Heimskringla/Ynglinga saga/19

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
19. Frá Agna

Agni hét sonur Dags er konungur var eftir hann, ríkur maður og ágætur, hermaður mikill, atgervimaður mikill um alla hluti.

Það var eitt sumar er Agni konungur fór með her sinn á Finnland, gekk þar upp og herjaði. Finnar drógu saman lið mikið og fóru til orustu. Frosti er nefndur höfðingi þeirra. Varð þar orusta mikil og fékk Agni konungur sigur. Þar féll Frosti og mikið lið með honum. Agni konungur fór herskildi um Finnland og lagði undir sig og fékk stórmikið herfang. Hann tók og hafði með sér Skjálf dóttur Frosta og Loga bróður hennar. En er hann kom austan lagði hann til Stokksunda. Hann setti tjöld sín suður á fitina. Þar var þá skógur. Agni konungur átti þá gullmenið það er Vísbur hafði átt.

Agni konungur gekk að eiga Skjálf. Hún bað konung að gera erfi eftir föður sinn. Hann bauð þá til sín mörgum ríkismönnum og gerði veislu mikla. Hann var allfrægur orðinn af för þessi. Þá voru þar drykkjur miklar. En er Agni konungur gerðist drukkinn þá bað Skjálf hann gæta mensins er hann hafði á hálsi. Hann tók til og batt rammlega menið á háls sér áður hann gengi að sofa. En landtjaldið stóð við skóginn og hátt tré yfir tjaldinu það er skýla skyldi við sólarhita.

En er Agni konungur var sofnaður þá tók Skjálf digurt snæri og festi undir menið. Menn hennar slógu þá tjaldstöngunum en köstuðu lykkju snærisins upp í limar trésins, drógu þá síðan svo að konungur hékk næst uppi við limar og var það hans bani. Skjálf og hennar menn hljópu á skip og reru í brott.

Agni konungur var þar brenndur og er þar síðan kölluð Agnafit á austanverðum Taurinum vestur frá Stokksundi.

Svo segir Þjóðólfur:

Það tel eg undr,
ef Agna her
Skjálfar ráð
að sköpum þóttu
þá er gæðing
með gullmeni
Loga dís
að lofti hóf,
hinn er við Taur
temja skyldi
svalan hest
Signýjar vers.