Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/42

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
42. Frá Haraldi konungi


Haraldur konungur var ríklundaður og óx það sem hann festist í landinu og kom svo að flestum mönnum dugði illa að mæla í móti honum eða draga fram annað mál en hann vildi vera láta.

Svo segir Þjóðólfur skáld:

Gegn skuli her sem hugnar
hjaldrvitjaðar sitja
dólgstæranda dýrum
drottinvandr og standa.
Lýtr fólkstara feiti,
fátt er til nema játta
þat, sem þá vill gotnum,
þjóð öll, konungr bjóða.