Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/56

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
56. Jartegnir Ólafs konungs


Greifi einn var í Danmörku, illur og öfundfullur. Hann átti ambátt eina norræna æskaða úr Þrændalögum. Hún dýrkaði hinn helga Ólaf konung og trúði fastlega hans heilagleik. En sá greifi, er áðan gat eg, tortryggði allt það er honum var frá sagt þess helga manns jartegnum, kvað ekki vera nema kvitt og pata einn, gerði sér að gabbi og gamni lof og dýrð þá er landsfólk allt veitti þeim góða konungi.

En nú kom að þeim hátíðardegi er sá mildi konungur lét líf sitt á og allir Norðmenn héldu. Þá vildi sá hinn óvitri greifi ekki heilagt halda og bauð hann ambátt sinni að hún skyldi baka og elda ofn til brauðs á þeim degi. Vita þóttist hún æði þess greifa að hann mundi henni sárlega hefna ef hún léti eigi að því sem hann bauð henni. Gengur hún til nauðig og bakaði ofninn og kveinaði mjög meðan hún starfaði og heitaðist við Ólaf konung og kvaðst aldrei mundu á hann trúa, nema hann hefndi með nokkurri bendingu þessi ódæmi. Nú megið þér hér heyra maklegar refsingar og sannlegar jartegnir. Allt var það jafnskjótt og á einni stundu er greifi sá varð blindur báðum augum og brauð það varð að grjóti er hún hafði í ofninn skotið. Komið er af því grjóti til staðar hins helga Ólafs konungs og víða annars staðar. Síðan hefir Ólafsmessa haldin verið ávallt í Danmörk.