Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/19
Frírekur kæna og Bjarni hinn illi, Önundur Símonarson, Örnólfur skorpa, þeir höfðu róið á haf út með nokkurum skipum og héldu hið ytra með hafi austur fyrir land en hvar sem þeir komu við land rændu þeir og drápu vini Erlings.
En er Erlingur spurði dráp þeirra Markúss þá gaf hann heimleyfi lendum mönnum og leiðangursmönnum en hann sjálfur hélt þá sínu liði austur yfir Foldina því að hann spurði þar til Markúss manna. Erlingur hélt til Konungahellu og dvaldist þar um haustið.
Á fyrstu viku vetrar fór Erlingur út í eyna Hísing með miklu liði og krafði þar þings. Hísingsbúar komu ofan og héldu upp þingi. Erlingur bar sakir á hendur þeim um það er þeir höfðu hlaupið í flokk með Markúss mönnum og fylkt liði í móti honum.
Össur hét sá maður er ríkastur var bónda er talaði af þeirra hendi. Var þingið langt en að lyktum festu bændur dóm Erlingi en hann gerði þeim stefnulag á viku fresti í bænum og nefndi til fimmtán menn af bóndum að koma þar. En er þeir komu dæmdi Erlingur á hönd þeim að gjalda þrjú hundruð nauta. Fóru bændur heim og undu illa sínum hluta.
Litlu síðar lagði ís á ána og fraus inni skip Erlings. Þá héldu bændur gjaldinu og lágu í safnaði um hríð. Erlingur bjó þar til jólaveislu en Hísingsbúar höfðu samburðaröl og héldu sveit um jólin.
Um nóttina eftir fimmta dag jóla fór Erlingur út í eyna og tók hús á Össuri og brenndi hann inni og alls drap hann tíu tigu manna og brenndi þrjá bæi, fór síðan aftur í Konungahellu. Síðan komu bændur til hans og guldu gjaldið.