Jómsvíkinga saga/28. kafli

Jómsvíkinga saga
28. kafli
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

28. kafli - Frá herferð Jómsvíkinga til Noregs

breyta

Nú fara þeir ferðar sinnar og gefur þeim vel byri og taka Víkina í Noregi. Þeir koma að síð aftans. Og þegar um nóttina héldu þeir til býjarins í Túnsbergi og komu þar með öllu liðinu um miðnættis skeið.

Sá maður er nefndur til sögunnar er Ögmundur hét og var kallaður Ögmundur hvíti; hann var lendur maður Hákonar jarls, ungur að aldri og virður mikils af Hákoni jarli. Hann hefir mest forráð býjarins í Túnsbergi, þá er þessi tíðendi eru.

Og nú er herinn er kominn í bæinn, þá tóku þeir upp nálega allan bæinn og drápu þar margt manna; tóku síðan allt það er þeir máttu í fjárhlutum og fóru eigi þörfsamlega. En þeir er fyrir voru vöknuðu eigi við góðan draum, og áttu margir þegar við höggum að taka og vopnagangi.

Ögmundur hvíti vaknar og sem aðrir menn við þenna ófrið, og þeir er sváfu næstir honum í herbergi. Nú tekur hann það ráð og þeir með honum, að þeir flýja undan í eitt loft, það er þeim þótti sem lengst mundi verjast mega, þvíað engi voru föng á að komast mætti til skógarins. Og er þeir Jómsvíkingar verða þessa varir, þá drífa þeir að loftinu og höggva loftið í ákafa.

Og nú sjá þeir Ögmundur að þeir munu eigi fá varizt; miklu er her þessi harðfengri og ákafari, er þar er kominn.

Það er sagt að Ögmundur hvíti tekur það ráðs, að hann hleypur úr loftinu ofan og á strætið og kömur standandi niður. En Vagn Ákason var þar nær staddur, er hann kom niður, og höggur þegar til hans Ögmundar, og hjó á hönd honum fyrir ofan úlflið, og hefir Vagn eftir höndina, en Ögmundur komst í skóg í braut. Gullhringar hafði fylgt hendinni, og tekur Vagn hann upp og hefir.

En Ögmundur er hann kömur í skóginn, þá nemur hann staðar þar er hann má heyra mál þeirra, og vill vita ef hann fái það skilt af orðum þeirra hverir þar eru komnir, þvíað hann veit eigi áður og þykir vera heldur til ófróðlegt ef hann kann ekki frá segja, ef hann hittir aðra menn enn, slík víti sem hann hafði á sér tekið. Hann verður nú þess var af orðum þeirra og ákalli, að þar eru komnir Jómsvíkingar, og svo veit hann nú hver á honum hefir unnið sjálfum. Og nú eftir þetta, þá fer hann leiðar sinnar á skóga í brott og merkur, og það er nú frá sagt, að hann liggur úti sex dægur á mörkum, áður en hann kömur til byggða.

En þegar er Ögmundur finnur byggðir og menn, þá hefir hann greiða allan þann er þarf, þvíað margir menn vissu deili á honum, og var hann vel um sig og vinsæll maður. Og fer hann nú þar til er hann spyr hvar jarl er á veizlum, og sækir hann nú á hans fund. Jarl hefir þá tekið veizlu á þeim bæ er heitir á Skugga, og sá maður er Erlingur nefndur er veizluna hélt; hann var lendur maður. Jarl var þar með hundrað manna á veizlunni, og þar var Eiríkur sonur hans með honum.

Svo er sagt að Ögmundur hvíti kömur þar síð aftan dags og gengur þegar inn í höllina og fyrir jarl og kveður hann vel. Jarl tekur kveðju hans, og er hann spurður almæltra tíðenda. En hann svarar Ögmundur:

„Lítil eru enn tíðendi undir förum mínum,“ segir hann, „en gerast mætti að tíðendum eigi alllitlum.“

„Hvatta?“ segir jarl.

„Þatta!“ segir Ögmundur, „að eg kann að segja yður hersögu, að mikill her er kominn í landið austur í Víkina og með hinum mesta ófriði og styrjöld, og það sama ætla eg þeim í skapi búa, að halda slíku fram.“

Jarl mælti: „Hvað veit eg,“ segir hann, „hvort menn munu aldregi hætta fyrr lygisögum í landinu en nokkur hangir uppi fyrir.“

Eiríkur svarar og mælti: „Eigi er svo á slíku að taka, faðir,“ segir hann; „ekki er þessi lygimaður, er nú segir frá.“

Jarl mælti: „Veiztu það mjög gerla, frændi,“ segir hann, „hver þessi maður er, og væri það líklegt, fyrir því er þú fylgir máli hans?“

„Það ætla eg að eg vita nokkuð til,“ segir Eiríkur, „eigi síður en þú, faðir, að ætlan þinni: Það hygg eg að hér sé kominn Ögmundur hvíti, lendur maður þinn, og hefir hann oss oft betur fagnað en vér fögnum honum nú.“

„Eigi kennda eg hann,“ segir jarl. „Gangi hann enn hingað til máls við mig.“

Nú gerir Ögmundur þegar er honum komu orð jarls, þá gengur hann enn fyrir hann. Síðan spyr jarl: „Hver Ögmundur ertu?“ segir hann. En hann segir honum öll deili á, svo að hann má við kannast.

Þá mælti jarl: „Veit eg,“ segir hann, „attú munt sanna sögu segja ef þú ert þessi maður. En seg mér,“ segir jarl, „hver ræður fyrir her þessum hinum mikla?“ „Sigvaldi heitir sá,“ segir Ögmundur, „er fyrir herliðinu ræður. En nefnda heyrða eg í herinum bæði Búa og Vagn og hefi eg þess nokkur merki á sjálfum mér að eg lýg þetta eigi.“ Og bregður síðan upp hendinni og sýnir jarli handarstúfinn.

Jarl mælti þá: „Hart ertu leikinn,“ segir hann, „og sárlega. En hvort vissir þú það hver þér veitti þann geig?“

„Réð eg að líkendum, jarl,“ segir hann, „af því er þeir mæltu, þá er sá tók upp hringinn er fylgt hafði hendinni: „Fénaði þér nú, Vagn Ákason.“ sögðu þeir, og þóttumst eg þaðan af vita að hann mundi á mér hafa unnið, og það kannaða eg af,“ segir hann, „að sá her mundi kallaður vera Jómsvíkingar.“

„Sannfróður muntu of það vera,“ segir jarl, „af þeim mönnum sem þú heyrðir nefnda í liðinu. En það er þó satt að segja, að þenna munda eg sízt kjósa herinn;“ segir jarl, „þótt eg ætta um alla að velja, og mun nú bæði við þurfa vit og harðfengi; svo segir mér hugur umb.“