voru Ólafur Geirstaðaálfur, Björn og Ragnar rykkill.
Enn átti Haraldur konungur Áshildi dóttur Hrings Dagssonar ofan af Hringaríki. Þeirra börn voru Dagur og Hringur, Guðröður skirja, Ingigerður.
Svo segja menn að þá er Haraldur konungur fékk Ragnhildar ríku að hann léti þá af níu konum sínum.
Þess getur Hornklofi:
- Hafnaði Hólmrýgjum
- og Hörða meyjum,
- hverri hinni heinversku
- og Hölga ættar
- konungr hinn kynstóri
- er tók konuna dönsku.
Börn Haralds konungs voru þar hver upp fædd sem móðerni áttu. Guttormur hertogi hafði vatni ausið hinn elsta son Haralds konungs og gaf nafn sitt. Hann knésetti þann svein og fóstraði og hafði með sér í Vík austur. Fæddist hann þar upp með Guttormi hertoga. Guttormur hertogi hafði alla stjórn landsins um Víkina og um Upplöndin þá er konungur var eigi nær.