Heimskringla/Magnúss saga góða/26

Magnús konungur spurði þessi tíðindi og það með að Vindur höfðu her úti. Síðan stefndi Magnús konungur liði til sín og dróst honum brátt her um allt Jótland. Þá kom til hans Ótta hertogi af Saxlandi úr Brúnsvík. Hann átti þá Úlfhildi dóttur Ólafs konungs hins helga, systur Magnúss konungs. Hertoginn hafði mikla sveit manna. Danahöfðingjar eggjuðu Magnús konung að fara í móti Vindaherinum og láta eigi heiðið fólk ganga þar yfir land og eyða og var það ráð tekið að konungur snýr her sínum suður á leið til Heiðabýjar.

En er Magnús konungur lá við Skotborgará á Hlýrskógsheiði þá kom honum njósn af her Vinda og það með að þeir höfðu svo mikinn her að engi fékk talt og Magnús konungur hafði engan hlut við fjölmennis og honum væri sá einn til að flýja undan. Magnús konungur vildi þó berjast ef mönnum þættu nokkur föng á að hann mætti sigrast en flestir löttu og sögðu allir eitt að Vindur höfðu óflýjanda her, en Ótta hertogi fýsti heldur að berjast. Lét konungur þá blása saman öllum herinum og lét alla menn herklæðast og lágu þeir úti um nóttina undir skjöldum sínum því að þeim var sagt að her Vinda var kominn nær þeim. Og var konungur allhugsjúkur. Þótti honum illt ef hann skyldi flýja verða því að hann hafði það aldrei reynt. Svaf hann lítið um nóttina og söng bænir sínar.