Heimskringla/Magnúss saga góða/16

Heimskringla - Magnúss saga góða
Höfundur: Snorri Sturluson
16. Bersöglisvísur


Sighvatur orti flokk er kallaður er Bersöglisvísur og hefur hann fyrst um það að þeim þótti konungur of mjög velkja ráðin að setja bændur aftur, þá er heituðust að reisa ófrið í móti honum.

Hann kvað:

Fregn eg, að suðr með Sygnum
Sighvatr hefir gram lattan
fólkorustu að freista.
Fer eg, ef þó skulum berjast.
Förum í vopn og verjum
vel tvist konung, lystir,
hve lengi skal, hringum,
hans grund, til þess fundar?

Í því sama kvæði eru þessar vísur:

Hét, sá er féll á Fitjum,
fjölgegn og réð hegna
heiftar rán, en honum,
Hákun, firar unnu.
Þjóð hélt fast á fóstra
fjölblíðs lögum síðan,
enn eru af því, er minnir,
Aðalsteins, búendr seinir.
Rétt hygg eg kjósa knáttu
karlfólk og svo jarla,
af því að eignum lofða
Óláfar frið gáfu.
Haralds arfi lét haldast,
hvardyggr, og sonr Tryggva
lög, þau er lýðar þágu,
laukjöfn, af þeim nöfnum.
Skulut ráðgjöfum reiðast,
ryðr það, konungr, yðrum,
drottins orð til dýrðar,
döglingr, við bersögli.
Hafa kveðast lög, nema ljúgi
landherr, bændr verri,
endr í Úlfasundum,
önnur, en þú hést mönnum.
Hverr eggjar þig, harri
heiftar strangr, að ganga,
oft reynir þú, þínum
þunn stál, á bak málum?
Fastorðr skuli fyrða
fengsæll vera þengill.
Hæfir heit að rjúfa,
hjaldrmögnuðr, þér aldri.
Hver eggjar þig höggva,
hjaldrgegnir, bú þegna?
Ofrausn er það jöfri
innanlands að vinna.
Engr hafði svo ungum
áðr bragningi ráðið.
Rán hygg eg rekkum þínum,
reiðr er her, konungr, leiðast.
Gjaltu varhuga, veltir,
viðr, þeim er nú fer héðra,
þjófs, skal hönd í hófi,
hölda kvitt, um stytta.
Vinr er sá er, varmra benja,
varnað býðr, en hlýðið,
tármútaris teitir,
til, hvað búmenn vilja.
Hætt er það, er allir heitast,
áðr skal við því ráða,
hárir menn, er eg heyri,
hót, skjöldungi að móti.
Greypt er það er höfðum hneppta
heldr og niðr í feldi,
slegið hefir þögn á þegna,
þingmenn nösum stinga.
Eitt er mál, það er mæla:
„Mínn drottinn leggr sína
eign á óðul þegna.“
Öfgast búendr göfgir.
Rán mun seggr, hinn er sína
selr út, í því telja,
flaums að fellidómi
föðurleifð konungs greifum.

Eftir þessa áminning skipaðist konungur vel. Fluttu margir og þessi orð fyrir konungi. Kom þá svo að konungur átti tal við hina vitrustu menn og sömdu þeir þá lög sín. Síðan lét Magnús konungur rita lögbók þá er enn er í Þrándheimi og kölluð er Grágás. Magnús konungur gerðist vinsæll og ástsæll öllu landsfólki. Var hann fyrir þá sök kallaður Magnús hinn góði.