Heimskringla/Magnússona saga/4
Sigurður konungur fór eftir um vorið liðinu vestur til Vallands og kom fram um haustið út á Galissuland og dvaldist þar annan vetur.
Svo segir Einar Skúlason:
- Ok sá er æðst gat ríki
- ól þjóðkonungr, sólar,
- önd á Jakobslandi
- annan vetr, und ranni.
- Þar frá eg hilmi herjar,
- hjaldrs, lausmæli gjalda
- gramr birti svan svartan,
- snarlyndr, frömum jarli.
En það var með þeim atburð að jarl sá er þar réð fyrir landi gerði sætt við Sigurð konung og skyldi jarl láta setja Sigurði torg til matkaupa allan veturinn. En það entist eigi lengur en til jóla og gerðist þá illt til matar því að landið er skarpt og illt matland. Þá fór Sigurður konungur með miklu liði til kastala þess er jarl átti og flýði jarl undan, því að hann hafði lítið lið. Sigurður konungur tók þar vist mikla og mikið herfang annað og lét flytja til skipa sinna, bjóst síðan í brott og fór vestur fyrir Spán.
Þá er Sigurður konungur sigldi fyrir Spán barst það að, að víkingar nokkurir, þeir er fóru að féfangi, komu í móti honum með galeiðaher. En Sigurður konungur lagði til orustu við þá og hófu svo hina fyrstu orustu við heiðna menn og vann af þeim átta galeiður.
Svo segir Halldór skvaldri:
- Og fádýrir fóru,
- Fjölnis hróts, að móti,
- vígásum hlóð vísi,
- víkingar gram ríkum.
- Náði her að hrjóða,
- hlaut drengja vinr fengi,
- fyrðum hollr, þar er félla
- fátt lið, galeiðr átta.
Síðan hélt Sigurður konungur til kastala þess er Sintré heitir og barðist þar aðra orustu. Það er á Spáni. Þar sat í heiðið fólk og herjaði á kristna menn. Hann vann kastalann og drap þar allt fólk, því að ekki vildi kristnast láta, og tók þar fé mikið.
Svo segir Halldór skvaldri:
- Stór skal eg verk þau er voru,
- Vánar dags, á Spáni,
- prútt lét slöngvir sóttan
- Sintré, konungs inna.
- Gerðist heldr við harðan
- hermönnum gram berjast
- grátt, en gerva neittu
- guðs rétti sér boðnum.