Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/47

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
47. Frá Finni og Hákoni Ívarssyni


Síðan leggja þeir stefnulag við Hákon Ívarsson. En er þeir finnast þá bar Finnur upp erindi sín fyrir Hákon, þau er Haraldur konungur bauð honum. Fannst það brátt í ræðu Hákonar að honum þótti sér skylda mikil á vera að hefna Eindriða frænda síns, segir að honum voru þau orð komin úr Þrándheimi að honum mundi þar fást gnógur styrkur til uppreistar í móti konungi.

Síðan tjáði Finnur fyrir Hákoni hversu mikill munur honum var, að betra var að taka af konungi svo mikil metorð sem hann kynni sjálfur að beiða, heldur en hætta til þess að reisa orustu í móti konungi þeim er hann var áður þjónustubundinn við, segir að hann mun fara ósigur „og hefir þú þá fyrirgert bæði fé og friði. En ef þú sigrast á Haraldi konungi þá muntu heita drottinsviki.“

Jarl studdi og þessa ræðu með Finni.

En er Hákon hugsaði þetta fyrir sér þá lauk hann það upp er honum bjó í skapi, sagði svo: „Eg mun sættast við Harald konung ef hann vill gifta mér Ragnhildi dóttur Magnúss konungs Ólafssonar, frændkonu sína, með þvílíkri heimanfylgju sem henni sómir og henni líkar.“

Finnur segir að hann vill þessu játa af konungs hendi. Staðfesta þeir þetta mál milli sín. Síðan fer Finnur norður aftur til Þrándheims. Settist þá niður þessi ófriður og agi svo að konungur hélt þá enn ríki sínu í friði innanlands því að þá var niður drepið sambandi því öllu er frændur Eindriða höfðu haft til mótstöðu við Harald konung.