Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/8


Víkverjar og Björgynjarmenn mæltu að það var ósómi er Sigurður konungur og vinir hans sátu kyrrir norður í Kaupangi þótt föðurbanar hans færu þjóðleið fyrir utan Þrándheimsmynni en Ingi konungur og hans lið sat í Vík austur við háskann og varði landið og hafði átt margar orustur.

Þá sendi Ingi konungur bréf norður til Kaupangs. Þar stóðu þessi orð á: Ingi konungur, sonur Haralds konungs, sendir kveðju Sigurði konungi bróður sínum og Sáða-Gyrði, Ögmundi svipti, Óttari birtingi og öllum lendum mönnum, hirðmönnum og húskörlum og allri alþýðu, sælum og veslum, ungum og gömlum, guðs og sína. Öllum mönnum eru kunnug vandræði þau er við höfum og svo æska, að þú heitir fimm vetra gamall en eg þrevetur. Megum við ekki að færast nema það er við njótum vina okkarra og góðra manna. Nú þykjumst eg og mínir vinir vera nær staddir vandkvæði og nauðsyn beggja okkarra en þú eða þínir vinir. Nú gerðu svo vel að þú far til fundar míns sem fyrst og fjölmennastur og verum báðir saman hvað sem í gerist. Nú er sá okkar mestur vinur er til þess heldur að við séum æ sem sáttastir og jafnast haldnir í öllum hlutum. En með því að þú afrækist og vilt eigi fara að nauðsynlegri orðsending minni enn, sem fyrr hefir þú gert, skaltu við því búast að eg mun fara á hendur þér með lið. Skipti þá guð með okkur því að eigi megum vér hafa lengur svo búið að sitja með svo miklum kostnaði og fjölmenni sem hér þarf fyrir ófriðar sakir en þú tekur hálfar allar landskyldir og aðrar tekjur í Noregi. Lif í guðs friði. Þá svarar Óttar birtingur og stóð upp á þinginu og mælti: