Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/35

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
35. Undanferð Haralds konungs á Jótlandshafi


Þá fór Haraldur norður og hafði sex tigu skipa og voru flest stór og hlaðin mjög af herfangi er þeir höfðu tekið um sumarið. En er þeir komu norður fyrir Þjóðu þá kom Sveinn konungur ofan af landi með her mikinn. Hann bauð þá Haraldi konungi að berjast og ganga á land. Haraldur konungur hafði lið meir en hálfu minna. Hann bauð þó Sveini konungi að berjast á skipum við sig.

Svo segir Þorleikur fagri:

Bauð, sá er bestrar tíðar
borinn varð und Miðgarði,
ríkri þjóð að rjóða
randir, Sveinn, á landi.
Þó lést heldr, ef héldi
hvatráðr konungr láði,
á byrjar val berjast
bilstyggr Haraldr vilja.

Eftir þetta sigldi Haraldur norður fyrir Vendilskaga. Bægði þeim þá veður og lögðu undir Hlésey og lágu þar um nótt. Þá gerði mjörkva sælægjan. En er morgnaði og sól rann upp þá sáu þeir annan veg á hafið sem eldar nokkurir brynnu. Þá var það sagt Haraldi konungi.

Þá sá hann og mælti þegar: „Láti tjöld af skipunum og taki menn róður. Danaher mun kominn að oss. Mun hroðið myrkvanum þar sem þeir eru. Mun sól skína á drekahöfuð þeirra, þau er gulllögð eru.“

Svo var sem Haraldur sagði.

Þar var þá kominn Sveinn Danakonungur með óvígjan her. Reru þá hvorirtveggju sem mest máttu. Danir höfðu skip árfljótari en Norðmanna skip voru bæði sollin og sett mjög. Dró þá saman með þeim. Þá sá Haraldur að eigi mundi hlýða svo búið. Dreki Haralds konungs fór síðast allra skipa hans.

Þá mælti Haraldur konungur að kasta skyldi fyrir borð viðum og láta á koma klæði og gripi góða. Logn var svo mikið að þetta hóf fyrir straumi. En er Danir sáu fé sitt reka á hafinu þá viku þeir þar til er fyrstir fóru, þótti þetta dælla að taka er laust flaut en sækja inn um borð að Norðmönnum. Dvaldist þá eftirróðurinn. En er Sveinn konungur kom eftir þeim með sitt skip eggjaði hann og kvað skömm mikla vera, svo mikinn her sem þeir höfðu, er þeir skyldu eigi fá tekið þá er þeir höfðu lítið lið og eiga vald þeirra. Þá tóku Danir og hertu róðurinn í annað sinn.

En er Haraldur konungur sá að meira gengu skip Dana þá bað hann sína menn létta skipin og bera fyrir borð malt og hveiti og flesk og höggva niður drykk sinn. Stóð þá við um hríð. Þá lét Haraldur konungur taka víggyrðla og verpla og tunnur er tómar voru og kasta fyrir borð og þar með herteknum mönnum. En er það rak allt saman á sjánum þá bað Sveinn konungur hjálpa mönnum og var svo gert. Í þeirri dvöl dró sundur með þeim. Sneru þá Danir aftur en Noregsmenn fóru leið sína.

Svo segir Þorleikur fagri:

Allt um frá eg hve elti
Austmenn á veg flausta
Sveinn, en siklingr annar
snarlundaðr hélt undan.
Fengr varð Þrænda þengils,
þeir létu skip fleiri,
allr á éli sollnu
Jótlandshafi fljóta.

Sveinn konungur veik aftur flotanum undir Hlésey, hitti þar sjö skip af Norðmönnum. Það var leiðangurslið og bændur einir. En er Sveinn konungur kom að þeim þá báðu þeir sér griða og buðu fé fyrir sig.

Svo segir Þorleikur fagri:

Sætt buðu seggja drottni
siklings vinir mikla.
Svöfðu hjaldr þeir er höfðu
hugstinnir lið minna.
Og snarráðir síðan
sókn, er orðum tókust,
önd var ýta kindum
óföl, bændr dvöldu.