Jómsvíkinga saga/27. kafli

Jómsvíkinga saga
27. kafli
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

27. kafli - Heitstrengingar Jómsvíkinga

breyta

Eigi eftir þetta miklu, er nú var frá sagt, þá spyrjast tíðendi mikil úr Danmörku, að Strút-Haraldur jarl er andaður, faðir þeirra Sigvalda og Þorkels, en Hemingur bróðir þeirra er ungur að aldri þá er þetta er tíðenda, og þykist Sveinn konungur skyldur til að gera erfi eftir Strút-Harald jarl, ef synir hans hinir ellri kæmi eigi til, þvíað Hemingur þótti þá enn ungur til að ráða fyrir veizlunni.

Nú sendir hann orð þeim bræðrum til Jómsborgar, að þeir Sigvaldi og Þorkell kæmi til erfisins og hittist þar og gerði allir samt veizlu og hefði tilskipan á, að hún yrði sem virðilegust eftir þvílíkan höfðingja sem var faðir þeirra Strút-Haraldur jarl. En þeir bræður sendu þegar konunginum þau orð í móti, að þeir kóðust koma mundu og mæltu að konungur skyldi allt láta til búa það er til veizlunnar þyrfti að hafa, en þeir kváðust til mundu fá og báðu hann taka öll tilföng af eigu þeirri er átt hafði Strút-Haraldur.

Þetta sýndist flestum mönnum óráðlegt, að þeir færi þangað, og grunuðu að vinátta þeirra Sveins konungs og Sigvalda mundi vera heldur grunn, og þeirra allra saman Jómsvíkinga, þannig sem farið hafði fyrr með þeim viðurskiptin, þótt þeir léti þá hvorirtveggju skyldilega við aðra; en Sigvaldi og Þorkell hávi vilja ekki annað en fara sem þeir höfðu heitið. En Jómsvíkingar vilja og eigi eftir vera, og vilja þeir allir fylgja þeim Sigvalda til boðsins.

Og er að því kömur, þá fara þeir úr Jómsborg með miklu liði. Þeir hafa sjö tigu skipa annars hundraðs.

Þeir fara nú þar til er þeir koma á Sjóland, þar sem Haraldur jarl hafði fyrir ráðið, og var Sveinn konungur þar fyrir og hafði búa látið erfið, svo að þá var albúið. Og er þetta um veturnáttaskeið. Þar er hinn mesti mannfjöldi og hin bezta veizla, og drekka þeir Jómsvíkingar ákaflega hið fyrsta kveldið, og fær á þá mjög drykkurinn.

Og nú er því fer fram um hríð, þá finnur Sveinn konungur það, að þeir gerast nálega allir dauðdrukknir með þeima hætti, að þeir gerast málgir mjög og kátir og þykir lítið fyrir mörgu það að tala er ella væri eigi örvæna að undan liði. Og nú er konungur finnur þetta, þá tók hann til orða og mælti:

„Hér er nú glaumur mikill og fjölmenni,“ segir hann, „og vilda eg nú til þess mæla að ér tækið upp nokkura gleði nýja til skemmtunar mönnum, og það er lengi væri síðan að minnum haft og mikils væri um vert“

Sigvaldi svarar konunginum og mælti: „Það þykir oss vera upphaflegast,“ segir hann, „og von að bezt myni verða fyrir séð um gleðina, að ér hefið fyrst, herra, þvíað vér eigum allir til yðvar að lúta, og vilju vér því allir samþykkjast sem þér vilið vera láta um gleðina eða upp taka.“

