Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/9

Það var á einu hausti að Hákon jarl fór til Upplanda. En er hann kom út á Heiðmörk þá kemur þar í móti honum Tryggvi konungur Ólafsson og Guðröður konungur Bjarnarson. Þar kom og Dala-Guðbrandur. Þeir áttu stefnulag með sér og sátu lengi á einmæli en það kom upp að hver þeirra skyldi vera vinur annars og skiljast síðan. Fór hver heim til síns ríkis.

Þetta spyr Gunnhildur og synir hennar og er þeim grunur á að þeir muni hafa gert landráð nokkur við konungana. Tala þau oftlega þetta sín á milli.

En er voraði þá lýsa þeir Haraldur konungur og Guðröður konungur bróðir hans að þeir munu fara um sumarið í víking vestur um haf eða í Austurveg sem þeir voru vanir. Þá draga þeir lið að sér og hrinda skipum á vatn og búast.

En er þeir drukku brottferðaröl sitt þá voru drykkjur miklar og mart mælt við drykkinn. Þá kom þar er mannjöfnuður varð og þá var rætt um konunga sjálfa. Mælti maður að Haraldur konungur væri framast þeirra bræðra að öllum hlutum. Því reiddist Guðröður mjög, segir svo að hann skal í engu hafa minna hlut en Haraldur, segir og að hann er búinn að þeir reyni það. Var þá brátt hvortveggi þeirra reiður svo að hvor bauð öðrum til vígs og hljópu til vopna. En þeir er vitrir voru og miður drukknir stöðvuðu þá og hljópu í milli.

Fóru þá hvorir til skipa sinna en engi var von þá að þeir mættu allir saman fara. Sigldi þá Guðröður austur með landi en Haraldur stefndi til hafs út, sagði að hann mundi sigla vestur um haf. En er hann kom út um eyjar þá stefndi hann austur hafleið með landi.

Guðröður konungur sigldi þjóðleið austur til Víkur og svo austur yfir Foldina. Þá sendi hann Tryggva konungi orð að hann skyldi koma til móts við hann og færu þeir báðir um sumarið í Austurveg að herja. Tryggvi konungur tók því vel og líklega. Hann spurði að Guðröður hafði lítið lið.

Fór þá Tryggvi konungur á fund hans með eina skútu. Þeir fundust fyrir vestan Sótanes við Veggina. En er þeir gengu á málstefnu þá hljópu að menn Guðröðar og drápu Tryggva konung og tólf menn með honum og liggur hann þar sem nú er kallað Tryggvahreyr.