Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/10

Heimskringla - Magnúss saga blinda og Haralds gilla
Höfundur: Snorri Sturluson
10. Upphaf orustu í Konungahellu


Úr býnum bjuggust þrettán byrðingar og ætluðu til Björgynjar og týndust ellefu með mönnum og fé og öllu því er á var en hinn tólfta braut og héldust mennirnir en féið týndist. Þá fór Loftur prestur til Björgynjar og hélt hann heilu. Lafransvökudag týndust byrðingarnir.

Eiríkur Danakonungur og Össur erkibiskup sendu orð báðir til Konungahellu og báðu þá varast um stað sinn, sögðu að Vindur höfðu úti her mikinn og herjuðu víða á kristna menn og höfðu jafnan sigur. Býjarmenn lögðu of lítinn hug á sitt mál, afræktust og óminntust þess að meir er lengra leið frá þeirri ógn er yfir hafði komið.

Lafransvökudag þá er talað var fyrir hámessu kom Réttibur Vindakonungur til Konungahellu og hafði hálft sétta hundrað Vindasnekkjur en á hverri snekkju voru menn fjórir tigir og fjórir og tveir hestar. Dúnímis hét systurson konungs en Únibur hét höfðingi einn er réð fyrir miklu liði. Þeir tveir höfðingjar reru upp með herinum sumum eystri kvísl um Hísing og komu svo ofan að býnum en sumu liðinu lögðu þeir upp vestri kvísl til býjarins. Þeir lögðu að landi út við stikin og létu þar upp hestaliðið og riðu þar um Bratsás og svo upp um býinn.

Einar Andréssmágur bar þessi tíðindi upp til Kastalakirkju því að þar var býjarlýðurinn og hafði sótt til hámessu og kom Einar þá er Andrés prestur talaði. Einar segir mönnum að her fór að bænum með fjölda skipa en sumt liðið reið ofan um Bratsás. Þá mæltu margir að þar mundi vera Eiríkur Danakonungur og væntu menn sér griða af honum. Þá hljóp fólkið allt ofan í býinn til fjár síns og vopnuðust og gekk ofan á bryggjur, sáu þá þegar að ófriður var og óflýjandi her.

Austurfararskip níu flutu í ánni fyrir bryggjum er kaupmenn áttu. Vindur lögðu þar fyrst að og börðust við kaupmennina. Kaupmenn vopnuðust og vörðust lengi, vel og drengilega. Varð þar orusta hörð áður kaupmenn yrðu unnir. Í þeirri hríð létu Vindur hálft annað hundrað skipa að öllu liði. Þá er bardaginn var sem mestur stóðu bæjarmenn á bryggjum og skutu á heiðingja en er orusta rénaði flýðu býjarmenn upp í bæinn og síðan til kastala allt fólk og höfðu menn með sér dýrgripi sína og allt fé það er með mátti komast. Solveig og dætur hennar og tvær konur aðrar gengu upp á land.

Þá er Vindur höfðu unnið kaupskipin gengu þeir á land og könnuðu lið sitt og birtist þá skaði þeirra. Hljópu þeir sumir í býinn, sumir á kaupskipin og tóku fé allt það er þeir vildu með sér hafa. Því næst lögðu þeir eld í býinn og brenndu hann allan og svo skipin. Eftir það sóttu þeir öllu liðinu að kastalanum og skipuðu til atsóknar.