Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/16


En er Haraldur kom til Hólmgarðs fagnaði Jarisleifur konungur honum forkunnarvel. Dvaldist hann þar um veturinn, tók þá í sína varðveislu gull það allt er hann hafði þannug áður sent utan af Miklagarði og margs konar dýrgripi. Var það svo mikið fé að engi maður norður í lönd hafði séð slíkt í eins manns eigu.

Haraldur hafði þrem sinnum komið í pólutasvarf meðan hann var í Miklagarði. Það eru þar lög að hvert sinn er Grikkjakonungur deyr þá skulu Væringjar hafa pólutasvarf. Þeir skulu þá ganga um allar pólutir konungs þar sem féhirslur hans eru og skal hver þá eignast að frjálsu er höndum kemur á.