Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/14

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
14. Fall Sigurðar jarls


Lið Erlings skakka vildi ganga fram að brúnni.

Hann mælti, bað þá venda upp með ánni, „er á þessi lítil og engi torfæra því að slétt er að.“

Var svo gert. Jarls fylking fór upp eftir brekkunni gegnt til. En þá er þraut brekkuna og slétt var yfir ána og gott þá mælti Erlingur að hans menn skyldu syngja Pater noster [Faðir vor] og biðja að þeir hefðu gagn er betur gegndi. Þá sungu þeir kirjál [kýrie eleíson] allir hátt og börðu vopnum allir á skjöldu sína. En við þann gný skutust á brott og flýðu þrjú hundruð manna af Erlings liði. Gekk Erlingur og hans lið yfir ána en jarlsmenn æptu heróp og þeim brást framhlaupið fyrir brekkuna að Erlings fylking. Tókst orusta á framanverðri brekkunni. Voru fyrst spjótalög og þegar brátt höggorusta. Fór á hæl jarls merki svo að Erlingur og hans menn komust upp á brekkuna. Varð þá skömm orusta áður jarls lið flýði á skóginn er að baki þeim var áður. Þá var sagt Sigurði jarli og báðu menn hann flýja.

Hann svaraði: „Fram vér nú meðan vér megum.“

Gengu þeir þá fram allhraustlega og hjuggu til beggja handa. Í þeirri hríð féll Sigurður jarl og Jón Sveinsson og nær sex tigum manna. Þeir Erlingur létu fátt manna og ráku flóttann að skóginum. Þá kannaði Erlingur liðið og hvarf aftur.

Hann kom þar að er þrælar konungs vildu draga klæði af Sigurði jarli og var hann eigi með öllu örendur og vissi þó ekki. Hann hafði fólgið sverð sitt í umgerð og lá það hjá honum. Erlingur tók það upp og laust með þrælana, bað þá braut skríða.

Eftir það hvarf Erlingur aftur með liði sínu og settist í Túnsbergi.

Sjö nóttum síðar en jarl féll tóku þeir Erlings menn Eindriða unga og var hann drepinn.