Konungur svarar: „Það veit eg menn gert hafa jafnan“, segir hann, „að dýrlegum veizlum og samkundum, og þar er mannval hefir gott saman komið, að menn hafa fram haft heitstrengingar sér til skemmtunar og ágætis, og em eg þess fús að vér freistim nú þess gamans, fyrir því að eg þykjumst það sjá, svo miklu sem þér eruð nú ágætari, Jómsvíkingar, um alla norðurhálfu heimsins en allir menn aðrir, þá er það og auðvitað að það mun með meira móti er þér vilið til hafa tekið í slíkri skemmtan, og mun það enn fara eftir öðru, að þér eruð nú meiri fyrir yður en aðrir menn, og það líklegt að menn myni lengi þá hluti að minnum hafa, enda skal eg eigi undan draga að hefja þetta gaman: Þess strengi eg heit,“ segir konungurinn, „að eg skal eltan hafa úr ríki sínu Aðalráð konung áður liðnar sé hinar þriðju veturnætur, eða hafa felldan hann ella og náð svo ríkinu. Og nú áttu, Sigvaldi,“ segir konungur, „og mæltu eigi minna um en eg.“

Sigvaldi svarar: „Svo skal vera, herra,“ segir hann, „að um skal nokkuð mæla. Þess strengi eg heit,“ segir Sigvaldi, „að eg skal herja í Noreg fyrir hinar þriðju veturnætur með því liði er eg fæ til og hafa eltan Hákon jarl úr landi eða drepið hann ella; að þriðja kosti skal eg þar eftir liggja.“

Þá mælti Sveinn konungur: „Nú fer vel að,“ segir hann, „og er þessa vel heitstrengt ef þú efnir þetta, og eigi er þetta lítilmannlegt, og ver hálfu að heilli attú hafir þetta mælt, og efn þetta nú vel og drengilega, er þér hafið nú um mælt. Nú er þar til að taka er þú ert, Þorkell hinn hávi,“ segir konungur, „hvers þú vill heitstrengja, og er einsætt að láta verða stórmannlega.“

Þorkell svarar: „Hugað hefi eg mína heitstrenging, herra,“ segir hann. „Þess strengi eg heit,“ segir Þorkell, „að eg mun fylgja Sigvalda bróður mínum og flýja eigi fyrr en eg séig á skutstafn skipi hans. En ef hann berst á landi, þá strengi eg þess heit, að eg skal eigi flýja meðan hann er í fylkingu og eg mega sjá merki hans fyrir mér.“

„Vel er þetta mælt,“ segir Sveinn konungur, „og muntu það að vísu efna, ertu svo góður drengur. - Búi digri,“ segir konungur; „nú áttu, og vitu vér attú munt nokkurnig mikilmannlega um mæla.“

„Þess strengi eg heit þá,“ segir Búi, „að eg skal fylgja Sigvalda í för þessa, svo sem mér endist karlmennska til og drengskapur, og flýja eigi fyrr en færri standa upp en fallnir eru, og halda þó við meðan Sigvaldi vill.“

„Svo fór sem vér gátum,“ segir konungur, „að mikilmannlega mundi verða um mælt af þinni hendi. En nú áttu, Sigurður kápa,“ segir konungur, „að mæla umb enn nökkvað eftir hönd Búa bróður þíns.“

„Skjót er heitstrenging mín, herra,“ segir Sigurður. „Þess strengi eg heit að eg mun fylgja Búa bróður mínum og flýja eigi fyrr en hann er líflátinn, ef þess verður auðið.“

„Slíks var þar von,“ segir konungur, „attú mundir því vilja að fylgja sem bróðir þinn. - En nú áttu, Vagn Ákason,“ segir konungur, „og er oss þar mikið um að heyra hvers þú sttengir heit, þvíað ér langfeðgar eruð garpar miklir og afætur.“?

Vagn svarar og mælti: „Þess strengi eg heit,“ segir Vagn, „að eg skal fylgja Sigvalda í för þessa og Búa frænda mínum og halda við meðan Búi vill, ef hann er lífs, og það læt eg fylgja,“ segir hann, „minni heitstrenging, ef eg kem í Noreg, að eg skal komið hafa í rekkju Ingibjargar dóttur Þorkels leiru í Vík austur ón hans ráði og allra frænda hennar, áður en eg koma heim aftur í Danmörk.“

„Nú fór sem mig varði,“ segir konungur, „og ertu fyrir flestum mönnum þeim er vér vitum of allan vaskleik og kurteisi“

Það er sagt að Björn hinn brezki var þar í liði þeirra Jómsvíkinga, og var einkum félagi Vagns Ákasonar, þvíað þeir áttu Bretland báðir samt, síðan er Pálnatóki andaðist. Og nú mælti konungur: „Hvers strengir þú heit, Björn hinn brezki?“ segir honungur.

