Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/33

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
33. Bardagi á Ryðjökli


Ólafi kom njósn um kveldið en þeir gengu um nóttina sex rastir götu og þótti mönnum það furðu mikið farið. Þeir komu á Ryðjökul um óttusöng. Niðamyrkur var sem mest. Þeir Ólafur gengu að stofunni og æptu þá heróp, drápu þar inni nokkura menn er eigi höfðu gengið til óttusöngs.

En er þeir Erlingur heyrðu ópið hljópu þeir til vopna sinna og stefndu síðan ofan til skipanna. Þeir Ólafur mættu þeim við garð nokkurn. Varð þar bardagi. Óku þeir Erlingur undan ofan með garðinum og hlífði garðurinn þeim. Þeir höfðu lið miklu minna. Féll mart af þeim og mart varð sárt. Það hjálp þeim mest er þeir Ólafur kenndu þá eigi. Svo var myrkt. En Erlings menn leituðu einart til skipanna. Þar féll Ari Þorgeirsson, faðir Guðmundar biskups, og mart annarra hirðmanna Erlings. Erlingur varð sár á vinstri síðu og segja sumir menn að hann sjálfur drægi sverðið á sig þá er hann brá. Ormur var og mjög sár. Nauðulega komust þeir á skipin og létu þegar frá landi.

Það var kallað að þeir Ólafur hefðu hina mestu óhamingju borið til fundarins, svo sem þeir Erlingur voru fram seldir, ef þeir Ólafur hefðu meirum ráðum fram farið. Síðan kölluðu menn hann Ólaf ógæfu en sumir kölluðu þá Hettusveina.

Fóru þeir með flokk þann enn sem áður uppi um land en Erlingur jarl fór út í Víkina til skipa sinna og var eftir um sumarið í Víkinni en þeir Ólafur á Upplöndum en stundum austur á Mörkum. Höfðu þeir flokk þann svo annan vetur.