Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/14


Magnús hét hinn fjórði sonur Haralds konungs. Hann fóstraði Kyrpinga-Ormur. Hann var og til konungs tekinn og hafði sinn hluta af landi. Magnús var veill á fótum og lifði litla hríð og varð sóttdauður.

Hans getur Einar Skúlason:

Auð gefr Eysteinn lýðum.
Eykr hjaldr Sigurðr skjaldar.
Lætr Ingi slög syngva.
Semr Magnús frið bragna.
Fjöldýrs, hafa fjórir,
fólktjald, komið aldrei,
rýðr bragnings kyn blóði,
bræðr und sól en æðri.

Eftir fall Haralds konungs gilla var Ingiríður drottning gift Óttari birtingi. Hann var lendur maður og höfðingi mikill, þrænskur að ætt. Hann var mikill styrktarmaður Inga konungs meðan hann var í barnæsku. Sigurður konungur var ekki mikill vinur hans og þótti hann allt hallur undir Inga konung mág sinn.

Óttar birtingur var drepinn norður í Kaupangi í einvígi um kveld er hann skyldi ganga til aftansöngs. En er hann heyrði hvininn af högginu þá brá hann upp hendi sinni og skikkju í móti og hugði að kastað væri snjákekki að honum sem títt er ungum sveinum. Hann féll við höggið. En Álfur hroði sonur hans kom þá gangandi í kirkjugarðinn. Hann sá fall föður síns og svo að maður sá er vegið hafði hljóp austur um kirkjuna. Álfur hljóp eftir honum og drap hann við sönghúshornið og mæltu menn að honum hefði vel gefið hefndina og þótti hann miklu meiri maður en áður.