Heimskringla/Magnúss saga berfætts/20
Skofti Ögmundarson byrjar ferð sína um vorið eftir af landi í brott. Hann hafði fimm langskip og öll vel búin. Til þeirrar ferðar réðust með honum synir hans, Ögmundur og Finnur og Þórður. Urðu þeir heldur síðbúnir, sigldu um haustið til Flæmingjalands og voru þar um veturinn. Snemma um vorið sigldu þeir vestur til Vallands og um sumarið sigldu þeir út um Nörvasund og um haustið til Rúmaborgar. Þar andaðist Skofti. Allir önduðust þeir feðgar í þeirri ferð. Þórður lifði lengst þeirra feðga. Hann andaðist í Sikiley. Það er sögn manna að Skofti hafi fyrst siglt Nörvasund Norðmanna og varð sú ferð hin frægsta.