Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/6
Höfundur: Snorri Sturluson
6. Upphaf Hákonar jarls Sigurðarsonar
Hákon sonur Sigurðar jarls var þá inn í Þrándheimi og spurði þessi tíðindi. Var þegar herhlaup mikið um allan Þrándheim. Var þar á vatn dregið hvert skip er herfært var. En er her sá kom saman þá tóku þeir til jarls og höfðingja yfir liðið Hákon son Sigurðar jarls. Héldu þeir liði því út eftir Þrándheimi.
En er þetta spyrja Gunnhildarsynir þá fara þeir suður í Raumsdal og á Sunn-Mæri. Halda þá hvorir njósnum til annarra.
Sigurður jarl var drepinn tveim vetrum eftir fall Hákonar konungs.
Eyvindur skáldaspillir segir svo í Háleygjatali:
- Og Sigurð hinn
- er svönum veitti
- hróka bjór
- Haddingja vals
- Farmatýs,
- fjörvi næmdu
- jarðráðendr á
- Öglói.
- Og öðlingr
- í ölun jarðar
- alnar orms
- ófælinn varð
- lífs um lattr,
- þar er landrekar
- Týs áttung
- í tryggð sviku.
Hákon jarl hélt Þrándheim með styrk frænda sinna þrjá vetur svo að Gunnhildarsynir fengu engar tekjur í Þrándheimi. Hann átti nokkurar orustur við Gunnhildarsonu en drápust marga menn fyrir.
Þess getur Einar skálaglamm í Velleklu er hann orti um Hákon jarl:
- Og oddneytir úti
- eiðvandr flota breiðan
- glaðr í Göndlar veðrum,
- gramr svafði bil, hafði,
- og rauðmána reynir
- rógsegl Héðins bóga
- upp hóf jöfra kappi
- etju lund að setja.
- Varat ofbyrjar örva
- odda vífs né drífu
- sverða sverrifjarðar
- svanglýjaði að frýja.
- Brak-Rögnir skók bogna,
- barg óþyrmir varga,
- hagl úr Hlakkar seglum,
- hjörs, rakklega fjörvi.
- Margt varð él, áðr, Ála,
- austr lönd að mun banda
- randar lauks af ríki
- rækilundr um tæki.
Enn getur Einar hvernug Hákon jarl hefndi föður síns:
- Ber eg fyr hefnd, þá er hrafna,
- hljóms lof, toginn skjóma
- það nam, vörðr, að vinna,
- vann síns föður hranna.
- Rigndi hjörs á hersa
- hríðremmis fjör víða,
- þrimlundr um jók Þundi
- þegns gnótt, méilregni.
- Og hald-Viður hölda
- haffaxa lét vaxa
- laufa veðr að lífum
- lífköld Hárs drífu.
Eftir þetta fóru milli beggja vinir og báru sættarorð milli þeirra því að bóndum leiddist hernaður og ófriður innanlands. Og kemur svo með ráði ríkra manna að sætt var ger milli þeirra svo að Hákon jarl skyldi hafa þvílíkt ríki í Þrándheimi sem haft hafði Sigurður jarl faðir hans en konungar skyldu hafa þvílíkt ríki sem Hákon konungur hafði haft fyrir þeim og var það þá bundið fullum trúnaði.
Þá gerðist kærleikur mikill með þeim Hákoni jarli og Gunnhildi en stundum beittust þau vélræðum. Leið svo fram aðra þrjá vetur. Sat þá Hákon um kyrrt í ríki sínu.