„Þess strengi eg heit,“ segir Björn, „að eg mun fylgja Vagni fóstra mínum sem eg hefi vit til og drengskap.“

Og nú eftir þetta slítur tali þeirra, og fara menn að sofa vonu bráðara, og fer Sigvaldi í rekkju hjá konu sinni Ástríði, og sofnar hann fast brátt, er hann kom í rekkjuna. En Ástríður kona hans vakir, og vekur hún hann Sigvalda, þá er hann hefir sofið mjög lengi svo, og spyr ef hann myni heitstrenging sína, þá er verið hafði um kveldið. En hann svarar og kveðst eigi muna að hann hefði heitstrengt né eins um kveldið.

Hún mælti: „Eigi mun þér að því verða,“ segir Ástríður, „að því er eg get til, og muntu bæði við þurfa vit og ráðagerð.“

„Hvað skal nú þá til ráðs taka?“ segir Sigvaldi. „Þú ert vitur ávallt, og muntu nú kunna nokkur góð ráð til að gefa.“

Hún svarar: „Eg veit eigi nú,“ segir hún, „hvert það ráð sé, er gott er. En til skal þó nakkvað leggja: Þá er þú kömur til drykkju á morgin, þá vertu glaður og kátur, þvíað Sveinn konungur mun muna heitstrengingar yðrar, að því er eg get til. Og þá er konungur ræðir umb við þig, þá skaltu honum þessu svara, að „öl er annar maður, og munda eg sýnu minna hafa af tekið ef eg væra ódrukkinn.“ En síðan skaltu spyrja konunginn, hvað hann mun vilja til leggja, attú getir efnt heitstrenging þína, og tak síðan glaðan á við konunginn og lát sem þú þykist þar allt eiga er konungurinn er, fyrir því að hann þykist nú hafa stilltan þig mjög í þessu, og spyr hversu mörg skip hann myni fá þér til fararinnar, ef þú reipast við að fara. Og ef hann tekur þessu vænlega og kveður þó ekki á umb, hversu mörg skip hann mun til leggja með þér, þá skaltu skora við hann fast, að hann kveði þegar á hvað hann mun til leggja, og seg attú munt margra þurfa, fyrir því að Hákon jarl hefir mikinn afla. En fyrir því skaltu svo skjótt að gála um þetta og skora fast við konunginn,“ segir hún, „að eg hygg að honum myni nú minnst fyrir þykja að heita þér liðinu og leggja skipin til með þér, meðan hann veit eigi víst hvort förin tekst eða eigi. En þá er förin er ráðin, þá get eg þig lítið af honum fá um liðið, ef hann hefir eigi áður heitið, fyrir því að hvorgan ykkarn Hákonar jarls mun hann spara til að hljóti óförna og þykja þá bezt að báðir hlyti.“

Það er nú frá sagt, að Sigvaldi gerir svo sem Ástríður réð honum.

Og þá er þeir taka til drykkju of daginn eftir, þá er Sigvaldi hinn kátasti og fær margt til gamans. Og nú innir konungur til umb heitstrengingar þeirra, er verið höfðu um aftaninn, og þykir konunginum nú umb hið vænsta og þykist mjög hafa í vaðhorni upp komið við Sigvalda og alla þá saman Jómsvíkinga. En Sigvaldi svarar konunginum og mælti slíkum orðum öllum sem Ástríður hafði fyrir hann lagt og fréttir nú eftir hvað konungurinn vill til leggja með honum.

En þar kömur að konungur mælir svo, að hann kveðst ætla þá er Sigvaldi er búinn til þeirrar farar, að hann mundi til leggja með honum tuttugu skip.

