Heimskringla/Magnússona saga/27

Heimskringla - Magnússona saga
Höfundur: Snorri Sturluson
27. Veðjan Haralds og Magnúss


Haraldur gilli var maður hár og grannvaxinn, hálslangur, heldur langleitur, svarteygur, dökkhár, skjótlegur og frálegur, hafði mjög búnað írskan, stutt klæði og léttklæddur. Stirt var honum norrænt mál, kylfdi mjög til orðanna og höfðu margir menn það mjög að spotti.

Haraldur sat í drykkju eitt sinn og talaði við annan mann, sagði hann vestan af Írlandi. Var það í ræðu hans að þeir menn voru á Írlandi að svo voru fóthvatir að engi hestur tók þá á skeiði.

Magnús konungsson heyrði þetta og mælti: „Nú lýgur hann enn sem hann er vanur.“

Haraldur svarar: „Satt er þetta,“ segir hann, „að þeir menn munu fást á Írlandi að engi hestur í Noregi mun hlaupa um þá.“

Ræddu þeir um nokkurum orðum. Þeir voru báðir drukknir.

Þá mælti Magnús: „Hér skaltu veðja fyrir höfði þínu ef þú rennur eigi jafnhart sem eg ríð hesti mínum en eg mun leggja í móti gullhring minn.“

Haraldur svarar: „Ekki segi eg það að eg renni svo hart. Finna mun eg þá menn á Írlandi að svo munu renna og má eg veðja um það.“

Magnús konungsson svarar: „Ekki mun eg fara til Írlands. Hér skulum við veðja en ekki þar.“

Haraldur gekk þá að sofa og vildi ekki fleira við hann eiga. Þetta var í Ósló.

En eftir um morguninn þá er lokið var formessu reið Magnús upp í götur. Hann gerði orð Haraldi að koma þannug. En er hann kom var hann svo búinn, hafði skyrtu og ilbandabrækur, stuttan möttul, hött írskan á höfði, spjótskaft í hendi. Magnús markaði skeiðið.

Haraldur mælti: „Of langt ætlar þú skeiðið.“

Magnús ætlaði þegar miklu lengra og sagði að þó var of skammt. Mart var manna hjá. Þá tóku þeir skeið fram og fylgdi Haraldur jafnan bæginum.

En er þeir komu til skeiðsenda mælti Magnús: „Þú heldur í gagntakið og dró hesturinn þig.“

Magnús hafði gauskan hest allskjótan. Þeir tóku þá annað skeið aftur. Rann þá Haraldur allt skeið fyrir hestinum.

En er þeir komu til skeiðsenda þá spurði Haraldur: „Hélt eg nú í gagntakið?“

Magnús segir: „Nú tókstu fyrri til.“

Þá lét Magnús blása hestinn um hríð en er hann var búinn þá keyrir hann sporum hestinn og kom hann skjótt á hlaup. Haraldur stóð þá kyrr.

Þá leit Magnús aftur og kallaði: „Renn nú,“ segir hann.

Þá hljóp Haraldur og skjótt fram um hestinn og langt frá fram og svo til skeiðsenda. Kom hann miklu fyrr svo að hann lagðist niður og spratt upp og heilsaði Magnúsi er hann kom. Síðan fóru þeir heim til bæjar. En Sigurður konungur hafði verið meðan að messu og vissi hann þetta eigi fyrr en eftir mat um daginn.

Þá mælti hann reiðulega til Magnúss: „Þér kallið Harald heimskan en mér þykir þú fól. Ekki kanntu utanlandssiðu manna. Vissir þú það eigi fyrr að utanlandsmenn temja sig við aðrar íþróttir en kýla drykk eða gera sig æran og ófæran og vita þá ekki til manns? Fá Haraldi hring sinn og apa hann aldrei síðan meðan mitt höfuð er fyrir ofan mold.“