Heimskringla/Magnússona saga/7
Þá fór Sigurður konungur fram á leið og kom til eyjar þeirrar er Ívissa heitir og átti þar orustu og fékk sigur. Sú var hin sjöunda.
Svo segir Halldór skvaldri:
- Margdýrkaðr kom merkir
- morðhjóls skipastóli,
- fús var fremdar ræsir
- friðslits, til Ívissu.
Eftir það kom Sigurður konungur til eyjar þeirrar er Manork heitir og hélt þar hina áttu orustu við heiðna menn og fékk sigur.
Svo segir Halldór skvaldri:
- Knátti enn hin átta
- oddhríð vakið síðan,
- Finns rauð gjöld, á grænni,
- grams ferð, Manork verða.