Sigvaldi svarar: „Þetta tillag er gott,“ segir hann, „af einhverjum ríkjum bónda, en ekki er þetta konunglegt tillag, slíkur höfðingi sem þú ert.“

Þá svarar Sveinn konungur og var nakkvað brúnölfi og spurði Sigvalda: „Hversu mikils mundir þú þykjast við þurfa,“ segir hann, „ef þú hefðir lið eftir því sem þú vildir?“

„Skjótt er það að segja,“ segir Sigvaldi; „beint sex tigu skipa, þeirra er öll sé stór og vel skipuð. En eg mun þó fá í staðinn eigi færri skip, eða þaðan af fleiri, og munu þau vera smærri, fyrir því að eigi má vita hvort öll koma aftur skipin yður, og er það ósýnna að svo beri til.“

Nú svarar konungur: „Búin skulu öll skipin, Sigvaldi, þá er þú ert búinn til fararinnar,“ segir konungur. „Ráð þú til að heldur; eg skal til fá þetta er þú beiddir.“

„Þá er vel við orðið, herra,“ segir Sigvaldi, „og vegsamlega, sem von var að yður, og látið þá nú vel efnt verða sem nú hafi þér heitið, fyrir því að nú skal fara þegar er boði þessu er lokið, er nú sitju vér að, og fá þú nú öll skipin svo að eigi verði sein að, en eg mun lið til fá og við báðir samt.“

Og nú drepur úr hljóð fyrst úr konunginum, og verður honum staður á, og mælti þó vonu bráðara: „Svo skal vera, Sigvaldi,“ segir konungur, „sem þú mælir til, en þó hefir þetta skjótara að borizt en eg hugða, og varði mig trautt að svo skjótt mundi á þjóta sem nú er.“

Þá mælti Ástríður kona Sigvalda: „Eigi er yður þess von,“ segir hún, „að þér munið mjög sigrast á Hákoni jarli ef ér dvalið ferðinni, svo að hann spyri og megi við búast lengi, ef þér fáið nú ósigur, og er þetta eitt ráðið,“ segir hún, „að bregða við sem skjótast og láta enga fara fréttina fyrir, og komið þér jarli á óvart.“

Það er nú sagt að þeir láta ráðna vera ferðina þegar veizlunni er slitið, og skipa þar nú til alls að erfinu og hafa ætlan á um ferðina.

Svo er sagt að Tófa dóttir Strút-Haralds jarls tekur til orða og mælti við Sigurð bónda sinn: „Þú munt nú fara,“ segir hún, „sem þú hefir ætlað; en þess vil eg þig biðja,“ segir hún, „attú fylgir sem bezt Búa bræður þínum og leif eftir þig orðstír sem beztan, en eg mun þín bíða, svo að engi maður skal koma í mína rekkju meðan eg spyr þig heilan og lífs. En menn eru þeir tveir, Búi,“ segir hún, „er eg vil þér gefa til farar þessarrar, þvíað þú hefir allar stundir vel til mín verið. Annar heitir Hávarður og er kallaður Hávarður höggvandi, en annar heitir Áslákur og er kallaður Áslákur hólmskalli. En því gaf eg þér þessa menn að mér er við þig vel, og ekki skal óeinurð við það hafa, að miklu heldur vilda eg þér hafa gefin verið en þeim er nú á eg; en þó mun það nú svo búið vera verða.“

Búi þiggur mennina að henni og biður hana hafa þökk fyrir og gefur þegar Áslák Vagni frænda sínum til fylgdar. En Hávarður var með honum sjálfum.

Nú slítur boðinu, og búa þeir nú lið sitt Jómsvíkingar þaðan frá veizlunni. Og er þeir eru búnir, þá fara þeir úr landinu og hafa hundrað stórskipa. En þeir höfðu þangað haft úr Jómsborg til veizlunnar sjö tigu annars hundraðs, og voru í því tali mörg smá skip.