Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/25


Magnús konungur og Haraldur konungur réðu báðir Noregi hinn næsta vetur eftir sætt þeirra og hafði sína hirð hvor þeirra. Þeir fóru um veturinn um Upplönd að veislum og voru stundum báðir samt en stundum sér hvor þeirra. Þeir fóru allt norður til Þrándheims og til Niðaróss.

Magnús konungur hafði varðveitt helgan dóm Ólafs konungs síðan er hann kom í land, klippti hár hans og negl á hverjum tólf mánuðum og hafði sjálfur lykil þann er skrínið mátti upp lúka með. Urðu þá margs konar jartegnir að helgum dómi Ólafs konungs.

Brátt gerðust greinir í um samþykki konunganna og voru margir svo illgjarnir að þeirra gengu svo illa í milli.