Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/26

Erlingur skakki kom til býjarins þann tíma er sunginn var óttusöngur uppi að Kristskirkju. Þeir Erlingur hljópu í býinn og var þeim sagt að Álfur hroði, sonur Óttars birtings, lendur maður, sat þá enn og drakk með sína sveit. Erlingur veitti þeim atgöngu. Var Álfur drepinn og flest öll sveit hans. Fátt féll annarra manna því að flestir höfðu gengið til kirkju. Þetta var um nóttina fyrir uppstigningardag.

Þegar um morguninn lét Erlingur blása öllu liðinu út á Eyrar til þings. En á þinginu bar Erlingur sakir á Þrændi og kenndi þeim landráð við konunginn og sig og nefndi til Bárð standala og Pál Andrésson og Rassa-Bárð, hann hafði þá býjarbyggð, og enn mjög marga aðra. Þeir svöruðu og færðu sig undan sökum.

Þá stóð upp kapalín Erlings og hélt upp bréfum mörgum og innsiglum og spurði ef þeir kenndu innsigli sín þar, þau er þeir höfðu sent um vorið Danakonungi. Voru þá og lesin upp bréfin. Þar voru og þeir hinir dönsku menn með Erlingi er með bréfum höfðu farið um veturinn. Hafði Erlingur fengið þá til þess.

Sögðu þeir þá fyrir allri alþýðu, hvers þeirra orð er mælt hafði: „Svo mæltir þú, Rassa-Bárður, og barðir á brjóstið: „Úr þessu brjósti komu að upphafi öll þessi ráð.“"

Bárður svaraði: „Ær var eg þá, herra minn, er eg mælti slíkt.“

Urðu þá engi föng önnur en festa Erlingi sinn dóm á öllu því máli. Tók hann þá þegar ógrynni fjár af mörgum mönnum en lagði alla ógilda, þá er drepnir voru, fór síðan aftur suður til Björgynjar.