Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/33

Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
33. Sætt Haralds konungs og Einars jarls

Haraldur konungur bauð liði út og dró saman her mikinn og fór síðan vestur til Orkneyja. En er Einar jarl spurði að konungur var austan kominn þá fer hann yfir á Nes.

Þá kvað hann vísu:

Margr verðr sekr um sauði
seggr með fögru skeggi,
en eg að ungs í Eyjum
allvalds sonar falli.
Hætt segja mér höldar
við hugfullan stilli.
Haralds hefi eg skarð í skildi,
skala ugga það, höggvið.

Þá fóru menn og orðsendingar millum konungs og jarls. Kom þá svo að þar var á komið stefnulagi og finnast þeir sjálfir og festi þá jarl allt í konungs dóm. Haraldur konungur dæmdi á hendur Einari jarli og öllum Orkneyingum að gjalda sex tigu marka gulls. Bóndum þótti gjald of mikið. Þá bauð jarl þeim að hann mundi einn saman gjalda og skyldi hann eignast þá óðul öll í eyjunum. Þessu játuðu þeir mest fyrir þá sök að hinir snauðu áttu litlar jarðir en hinir auðgu hugðust mundu leysa sín óðul þegar er þeir vildu. Leysti jarl allt gjaldið við konung. Fór konungur þá austur eftir um haustið.

Var það lengi síðan í Orkneyjum að jarlar áttu óðul öll, allt þar til er Sigurður Hlöðvisson gaf aftur óðulin.