Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/12
Höfundur: Snorri Sturluson
12. Frá Magnúsi blinda
Réttibur konungur og hans lið, það er eftir var, fór í brott og aftur til Vindlands og mart það fólk er tekið hafði verið í Konungahellu var lengi síðan í Vindlandi í þján en þeir er út voru leystir og aftur komu í Noreg til óðala sinna urðu allir að minna þrifnaði. Kaupstaðurinn í Konungahellu hefir aldregi fengið slíka uppreist sem áður var.
Magnús er blindaður hafði verið, fór síðan í Niðarós og gaf sig í klaustur og tók við munkaklæðum. Þá var skeytt þannug Hernes mikla á Frostu í próventu hans. En Haraldur réð þá einn landi eftir um veturinn og gaf öllum mönnum sættir er hafa vildu, tók þá marga menn til hirðvistar er með Magnúsi höfðu verið.
Einar Skúlason segir svo að Haraldur konungur átti tvær orustur í Danmörk, aðra við Hveðn en aðra við Hlésey:
- Ótryggum léstu eggjar,
- eljunfrár, und hári
- Hveðn á höldum roðnar,
- hrafns munnlituðr, þunnar.
Og enn þetta:
- Áttuð sókn við sléttan,
- serkrjóðr Hárs, merki,
- harðr, þar er hregg of virðum,
- Hléseyjar þröm, blésu.