Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/37
Björn sonur Haralds konungs réð þá fyrir Vestfold og sat oftast í Túnsbergi en var lítt í hernaði. Til Túnsbergs sóttu mjög kaupskip, bæði þar um Víkina og norðan úr landi og sunnan úr Danmörk og af Saxlandi. Björn konungur átti og kaupskip í ferðum til annarra landa og aflaði sér svo dýrgripa eða annarra fanga þeirra er hann þóttist hafa þurfa. Bræður hans kölluðu hann farmann eða kaupmann. Björn var vitur maður og vel stilltur og þótti vænn til höfðingja. Hann fékk sér gott kvonfang og maklegt. Hann gat son er Guðröður hét.
Eiríkur blóðöx kom úr Austurvegi með herskip og lið mikið. Hann beiddist af Birni bróður sínum að taka við sköttum og skyldum þeim er Haraldur konungur átti á Vestfold, en hinn var áður vandi að Björn færði konungi skatt eða sendi menn með. Vildi hann enn svo og vildi eigi af höndum greiða. En Eiríkur þóttist vista þurfa og tjalda og drykkjar. Þeir bræður þreyttu þetta með kappmælum og fékk Eiríkur eigi að heldur og fór brott úr bænum. Björn fór og úr bænum um kveldið og upp á Sæheim.
Eiríkur hvarf aftur, fór upp um nóttina á Sæheim eftir Birni, kom þar er þeir sátu yfir drykkju. Eiríkur tók hús á þeim en þeir Björn gengu út og börðust. Þar féll Björn og mart manna með honum. Eiríkur tók þar herfang mikið og fór norður í land.
Þetta verk líkaði stórilla Víkverjum og var Eiríkur þar mjög óþokkaður. Fóru þau orð um að Ólafur konungur mundi hefna Bjarnar ef honum gæfi færi á. Björn konungur liggur í Farmannshaugi á Sæheimi.