Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/64
Hákon jarl lá með sitt skip eftir er konungur og annað lið rak flóttann því að jarls skip mátti eigi þar fram fara fyrir skipum þeim er fyrir voru. Þá reri einn maður á báti að skipi jarls og lagði að lyftingu. Sá var mikill maður og hafði víðan hött.
Sá kallar upp á skipið: „Hvar er jarl?“
Hann var í fyrirrúmi og stöðvaði blóð manni einum. Jarl sá til hattarmannsins og spurði hann að nafni.
Hann segir: „Vandráður er hér. Mæl þú við mig jarl.“
Jarlinn laut út yfir borðið til hans.
Þá mælti bátmaðurinn: „Þiggja mun eg líf að þér ef þú vilt veita.“
Jarl reis upp og nefndi til tvo menn sína þá er honum voru báðir kærir, segir svo: „Stígið á bátinn og flytjið Vandráð til lands. Fylgið honum til Karls bónda vinar míns. Segið honum það til jartegna að hann fái Vandráði hest þann er eg gaf Karli fyrra dag og söðul sinn og son sinn til fylgdar.“
Síðan stigu þeir á bátinn og taka til ára en Vandráður stýrði. Þetta var í brum lýsingarinnar. Var þá og sem mestur skipagangur, reru sumir til landsins, sumir út til hafsins bæði smám skipum og stórum. Vandráður stýrði þar er honum þótti rýmst milli skipanna. En þar sem Norðmanna skip reru nær þeim þá sögðu jarlsmenn til sín og létu allir þá fara hvert er þeir vildu. Vandráður stýrði fram með ströndunni og lagði eigi að landi fyrr en þeir komu um fram það er skipafjöldinn var.
Síðan gengu þeir upp til bæjar Karls og tók þá að lýsa. Þeir gengu inn í stofu. Var Karl þar og nýklæddur. Jarlsmenn sögðu honum erindi sín. Karl mælti, sagði að þeir skyldu snæða fyrst og lét setja þeim borð og fékk þeim laugar.
Þá kom húsfreyja í stofu og mælti þegar: „Undur mikið er það er vér fáum aldrei svefn eða ró í nótt fyrir ópi eða glammi.“
Karl svarar: „Veistu eigi það að konungar hafa barist í nátt?“
Hún spurði: „Hvor hefir betur haft?“
Karl svarar: „Norðmenn hafa sigrast.“
„Flúið mun enn hafa konungurinn vor,“ segir hún.
Karl svarar: „Eigi vita menn það hvort hann hefir fallið eða flúið.“
Hún mælti: „Vesöl erum vér konungs. Hann er bæði haltur og ragur.“
Þá mælti Vandráður: „Eigi mun konungur ragur en ekki er hann sigursæll.“
Vandráður tók síðast laugarnar en er hann tók dúkinn þá strauk hann sér á miðjum. Húsfreyja tók dúkinn og kippti frá honum.
Hún mælti: „Fátt gott kanntu þér. Það er þorparlegt að væta allan dúkinn senn.“
Síðan tók Karl upp borð fyrir þá og settist Vandráður í miðju. Snæddu þeir um hríð en síðan gengu þeir út. Var þá hestur búinn og karlsson að fylgja honum og hafði hann annan hest. Ríða þeir brott til skógar en jarlsmenn gengu til báts síns og róa út til jarlsskipsins.