Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/21


Friður góður var í Noregi öndurða daga sona Haralds konungs og var þeirra samþykki til nokkurrar hlítar meðan hið forna ráðuneyti þeirra lifði en þeir Ingi og Sigurður voru bernskir. Höfðu þeir þá eina hirð báðir en Eysteinn einn sér. Var hann maður fullroskinn að aldri. En er andað var fósturneyti þeirra Inga og Sigurðar: Sáða-Gyrður Bárðarson, Ámundi Gyrðarson, Þjóstólfur Álason, Óttar birtingur, Ögmundur sviptir og Ögmundur dengir, bróðir Erlings skakka. Lítils þótti vert um Erling meðan Ögmundur lifði. Síðan skildu þeir hirð sína Ingi og Sigurður.

Og réð þá til fulltings við Inga konung Gregoríus sonur Dags Eilífssonar og Ragnhildar dóttur Skofta Ögmundarsonar. Gregoríus hafði auð fjár og var sjálfur hinn mesti skörungur. Gerðist hann forstjóri fyrir landráðum með Inga konungi en konungur veitti honum að taka af sinni eign slíkt er hann vildi.

Sigurður konungur gerðist ofstopamaður mikill og óeirinn um alla hluti þegar er hann óx upp, og svo þeir Eysteinn báðir, og var það nokkuru nær sanni er Eysteinn var en hann var allra fégjarnastur og sínkastur. Sigurður konungur gerðist maður mikill og sterkur, vasklegur maður sýnum, jarpur á hár, munnljótur og vel að öðrum andlitssköpum. Allra manna var hann snjallastur og gervastur í máli.

Þess getur Einar Skúlason:

Snilld ber, snarpra elda
sárflóðs þess er rýðr blóði,
gefið hefir guð sjálfr jöfri
gagn, Sigurðar magni.
Svo es ef Rauma ræsir
reiðorðr tölur greiðir,
rausn vinnr gramr, sem gumnar,
glaðmæltr, þegi aðrir.