Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/28

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
28. Andlát Magnúss konungs góða


Magnús konungur og Haraldur konungur héldu her þeim suður til Danmerkur. En er Sveinn spurði það þá flýði hann undan austur á Skáni. Þeir Magnús konungur og Haraldur konungur dvöldust lengi um sumarið í Danmörk, lögðu þá land allt undir sig. Þeir voru á Jótlandi um haustið.

Það var eina nótt þá er Magnús konungur lá í hvílu sinni að hann dreymdi og þóttist staddur þar sem var faðir hans, hinn helgi Ólafur konungur, og þótti hann mæla við sig: „Hvorn kost viltu sonur minn, að fara nú með mér eða verða allra konunga ríkastur og lifa lengi og gera þann glæp er þú fáir annaðhvort bætt trautt eða eigi?“

En hann þóttist svara: „Eg vil að þú kjósir fyrir mína hönd.“

Þá þótti honum konungurinn svara: „Þá skaltu með mér fara.“

Magnús konungur segir draum þenna mönnum sínum.

En litlu síðar fékk hann sótt og lá þar sem heitir Súðaþorp. En er hann var nær kominn bana þá sendi hann Þóri bróður sinn til Sveins Úlfssonar að hann skyldi veita hjálp Þóri, þá sem hann þyrfti. Það fylgdi orðsendingunni að Magnús konungur gaf Sveini Danaveldi eftir sinn dag, segir að það var maklegt að Haraldur réði fyrir Noregi en Sveinn fyrir Danmörku. Síðan andaðist Magnús konungur góði og var hann allmjög harmdauði allri alþýðu.

Svo segir Oddur Kíkinaskáld:

Felldu menn þá er mildan
mörg tár í gröf báru,
þung byrðr var sú, þengil,
þeim er hann gaf seima.
Deildist hugr svo að héldu
húskarlar grams varla,
siklings þjóð en síðan
sat oft hnipin, vatni.