Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/5

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
5. Frá liði Erlings


Erlingur var í Björgyn og hafði lið mikið og tók það til ráðs að hann lagði farbann fyrir kaupskip öll er fara vildu norður til Kaupangs fyrir því að hann hugði að of skjótt mundi koma Hákoni njósn ef skipin færu í milli og fann þó það til, að Björgynjarmenn væru maklegri að hafa gæsku þá er á skipunum var, þótt ódýrra væri keypt að byrðingsmönnum en þeim þætti fallið „heldur en flutt væri í hendur fjandmönnum vorum og óvinum, þeim til styrks.“

Nú söfnuðust skip til býjarins því að mörg komu hvern dag en engi fóru í brott. Þá lét Erlingur setja upp skip sín, þau er léttust voru, og lét þann kvitt fara að hann mundi þar bíða og veita viðurtöku við vina sinna fullting og frænda.

En einnhvern dag lét Erlingur blása til stýrimannastefnu og gaf þá lof öllum kaupskipa stýrimönnum að fara hvert er þeir vildu. En er menn höfðu fengið leyfi af Erlingi skakka, þeir er fyrir byrðingum réðu og áður lágu albúnir að fara með varnaði sínum, sumir með kaupum en sumir áttu önnur erindi, var það þá og veður, er vel var segltækt norður með landi. Og fyrr en nón kæmi þess dags höfðu allir siglt, þeir er búnir voru. Sótti sá sína ferð ákaflegast er skip hafði skjótast. Kepptist hver við annan.

En er þetta samflot kom norður á Mæri, þar var þá fyrir lið Hákonar konungs og sjálfur hann var þar í liðsafnaði og búnaði og stefndi til sín lendum mönnum og leiðangursmönnum og hafði þá áður langa hríð ekki til tíðinda spurt af Björgyn, en nú fengu þeir eina njósn af öllum skipum er sunnan fóru að Erlingur skakki hafði upp sett skip sín í Björgyn og mundu þeir hans eiga þangað að vitja og sögðu að hann hefði mikið lið.

Þaðan sigldi Hákon til Véeyjar en gerði frá sér inn í Raumsdal Sigurð jarl og Önund Símonarson að fá sér lið og skip en hann sendi frá sér menn á Mæri hvoratveggju. En er Hákon konungur hafði dvalist fár nætur í kaupbænum þá lagði hann brott og suður nokkuru lengra og þótti sem þá mundi fljótara byrjuð þeirra ferð og lið mundi skjótara til hans koma.

Erlingur skakki hafði leyft brottferð byrðingum úr Björgyn sunnudag en Týsdag er lokið var formessum var blásið konungslúðri og stefnt til sín liðsmönnum og býjarmönnum og lét setja fram skip þau er áður voru upp sett.

Erlingur átti húsþing við lið sitt og leiðangursmenn, sagði þá ætlan sína, nefndi menn til skipstjórnar, lét lesa upp hverjir skráðir voru á konungsskipinu. Lauk svo þessu þingi að Erlingur bað hvern búast um í sínu rúmi hvar sem skipað var, lét þann missa skyldu lífs eða lima er þá dveldist eftir í bænum er hann legði braut Bækisúðinni. Ormur konungsbróðir lagði þegar brott sínu skipi um kveldið og flest skip höfðu áður verið á floti.