Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/13
Höfundur: Snorri Sturluson
13. Haraldur konungur settur í dýflissu
Þá er Haraldur var kominn til Miklagarðs utan af Jórsalalandi fýsti hann að fara í Norðurlönd til óðala sinna. Hafði hann þá spurt að Magnús Ólafsson bróðurson hans var orðinn konungur í Noregi og svo í Danmörk. Sagði hann þá upp þjónustu við Grikkjakonung.
En er Zóe drottning varð þessa vör varð hún reið mjög og hóf upp sakagiftir við Harald, taldi það að hann mundi hafa misfarið með Grikkjakonungs fé því er fengist hafði í hernaði þá er Haraldur hafði verið höfðingi yfir herinum.
María hét ein mær, ung og fríð. Hún var bróðurdóttir Zóe drottningar. Þeirrar meyjar hafði Haraldur beðið en drottning synjaði. Svo hafa sagt Væringjar norður hingað, þeir er verið hafa í Miklagarði á mála, að sú sögn væri þar höfð af fróðum mönnum að Zóe drottning vildi sjálf hafa Harald sér til manns og sú sök væri reyndar mest við Harald er hann vildi brott fara úr Miklagarði þó að annað væri upp borið fyrir alþýðu. Þá var sá Grikkjakonungur er hét Konstantínus Mónomakus. Hann réð ríkinu með Zóe drottningu.
Af þessum sökum lét Grikkjakonungur taka höndum Harald og færa hann til dýflissu.