Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/16


Sigurður slembidjákn og nokkurir menn með honum komu þar til herbergis er konungur svaf og brutu upp hurðina og gengu þar inn með brugðnum vopnum. Ívar Kolbeinsson vann fyrst á Haraldi konungi.

En konungur hafði drukkinn niður lagst og svaf fast og vaknaði við það er menn vógu að honum og mælti í óvitinu: „Sárt býrð þú nú við mig Þóra.“

Hún hljóp upp við og mælti: „Þeir búa sárt við þig er verr vilja þér en eg.“

Lét Haraldur konungur þar líf sitt. En Sigurður með sína menn gekk í brott. Lét hann þá kalla sér þá menn er honum höfðu heitist til föruneytis ef hann fengi Harald konung tekið af lífdögum.

Þá gengu þeir Sigurður og hans menn til skútu nokkurrar og skipuðust menn við árar og reru út á voginn undir konungsgarð. Tók þá að lýsa af degi. Þá stóð Sigurður upp og talaði við þá er stóðu á konungsbryggju og lýsti vígi Haralds konungs sér á hendur og beiddist af þeim viðurtöku og þess að þeir tækju hann til konungs svo sem burðir hans voru til.

Þá dreif þannug á bryggjurnar mart manna úr konungsgarði og svöruðu allir, sem einum munni mælti, sögðu að það skyldi aldrei verða að þeir veiti hlýðni og þjónan þeim manni er myrt hafði bróður sinn „en ef hann var eigi þinn bróðir þá áttu enga ætt til að vera konungur.“

Þeir börðu saman vopnum sínum, dæmdu þá alla útlaga og friðlausa. Þá var blásið konungslúðri og stefnt saman öllum lendum mönnum og hirðmönnum en Sigurður og hans menn sáu þann sinn kost hinn fegursta að verða í brottu.

Hann hélt á Norður-Hörðaland og átti þar þing við bændur. Gengu þeir undir hann og gáfu honum konungsnafn. Þá fór hann inn í Sogn og átti þar þing við bændur. Var hann og þar til konungs tekinn. Þá fór hann norður í Fjörðu. Var honum þar vel fagnað.

Svo segir Ívar Ingimundarson:

Tóku við mildum
Magnúss syni
Hörðar og Sygnir
að Harald fallinn.
Sórust margir
menn á þingi
buðlungs syni
í bróður stað.

Haraldur konungur var jarðaður í Kristskirkju hinni fornu.