Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/12
Gunnhildarsynir buðu út liði miklu úr Víkinni, fara svo norður með landi og hafa lið og skip úr hverju fylki, gera það bert að þeir munu her þeim stefna norður til Þrándheims á hendur Hákoni jarli. Þessi tíðindi spyr jarl og safnar her saman og ræður til skipa.
En er hann spyr til hers Gunnhildarsona, hversu mikinn þeir hafa, þá heldur hann liði sínu suður á Mæri og herjar allt þar er hann fór og drap mikið mannfólk. Og þá sendi hann aftur Þrændaher, bændalið allt, en hann fór herskildi um Mæri hvoratveggju og Raumsdal og hafði njósnir allt fyrir sunnan Stað um her Gunnhildarsona. Og er hann spurði að þeir voru komnir í Fjörðu og biðu byrjar að sigla norður um Stað þá sigldi Hákon jarl norðan fyrir Stað og útleið svo að ekki sá af landi segl hans, lét svo ganga hafleiðis austur með landi og kom fram í Danmörk, sigldi þá í Austurveg og herjaði þar um sumarið.
Gunnhildarsynir héldu liði sínu norður til Þrándheims og dvöldust þar mjög lengi, tóku þar skatta alla og skyldir. En er á leið sumarið þá settust þar eftir Sigurður slefa og Guðröður en Haraldur og aðrir þeir bræður fóru þá austur í land og leiðangurslið það er farið hafði um sumarið.