Jómsvíkinga saga/11. kafli

Jómsvíkinga saga
11. kafli
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

11. kafli

breyta

Enn er svo um vorið, að Pálnatóki kömur að máli við fóstra sinn og mælti við hann: „Nú skaltu búa skip þín öll og fara síðan á fund föður þíns með öllu liði þínu albúnu. Þú skalt ganga fyrir hann og mæla að hann leggi til við þig tólf skip og öll skipuð af mönnum, og ef það fæst eigi af honum, þá bjóttú honum bardaga þegar í stað með því liði sem þá hefir þú, og haf aldregi verið grimmari í orðum við hann en nú.“

Nú gerir Sveinn svo sem Pálnatóki ræður honum, og fer með öllu liði sínu þar til er hann hittir Harald konung föður sinn og krefur hann þess er fóstri hans réð honum. Og er því var lokið, þá svarar konungurinn:

„Þú ert maður svo djarfur,“ segir hann, „að eg veit trautt þinn maka, er þú þorir að koma á minn fund, þvíattú ert bæði víkingur og þjófur, og það hygg eg attú sér einn hinn versti maður að hvevetna því er þú mátt sjálfur ráða. Og eigi þarftu til þess að ætla, að eg ganga við frændsemi við yður, þvíað eg veit víst attú ert ekki minnar ættar.“

Sveinn segir: „Að vísu em eg þinn son,“ segir hann, „og sönn er okkur frændsemi, en þó skal eg ekki þér þyrma í engan stað, og ef þú lætur eigi gangast það er eg kref þig, þá skal nú reyna með okkur, og skulu við nú berjast þegar í stað, og skaltu hvergi fá undan hokrað.“

Konungurinn svarar: „Vandræðamaður ertu,“ segir hann, „og þannig hefir þú nakkvað skaplyndi sem þú mynir vera nokkorra eigi allsmárra manna, og mundu hafa verða það er þú beiðir, og far síðan braut úr mínu ríki og til annarra landa og kom hér aldri síðan meðan mitt líf er.“

Nú ræðst Sveinn í braut með fjögur skip og tuttugu. Hann fer þar til er hann kömur heim á Fjón til Pálnatóka fóstra síns, og voru öll skip hans vel skipuð. Pálnatóki tekur vel við fóstra sínum - „og þyki mér þú vel hafa þau tillög,“ segir hann, „er eg legg fyrir þig, og skulu við nú ráða um báðir samt, hvað okkur sýnist rállegast. Nú skaltu fara í sumar, og skal þér nú frjáls vera öll Danmörk til hernaðarins, nema hér á Fjóni er eg á friðland. Hér skaltu nú og hafa friðland.“

Og nú er þetta er tíðast, þá er Sveinn átján vetra gamall.

Pálnatóki lýsir yfir því, að hann ætlast að fara úr landi um sumarið og til Bretlands að hitta Stefni jarl mág sinn, og lézt hafa mundu tólf skip, - „en þú Sveinn,“ segir hann, „far svo nú með öllu sem eg gef ráð til, en eg mun vitja þín er á líður sumarið með mikið lið, því að mig grunar að nú mun görr her á hendur þér í sumar, og mun konungur eigi þola þér lengur attú gangir á hans ríki, og mun eg þá veita þér lið. En þú hygg að því vandlega, attú flý eigi undan, þó að liðið sé að þér gert, og halt upp bardaga við þá, þó að liðsmunur sé nokkur.“

Nú skiljast þeir Pálnatóki og Sveinn, og fer sína leið hvor þeirra, og fara þeir nú báðir senn, og ræðst Pálnatóki til Bretlands. En Sveinn tekur nú það ráð sem honum var til kennt: herjar nú á nýjaleik á ríki föður síns nátt með degi og fer víða yfir landið, og flýja landsmenn undan og á fund konungsins og þykjast illa leiknir verða og segja honum til vandræða sinna og biðja að hann taki nakkvað skjótt úrráð.

Og nú þykir konunginum eigi vera mega svo búið, og þykist þá lengur hafa setið Sveini þann hlut er hann mundi eigi öðrum þola. Lætur hann nú búa síðan fimm tigi skipa og fer sjálfur með því liði og ætlar að drepa Svein og allt lið hans.

