Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/85

En er Haraldur konungur sá að fylking enskra manna var komin ofan með díkinu gegnt þeim þá lét hann blása herblásturinn og eggjaði herinn ákaflega, lét þá fram bera merkið Landeyðuna, snaraði þá atgönguna svo harða að allt hrökk fyrir. Gerðist þá mannfall mikið í liði jarla. Snerist þá liðið brátt á flótta, flýði sumt upp með ánni og ofan en flest fólkið hljóp út á díkið. Lá þar svo þykkt valurinn að Norðmenn máttu ganga þurrfætis yfir fenið. Þar týndist Mörukári jarl.

Svo segir Steinn Herdísarson:

Þjóð fórst mörg í móðu.
Menn drukknuðu sokknir.
Drengr lá ár um ungan
ófár Mörukára.
Fira drottinn rak flótta
framr. Tók her á ramri
rás fyr röskum vísa.
Ríklundaðr veit undir.

Þessa drápu orti Steinn Herdísarson um Ólaf, son Haralds konungs, og getur hér þess að Ólafur var í orustu með Haraldi konungi föður sínum.

Þessa getur og í Haraldsstikka:

Lágu fallnir
í fen ofan
Valþjófs liðar,
vopnum höggnir,
svo að gunnhvatir
ganga máttu
Norðmenn yfir
að nám einum.

Valþjófur jarl og það lið er undan komst flýði upp til borgarinnar Jork. Var þar hið mesta mannfall. Orusta var miðvikudag næsta dag fyrir Mattheusmessu.