Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar/Þingfararbálkur

Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar (2005)
Höfundur: óþekktur og Árni Þorláksson
Þingfararbálkur
Hlutahöfundur: óþekktur

1. [Um þingreið]

Í nafni föður og sunar og andans helga skulu vær lögþing várt eiga að Öxará í þingstað réttum á tólf mánuðum hverjum og koma þar á Pétursmessu aftan. Þar skulu allir hittast forfallalaust þeir sem til eru nefndir en valdsmaður skal nefnt hafa firi páskir til þings svá marga menn úr þingi hverju sem hér váttar eða hans löglegur umboðsmaður og nefna þá menn er forverksmenn eigu og þeim þikkir vænir til skila, svá að þeir megi það með eiði sanna. En þann eið skulu þeir sverja fyrstan særan dag er þeir koma til þings með þessum eiðstaf: Að hann leggur þess hönd á helga bók og því skýtur hann til guðs að þá menn hefir hann nefnda til alþingis að því sinni er honum þótti vel fallnir til og vænir til skila eftir sinni samvisku og eigi gerði hann firi annarra manna sakir og svá skal eg jafnan gera meðan eg hefi þetta starf. Þenna eið þarf engi oftarr að sverja en of sinn.

2. [Um nefndarmenn]

Nú skal valdsmaður nefna sex menn úr Múlaþingi, sex úr Skaftárfellsþingi, fimmtán úr Rangárþingi, tuttugu úr Árnesþingi, fimmtán úr Kjalarnesþingi, fimmtán úr Þverárþingi, tólf úr Þórsnesþingi, átta úr Þorskafjarðarþingi, tíu úr Húnavatnsþingi, fimmtán úr Hegranesþingi, tólf úr Vöðlaþingi, sex úr Eyjarþingi. Nefndarmenn skulu taka kostnað sinn af þingfararkaupum, en hverr sem það geldur eigi sem nefndarmönnum er ætlað er sekur slíku sem sá er nefndur er og ferr eigi forfallalaust. Valdsmenn allir eru skyldir að koma til alþingis eða skilríkir umboðsmenn þeirra, en ef þeir koma eigi forfallalaust, segi lögmaður þeim engi lög þá tólf mánaði og það framar sem valdsmönnum virðist sakir þeirra til. Koma skulu og tólf skynsamir lærðir menn til alþingis, þeir sem byskupar láta til nefna, fjóra norðan og fjóra sunnan, tvá austan og tvá vestan. En þeir sem eigi koma forfallalaust missi reiðu sinnar af löndum hina næstu tólf mánaði. Nú eftir því sem áður er nefnt þá skulu þessir menn allir komnir til þings vera firi Pétursmessu og skal þá lögmaður þar firir vera forfallalaust. En hverr nefndarmaður er síðar kemur til alþingis en særi eru flutt, nauðsynjalaust, er sekur þrim mörkum og eigu lögréttumenn þessar nauðsynjar að virða. Nú ef valdsmaður eða hans umboðsmaður nefnir eigi svá menn til þings sem fyrir var sagt, þá eru þeir sekir þrim mörkum firi hvern þann sem ónefndur er. Hvervetna þess er þingmenn verða víttir á alþingi, þá á það fé hálft umboðsmaður konungs en hálft þingmenn allir. Það fé skal sá sjálfur reiða er sakaður er eða hans umboðsmaður. Vilja þeir eigi reiða, þá skal valdsmaður hverr reiða úr sínu valdi og taka af þeim heima, er reiða eigu, hálfu meira. En þetta fé skal leggjast til þeirra hluta sem valdsmönnum með lögmanns ráði þiki mest nauðsyn til bera þá tólf mánaði.

3. [Um vébönd og dóma]

Það er nú því næst að segja að lögmaður skal láta gera vébönd á alþingi svá víð að þeir hafi rúm firi innan að sitja sem í lögréttu eru nefndir. En lögmaður og valdsmenn skulu nefna menn í lögréttu, þrjá úr þingi hverju. En þeir menn, sem í lögréttu eru nefndir, skulu eið sverja áður þeir gangi í lögréttu með þeima eiðstaf að hann skal svá hvert mál dæma sem guð ljær hánum framast vit til jamnan sem er í lögréttu nefndur. Nú skulu þeir dæma lög um öll mál þau sem þar eru löglega fram borin, því að með lögum skal land várt byggja en eigi ólögum eyða. En sá er eigi vil öðrum laga unna hann skal eigi laga njóta. Þau mál skal fyrst dæma er til alþingis eru lögð og stærst eru. Eftir það þau er þannig eru stefnd. Síðan þau er þar verður ásæst og smæst eru. Nú það allt er lögbók skilur eigi þá skal það af hverju máli hafa er lögréttumenn verða á eitt sáttir og þeim þikkir réttast firi guði. En hverr sá er þá dóma rýfur er þar verða dæmðir, þá sekist hann fimm mörkum við konung, en átján aurum við sakarábera. Svá hverr sá maður, er sest innan vébanda að óleyfi lögréttumanna, er sekur tólf aurum. Nú skulu allir menn ganga til lögréttu þá er lögmaður lætur hringja myklu klokku og sitja svá lengi sem hann vil þing hafa. En þeir sem eigi koma til lögréttu sem mælt er, eigi hann enga uppreist síns máls á þeim degi. Menn skulu ganga úr lögréttu nauðsynja eyrindis og koma þegar aftur. En ef hann gengur öðru vís úr lögréttu en nú er skilið, þá er hann sekur tólf aurum.