Og er á líður haustið, þá hittast þeir Haraldur konungur og Sveinn við aftan síð við Borgundarhólm, svo að hvorir sjá aðra. En þá var þó svo kveldað, að þá var eigi vígljóst, og leggja þeir skip sín í lægi.

En um daginn eftir, þá berjast þeir allan dag til nætur, og þá eru hroðin tíu skip Haralds konungs, en tólf af Sveini, og lifir enn hvortveggi þeirra, og leggur Sveinn nú skip sín inn í vogsbotninn um kveldið. En þeir Haraldur konungur tengja saman skip sín um þveran voginn fyrir utan og leggja stafn við stafn, og búa svo umb, að Sveinn væri inni tepptur í voginum, og ætla að hann skyldi eigi út koma skipunum, þótt hann vildi við það leita.

En um morgininn ætla þeir að leggja að þeim og drepa af þeim hvert mannsbarn og taka Svein af lífi.

Og það sama kveld er til slíkra stórtíðenda horfist, þá kömur Pálnatóki vestan af Bretlandi og verður þá landfastur það sama kveld við Danmörk og hafði fjögur skip og tuttugu. Hann leggur undir nesið öðru megin og tjaldar þar um skip sín. Og er því var lokið, þá gengur Pálnatóki af skipi einn saman á land upp og hefir örvamél á baki.

Það ber að móti umb, að Haraldur konungur gengur á land upp og menn með honum. Þeir gingu í skóg og gerðu þar eld fyrir sér og bakast þar við. Þeir sitja á lág einni allir saman, en þá er myrkt orðið af nótt er þetta er.

Pálnatóki gengur upp til merkurinnar og gagnvert þar sem konungur bakast við eldinn og stendur þat of hríð.

En konungurinn í annan stað bakast við eldinn og bakar bringspöluna á sér og er kastað undir hann klæðum, og stendur hann á knjánum og ölbogunum og lýtur hann niður mjög við, er hann bakast við eldinn. Hann bakar og við axlirnar, og ber þá upp við mjög stjölinn konungs.

Pálnatóki heyrði görla mál þeirra, og þar kennir hann görla mál Fjölnis föðurbróður síns.

Og nú leggur hann ör á streng og skýtur hann til konungsins, og er svo sagt af flestum fræðimönnum, að örin flýgur beint í rassinn konunginum og eftir honum endilöngum og kom fram í munninn, og fellur konungurinn þegar á jörð niður örendur, sem von var. En förunautar hans sjá hvað í hafði gerzt og þótti þetta öllum vera hið mesta býsn.

Þá tekur Fjölnir til orða og kvað þann mann hafa sótt hið mesta óhapp er þetta verk hafði unnið og fyrir ráðið - „og er þetta hið mesta fádæmi, þannig sem atburður hefir orðið umb.“ „En hvað skulu vér nú til táðs taka?“ sögðu þeir. En allir mátu við Fjölni, fyrir því að hann var þeirra vitrastur og mest virður.

Það er nú frá sagt að Fjölnir gengur að þangað er konungurinn liggur og tekur í braut örina, þaðan sem hún hafði staðar numið, og hirðir hana svo búna sem þá var hún. En örin var auðkennd, þvíað hún var gulli reyrð. Síðan mælti Fjölnir við þá menn er þar voru við staddir: „Það legg eg helzt til ráða,“ segir hann, „að vér hafim mjög allir eina frásögn um þenna atburð, og þyki mér eigi annað vera frá segjanda en hann hafi skotinn verið í bardaganum um daginn áður, og verður oss það mest skemmd og svívirða er við höfum verið staddir þenna atburð með slíkum undrum sem orðið hefir, að gera þetta augljóst fyrir alþýðu manns.“

Og síðan bundu þeir þetta fastmælum með sér og héldu þessu allir um frásögn, sem þeir höfðu nú samið með sér.

En Pálnatóki fór til skipa sinna fyrst eftir verkið og kallaði síðan með sér tuttugu menn og lézt fara vildu að finna Svein fósra sinn.

