Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/36

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
36. Upphaf Eysteins sonar Eysteins konungs


Eysteinn er nefndur sá maður er kallaðist sonur Eysteins konungs Haraldssonar. Hann var þá ungur maður, eigi með öllu fullroskinn. Er frá því er sagt að hann kom fram á einu sumri austur í Svíaveldi og fór á fund Birgis brosu. Hann átti þá Brígiðu dóttur Haralds gilla, föðursystur Eysteins. Bar Eysteinn upp fyrir þau sín erindi og bað þau sér fulltings. Jarl og bæði þau tóku vel hans máli og hétu honum sínu trausti. Dvaldist hann þar um hríð. Birgir jarl fékk Eysteini nokkurn liðskost og góða peninga til skotsilfurs sér og leysti hann vel af hendi. Hétu þau bæði honum sinni vináttu.

Eysteinn fór þá norður í Noreg og kom ofan í Víkina. Dreif þá þegar lið til hans og efldist flokkur sá. Tóku þeir Eystein til konungs og voru þeir með flokk þann í Víkinni um veturinn. En fyrir því að þeim varð féfátt þá rændu þeir víða en lendir menn og bændur gerðu lið að þeim. En er þeir voru ofurliði bornir þá flýðu þeir brott á skóga og lágu löngum á eyðimörkum. Gengu þá klæði af þeim svo að þeir spenntu næfrum um fótleggi sér. Þá kölluðu bændur þá Birkibeina. Þeir hljópu oft í byggðina og komu fram hér og hvar og réðu þegar til áhlaupa er eigi var fjölmennt fyrir. Þeir áttu nokkurar orustur við bændur og höfðu ýmsir betur. Þrjár orustur áttu Birkibeinar svo að fylkt var til og höfðu þeir sigur í öllum. Á Krókaskógi lagði þeim nær óför. Kom að þeim bóndasafnaður, fjöldi liðs. Birkibeinar felldu brota fyrir þá og hljópu síðan á mörkina.

Birkibeinar voru tvo vetur í Víkinni svo að þeir komu ekki norður í land.