Heimskringla/Magnúss saga berfætts/10


Síðan hélt Magnús konungur liðinu til Bretlands. En er hann kom í Öngulseyjarsund þá kom þar mót honum her af Bretlandi og réðu jarlar tveir fyrir, Hugi prúði og Hugi digri, og lögðu þegar til orustu. Varð þar harður bardagi. Magnús konungur skaut af boga en Hugi prúði var albrynjaður svo að ekki var bert á honum nema augun ein. Magnús konungur skaut öru að honum og annar háleyskur maður er stóð hjá konungi. Skutu þeir báðir senn. Kom önnur örin í nefbjörg hjálmsins og lagðist hún fyrir út af annan veg en annað skotið kom í auga jarlinum og flaug aftur í gegnum höfuðið og er það konunginum kennt. Féll þar Hugi jarl en síðan flýðu Bretar og höfðu látið lið mikið.

Svo segir Björn krepphendi:

Lífspelli réð laufa
lundr í Öngulssundi,
broddr fló, þar er slög snuddu,
snúðigt, Hugans prúða.

Og enn var þetta kveðið:

Dundi broddr á brynju.
Bragningr skaut af magni.
Sveigði allvaldr Egða
álm. Stökk blóð á hjálma.
Strengs fló hagl í hringa,
hné ferð, en lét verða
Hörða gramr í harðri
hjarlsókn banað jarli.

Magnús konungur fékk sigur í þeirri orustu. Þá eignaðist hann Öngulsey svo sem hinir fyrri konungar höfðu lengst suður eignast ríki, þeir er í Noregi höfðu verið. Öngulsey er þriðjungur Bretlands.

Eftir orustu þessa snýr Magnús konungur aftur liði sínu og hélt fyrst til Skotlands. Þá fóru menn milli þeirra Melkólms Skotakonungs og gerðu þeir sætt milli sín. Skyldi Magnús konungur eignast eyjar allar þær er liggja fyrir vestan Skotland, allar þær er stjórnföstu skipi mætti fara milli og meginlands. En er Magnús konungur kom sunnan til Saltíris þá lét hann draga skútu um Saltíriseið og leggja stýri í lag. Konungur sjálfur settist í lyfting og hélt um hjálmunvöl og eignaðist svo landið það er þá lá á bakborða. Saltíri er mikið land og betra en hin besta ey í Suðureyjum, nema Mön. Eið mjótt er í milli og meginlands á Skotlandi. Þar eru oft dregin langskip yfir.