Og nú fara þeir frá skipunum og umb nesið þvert og hittast þeir þar um nóttina og ræða með sér, hvað þeir skyldi til ráða taka; kveðst Pálnatóki þau orð hafa spurð frá Haraldi konungi, að hann mundi þeim atgöngu ætla að veita þegar er vígljóst væri um morguninn. En þó skal eg enda það er eg hét þér, þars eg em nú til kominn, að eg skal veita þér allt slíkt er eg má, og eitt skal yfir okkur ganga.“

Engi maður vissi það enn af liði þeirra Sveins og Pálnatóka, að konungurinn væri líflátinn, nema hann sjálfur, Pálnatóki, og lætur hann sem ekki hafi í gerzt til tíðenda, og segir hann þetta engum manni að svo búnu. Sveinn tekur til orða og mælti við fóstra sinn: „Þess vil eg biðja, fóstri,“ segir hann, „attú leitir ráðs nökkurs þess er oss megi hlýða, þar sem nú er komið.“ Pálnatóki segir: „Ekki skulu við seint til ráða taka: Vér munum hér ganga á skip með yður og síðan skulu vér leggja þau úr tengslum og binda akkeri fyrir barð hverju skipi. Vér skulum og hafa skriðljós undir tjöldum, þvíað nú er náttmyrkur á. Síðan skulu vér róa út á flotann konungsins sem harðast, og er mér leitt að Haraldur konungur kvíi oss hér í vogsbotninum á morgin og drepi oss.“

Nú taka þeir þessa umbúð sem Pálnatóki gaf ráð til og röru að sem harðast út á þveran flotann. En þetta varð á þá leið, að þar drekktust þrjár snekkjur fyrir atróðri þeirra, og komust þeir einir menn á land er syndir voru. En þeir Pálnatóki og Sveinn röru út eftir í það sama hlið öllum sínum skipum, allt þar til er þeir koma að flota þeim er Pálnatóki átti og hann hafði þangað haft.

Og þegar um morguninn er vígljóst var orðið, þá leggja þeir að þeim konungs mönnunum, og þá spurðu þeir þau tíðendi, að konungurinn var látinn. Síðan mælti Pálnatóki: „Þá munu við gera yður tvo kosti; takið hvorn er þér vilið: annað hvort að þér skuluð halda upp bardaga við okkur og berjast, og hafi þeir gagn er auðið er. En hinn er annar kostur, að þeir menn allir er verið hafa með Haraldi konungi skulu sverja nú Sveini fóstra mínum land og þegna og taka hann til konungs yfir alla Danmörk.“

Nú bera þeir saman ráð sín konungs menninir og verða gervallir á það sáttir að taka Svein til konungs, en berjast eigi. Og síðan ganga þeir til Pálnatóka og segja honum hvað þeir kuru af, og fór það nú fram, að þeir allir er þar voru við svörðu Sveini land og þegna.

Síðan fara þeir Pálnatóki og Sveinn báðir samt of alla Danmörk. Og hvar sem þeir komu, þá lætur Pálnatóki kveðja húsþings, og er Sveinn til konungs tekinn um alla Danmörk áður en þeir létti. Og um allt Danakonungs veldi.

Og eftir það er Sveinn er konungur orðinn, þótti þá honum það skylt, sem öllum öðrum konungum, að erfa föður sinn fyrir hinar þriðju veturnætur. Hann ætlar nú þegar að hafa þessa veizlu og fresta því ekki lengur. Hann býður fyrstum Pálnatóka fóstra sínum til erfis þess og þeim Fjónbyggjum, vinum hans og frændum. En Pálnatóki svarar því svo, að hann lézt eigi lagi mundu á koma fyrir þær veturnætur er næstar voru, að koma til boðsins. „Er það komið til eyrna mér,“ segir hann, „er mér þykir stórtíðendum sæta, að Stefnir mágur minn Bretlands jarl sé andaður, og verð eg þangað að fara nauðsynlega, þvíað eg á að hafa það ríki eftir hans dag.“

Og er Pálnatóki þykist eigi koma mega til erfisins, þá eyddist nú erfisgerðin fyrir konunginum, fyrir því að hann vill fyrir hotvetna fram að fóstri hans sé að boðinu.