Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/51
Höfundur: Snorri Sturluson
51. Sætt Haralds konungs og Kálfs
Kálfur Árnason hafði verið í vesturvíking síðan er hann fór úr Noregi en oft á vetrum var hann í Orkneyjum með Þorfinni jarli mági sínum. Finnur Árnason bróðir hans gerði orð Kálfi og lét segja honum einkamál þau er þeir Haraldur konungur höfðu við mælst að Kálfur skyldi hafa landsvist í Noregi og eignir sínar og slíkar veislur sem hann hafði haft af Magnúsi konungi.
En er Kálfi kom sjá orðsending þá bjóst hann þegar til farar, fór austur í Noreg, fyrst á fund Finns bróður síns. Síðan tók Finnur Kálfi grið og fundust þeir sjálfir, konungur og Kálfur, gerðu þá sætt sína eftir því sem konungur og Finnur höfðu fyrr bundið einkamálum með sér. Gekk Kálfur til festu við konung og alls skildaga, slíks sem hann hafði bundið fyrr við Magnús konung, að Kálfur væri skyldur að gera þau verk öll sem Haraldur konungur vildi og honum þætti sitt ríki bæta. Tók Kálfur þá upp eignir sínar allar og veislur sem hann hafði fyrr haft.