Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/58
Haraldur konungur lét reisa kaupstað austur í Ósló og sat þar oft því að þar var gott til aðfanga, landsmegin mikið umhverfis. Sat hann þar vel til landsgæslu fyrir Dönum, svo og til áhlaupa í Danmörk. Hann var oft því vanur þótt hann hefði ekki mikinn her úti.
Það var á einu sumri að Haraldur konungur fór með nokkurum léttiskipum og hafði ekki mikið lið. Hann hélt suður í Víkina en er byr gaf siglir hann yfir undir Jótland, tók þá og herjaði en landsmenn söfnuðust saman og vörðu land sitt.
Þá hélt Haraldur konungur til Limafjarðar og lagði inn í fjörðinn. Svo er háttað Limafirði að þar er inn að fara svo sem mjór áráll en er inn kemur eftir firðinum þá er þar sem mikið haf. Haraldur herjaði þar á bæði lönd en Danir höfðu hvarvetna safnað fyrir. Þá lagði Haraldur konungur skip sín að eyju nokkurri. Það var lítið land og óbyggt.
En er þeir leituðu að þá fundu þeir ekki vatn, segja til konungi. Hann lét leita ef lyngormur nokkur fyndist í eyjunni en er hann fannst þá færðu þeir konungi. Hann lét færa orminn til elds og baka hann og mæða að hann skyldi þyrsta sem mest. Síðan var þráður bundinn við sporðinn og ormurinn laus látinn. Hrökktist hann þá brátt en þráðurinn raktist af tvinnahnoðanu. Gengu menn eftir orminum þar til er hann steyptist niður í jörðina. Konungur bað þar grafa til vatns. Var svo gert, fundu þar vatn svo að eigi skorti.
Haraldur konungur spurði þau tíðindi af njósnarmönnum sínum að Sveinn konungur var kominn með skipaher mikinn fyrir fjarðarmynnið. Og varð honum seint inn að fara er eitt mátti fara senn skipið. Haraldur konungur hélt skipum sínum inn í fjörðinn. Og þar er breiðastur er heitir Lúsbreið en þar úr víkinni innanverðri er eið mjótt vestur til hafs. Þannug reru þeir Haraldur um kveldið.
En um nóttina er myrkt var orðið ruddu þeir skipin og drógu um eiðið og höfðu það sýslað allt fyrir dag og búin skipin öðru sinni, héldu þá norður fyrir Jótland.
Þá mæltu þeir:
- Skrapp úr höndum
- Haraldr Dönum.
Þá sagði konungur að hann skyldi svo koma í Danmörk annað sinn að hann skyldi meira lið hafa og stærri skip. Fór þá konungurinn norður í Þrándheim.