Heimskringla/Magnússona saga/30
Kolbeinn hét maður, ungur og fátækur, en Þóra móðir Sigurðar konungs Jórsalafara lét skera tungu úr höfði honum og var til þess eigi meiri sök, en sá hinn ungi maður, Kolbeinn, hafði etið stykki hálft af diski konungsmóður og sagði að steikari hafði gefið honum en hann þorði eigi við að ganga fyrir henni. Síðan fór sá maður mállaus langa hríð.
Þess getur Einar Skúlason í Ólafsdrápu:
- Göfug lét Hörn úr höfði
- hvítings um sök lítla
- auðar aumum beiði
- ungs manns skera tungu.
- Þann sáum vér er vorum,
- válaust numinn máli,
- hoddbrjót, þar er heitir
- Hlíð, fám vikum síðar.
Hann sótti síðan til Þrándheims og til Niðaróss og vakti að Kristskirkju.
En um óttusöng Ólafsvökudag hinn síðara þá sofnaði hann og þóttist sjá Ólaf hinn helga koma til sín og taka hendi sinni í stúfinn tungunnar og heimta. En er hann vaknaði þá var hann heill og þakkaði vorum drottni feginsamlega og hinum helga Ólafi konungi, er hann hafði heilsu og miskunn af þegið, hafði farið þannug mállaus og sótti hans heilagt skrín en þaðan fór hann heill og skorinorður.