Jómsvíkinga saga/12. kafli
12. kafli - Frá Pálnatóka
breytaPálnatóki fer nú úr landi í braut of haustið með skipalið sitt. Og áður en hann færi, þá setur hann þar til eftir Áka son sinn að ráða búum sínum þar á Fjóni og öllu því er hann átti þar og bað honum virkta við konunginn Svein áður þeir skildi, og hét konungur því Pálnatóka, að hann skyldi veita Áka hina beztu umsjá, og það sama endi hann.
Síðan réðst Pálnatóki í braut og fer þar til er hann kömur til Bretlands og tekur við ríki því er Stefnir mágur hans hafði átt og Björn hinn brezki, og liðu af þau misseri hin næstu.
Og um sumarið eftir, þá sendir Sveinn konungur orð til Bretlands, að Pálnatóki skyldi koma þangað að boði hans og svo mikið lið með honum sem hann vildi haft hafa, og vill konungur nú erfa föður sinn. Þeir voru tólf saman sendimenn konungsins, og var nær að því komið er Pálnatóki skyldi þaðan búast. Hann svarar og biður konung þökk hafa fyrir boð sitt. „En þannig er nú til farið, að á mér liggur þyngd nokkur, og þykjumst eg eigi fær vera að svo búnu. Það fylgir og að eg á hér miklu meiri fjölskyldi umb að vera en eg mega frá fara að svo búnu þessi misseri.“
Hann telst nú undan um förina á alla vega, og fara þeir við það heim konungsmenn og segja honum svo búið. Og er þeir voru í braut farnir, þá hvarf af Pálnatóka þyngd öll.
Og nú lætur konungurinn líða það haust erfisgerðina, og líður af sá vetur og það sumar.
Og nú var svo komið, að Sveinn mátti eigi þykja gildur konungur ef hann skyldi eigi erfa föður sinn fyrir hinar þriðju veturnætur, og vill konungur nú að vísu eigi láta undan bera. Hann sendir nú enn hina sömu tólf menn á fund Pálnatóka fóstra síns að bjóða honum enn sem fyrr til boðsins, og lézt nú mundu leggja reiði á hann mikla ef hann færi eigi. En Pálnatóki svarar þeim sendimönnum konungsins og biður þá heim fara og segja svo konunginum að hann búist svo við að öllu um veizluna sem framast hefir hann föng á, að hún verði sem veglegust. En hann kveðst koma mundu til erfisins það haust.
Nú fara þeir heim sendimenn konungs og segja honum sín örendalok, að Pálnatóka var þangað von, og býst hann nú við boðinu konungur, og allt það er til skyldi fá, skyldi verða að öllu sem veglegast, bæði fyrir tilfanga sakir og fjölmennis, og er nú allt albúið að boðinu og boðsmenn eru komnir. Þá var Pálnatóki eigi kominn, og leið á daginn mjög, og þar kömur að menn gingu til drykkju um kveldið, og er mönnum skipað í sæti í höllinni.
Þá er það sagt að konungur lætur liggja rúm á hinn óæðra bekk í öndvegi og hundrað manna utar frá, og vættir þangað Pálnatóka fóstra síns til þess rúms og hans föruneytis. Og er þeim þykir seinkast um kvámu Pálnatóka, þá taka menn þar til drykkju.
En nú verður að segja frá Pálnatóka, að hann býst heiman og Björn hinn brezki með honum, og hafa þeir þrjú skip úr landi og hundrað manna; þar var hálft hvors í því liði, Danir og Bretar. Þeir fara síðan þar til er þeir koma við Danmörk. Og það sama kveld koma þeir í þær stöðvar er átti Sveinn konungur, og leggja þeir skip sín í lægi þar er þeim þótti aðdjúpast vera. Þá var allgott veður á um kveldið. Þannig búa þeir um skipin, að þeir snúa framstöfnum frá landi og leggja árar allar í hömlur, að þeim skyldi sem skjótast til að taka ef þeir þyrfti bráðungar við.
Og síðan ganga þeir á land upp og fara leiðar sinnar þar til er þeir koma til konungsins, og sitja menn þá við drykkju er þeir koma þar, og er þetta hið fyrsta kveld veizlunnar. Nú gengur Pálnatóki inn í höllina og þar þeir allir eftir honum. Hann gengur innar eftir höllinni og fyrir konunginn og kveður konunginn vel; konungur tekur og vel hans máli og vísar honum til sætis og öllum þeim.