4. [Um grið á þingi og vopnaburð]

Allir menn þeir, sem í alþingisför eru, skulu í griðum vera hverr við annan þar til er þeir koma aftur til heimilis síns. En ef einnhverr gengur á þessi grið, þá hefir hann firigört fé og friði sínum við alla menn. En ef menn verða særðir á alþingi eða fá einnhvern annan óhlut af manna völdum og vilja, þá eykst réttur þeirra að helmingi. Svá og ef menn bera vápn á alþingi, þá sekjast þeir þrim mörkum og láti vápnin, því að í öllum stöðum hæfir að gæta spektar og siðsemðar, en þó einkanlega í þeim stöðum mest sem til skynsemðar og spektar eru skipaðir að öndverðu og flestum verður skaði að ef nokkuð skerst í.

5. [Um leiðarþing]

Nú ef maður rýfur þann dóm er dæmður er á alþingi og vápnatak er að átt innan lögréttu og utan, þá sekist hann fimm mörkum við konungs umboðsmann en átján aurum við sakarábera. Svá er og mælt að valdsmenn skulu þing eiga eftir alþingi á leiðum og lýsa firir mönnum því sem talað var á alþingi, einkanlega hvað álykt á þeirra mál fell er úr hans valdi eru. En ef annarr tveggi frýr á sitt mál þá er heim kemur í herað og kallar rangt upp borið, þá skal þó eigi brigða dómi sektalaust, en hann má stefna ið næsta ár eftir til alþingis, og hafi þá hvártveggi mál sitt uppi, en ef með sama hætti er sem fyrr þá hafi hinn kostnað sinn aukinn hálfu af hinum er hann efldi til rangs máls og sæki það sem aðrar fjársóknir. Prófast og svá að hinn hefir rangt flutt firi lögréttumönnum er fyrri dæmðist málið og dæmt þá hinum, þá taki sá kostnað sinn hálfu aukinn og sæki sem áður váttar, og svá skal hvervitna þar sem menn verða aflaga sóttir, að lögmaður og aðrir skynsamir menn sjá að hinir sé ranglega sóttir og til laga stefndir.

6. [Um dómrof]

Alla þá dóma er um vígaferðir eru settir eða um þeirra kvenna legorð er menn eiga vígt um að lögum, þá skal þá alla með lögum sækja og með griðum til fyrsta sals. En sá er rýfur dóm lögsamðan firi sal eða að fyrstum sölum, nauðsynjalaust, þá gingur sá á grið sín og er tryggrofi og hefir firigört fé og friði. En þær eru nauðsynjar er maður er sjúkur eða sárr eða einhverjar þær nauðsynjar koma í eindaga. En sal það ið fyrsta skal fram koma innan þess mánaðar og flytja heim til hans og sé boðið með vátta tvá en hinn taki þar við eða umboðsmaður hans, nema sá vili inndælla gera honum er taka á sal. En um öll mál er menn setja lögdóma meðal manna, þá sekst sá átján aurum við sakarábera er rýfur, og halda dóm sem áður, en við konungs umboðsmann fimm mörkum og sæki hann eða valdsmaður hvárumtveggja til handa og taki hinn fyrst skuld sína upp svá sem dómur dæmði, en sekt hvárstveggja sé síðan skipt eftir fjármagni. En ef hann vil eigi dóm halda, þá skulu valdsmenn honum þing stefna og gera hann útlægan, nema hann gjaldi slíkt sem nú er talt. Það er nú og ef maður fær eigi réttindi sín í byggðum heima eða firi lögmanni, þá skal hann, sakaráberi, stefna honum til alþingis er hann fær eigi rétt af og ef hann hefir til þess sannleg vitni að hann hefir þeim þannig stefnt er mál á við hann, og það annað að mál hafi þannig farið sem hann hefir hermt, þá skulu þingmenn dæma það mál að lögfullu, hvárt sem þar eru báðir eða sá einn er fram berr og lögréttumönnum og lögmanni þikir firi bíta, nema hinum banni full nauðsyn er stefnir.