Heimskringla/Magnússona saga/12

Heimskringla - Magnússona saga
Höfundur: Snorri Sturluson
12. Ferð Sigurðar konungs í Miklagarð


Þá er Sigurður konungur sigldi inn til Miklagarðs sigldi hann nær landi. Þar eru allt á land upp borgir og kastalar og þorp svo að hvergi slítur. Þá sá af landi í bug allra seglanna og bar hvergi í milli svo sem einn garður væri. Allt fólk stóð úti, það er sjá mátti sigling Sigurðar konungs.

Spurt hafði og Kirjalax keisari til ferðar Sigurðar konungs og lét hann upp lúka borghlið það á Miklagarði er heitir Gullvarta. Það hlið skal inn ríða keisari þá er hann hefir lengi áður í brott verið af Miklagarði og hafi vel sigrast. Þá lét keisari breiða pell um öll stræti borgarinnar frá Gullvörtu og til Laktjarna. Þar eru keisarahallir hinar ágæstu.

Sigurður konungur mælti við sína menn að þeir skyldu ríða drambsamlega í borgina og láta sér lítið um finnast alla nýbreytni er þeir sáu og svo gerðu þeir. Reið Sigurður konungur og allir hans menn með þvílíkan prís til Miklagarðs og svo til hinnar ágæstu konungshallar og var þar fyrir þeim allt búið. Sigurður konungur dvaldist þar nokkura hríð.

Þá sendi Kirjalax konungur menn til hans, hvort hann vildi þiggja af keisara sex skippund af gulli eða vildi hann að konungur léti efna til leiks þess er keisari var vanur að láta leika á Paðreimi. Sigurður konungur kaus leikinn og sendimenn sögðu að keisarann kostaði eigi minna leikinn en þetta gull.

Þá lét konungur efna til leiksins og var þá leikið að vanda og veittu allir leikar betur konungi það sinn. Drottning á hálfan leikinn og keppast í öllum leikum menn þeirra. Og segja Grikkir að þá er konungur vinnur fleiri leika á Paðreimi en drottning þá mun konungur vinna sigur ef hann fer herferð.