Og sitja þeir nú við drykkju og eru kátir vel. Og er þeir hafa drukkið of hríð, þá er þess við getið, að Fjölnir víkur að konunginum og talar við hann nokkura hríð hljótt. Konungurinn brá lit við og gerir rauðan á að sjá og þrútinn. En maður er nefndur Arnoddur; hann var kertasveinn konungs, og stendur hann frammi fyrir borði hans. Honum selur Fjölnir í hönd eitt skeyti og mælti að hann skyldi bera það fyrir hvern mann er í væri höllinni, allt þar til er nokkur kannaðist við að ætti það sama skeyti. Og eftir því gerir Arnoddur, sem Fjölnir mælti fyrir.
Nú gengur hann fyrst innar eftir höllinni frá hásæti konungsins og ber þessa ör fyrir hvern mann, og kannast engi við að eigi. Þar kömur enn er hann fer utar eftir höllinni hinum óæðra megin, þar til er hann kömur fyrir Pálnatóka og spyr hann eftir hvort hann kenni örina. Pálnatóki svarar: „Fyrir hví muna eg eigi kenna skeyti mitt? Sel mér,“ segir hann, „þvíað eg á það.“ Þá skorti eigi hljóð í höllinni, og hlýddu menn til þegar er nokkur varð til að eigna sér örina.
Og nú tekur konungurinn til orða og mælti: „Þú Pálnatóki,“ segir hann; „hvar skildist þú við þetta skeyti næsta sinni?“
Pálnatóki svarar: „Oft hefi eg þér eftirlátur verið, fóstri, og ef þér þykir það þinn vegur meiri að eg segja þér það í allmiklu fjölmenni heldur en svo að færi sé hjá, þá skal það veita þér. Eg skildumst við hana á bogastrengnum, konungur,“ segir hann, „þá er eg skaut í rassinn föður þínum og eftir honum endilöngum, svoað út kom í munninn.“
„Standið upp allir,“ segir konungur, „og hafið hendur á þeim Pálnatóka og förunautum hans og drepið þá alla, fyrir því að nú er niður slegið allri vináttu milli okkar Pálnatóka og öllum góða þeim er með okkur hefir verið.“
Og nú spretta upp allir menn í höllinni, og gerist nú eigi allt alkyrra. Pálnatóki fær brugðið sverði sínu og lætur sér það verða fyrst á vegi, að hann höggur til Fjölnis frænda síns og klýfur hann í herðar niður. En svo á Pálnatóki sér marga vini innan hirðar, að engi vildi vopn á hann bera, og komust þeir út allir úr höllinni, nema einn maður brezkur af liði Bjarnar. Pálnatóki mælti þá er þeir voru út komnir og sagt var að saknað var eins manns af liði Bjarnar og segir að eigi var minna að von en svo, „og föru vér nú ofan sem skjótast til skipa vorra, fyrir því að nú er engi annar á görr.“
Björn svarar: „Eigi mundir þú svo renna frá þínum manni,“ segir hann, „ef þú ættir minn hlut, og eigi skal eg heldur og,“ segir hann. Og snýr hann nú inn aftur þegar í höllina, og er hann kömur inn, þá kasta þeir hinum brezka manni yfir höfuð sér og höfðu nær í sundur rifinn, svo mátti að kveða. Og þá verður Björn var við og fær tekið hann og fleygir honum upp á bak sér og hleypur út síðan.
Og fara þeir nú ofan til skipa sinna, og gerði Björn þetta mest til ágætis sér, en vita þóttist hann að maður mundi dauður vera, og svo varð, að maðurinn lézt, og hafði Björn hann með sér, og hljópu nú út á skip sín, og féllu þegar við árar. En þá var á niðmyrkur mikið um náttina og logn, og komast þeir svo undan þeir Pálnatóki og Björn og nema hvergi staðar, áður en þeir koma heim til Bretlands. En konungurinn fer nú heim til hallarinnar og allt liðið með honum, og fá nú ekki að gert það er þeir vildu, og undu við hið versta. Taka þeir nú síðan og drekka erfið, en eftir það fer hver heim þaðan til sinna heimkynna.