Jónsbók (2004)/Konungs þegnskylda

Hér hefur upp hinn þriðja hluta íslenskrar lögbókar og segir fyrst um konungs þegnskyldu, hversu marga peninga sá maður skal eiga fyrir sig og ómaga sína er skattgildur er konungi

1.

Í nafni vors herra Jhesu Christi, þess er vor er vernd og varðveisla, líf og heilsa, skulum vær konungi vorum eður hans lögligum umboðsmanni eigi synja slíkrar þegnskyldu sem vær höfum honum játað, að hver sá bóndi er skyldur að gjalda skatt og þingfararkaup er hann á fyrir sjálfan sig og hvert skuldahjón sitt kú eða kúgildi, skip eður nót, og skal hann eiga umfram eyk, uxa eður hross, og alla þá bús búhluti er það bú má eigi þarfnast. En skuldahjú hans eru þeir menn allir sem hann á að skyldu fram að færa og þeir menn sem þarfast að fyrir því búi vinni. En þetta eru alls tuttugu álnar af hverjum bónda. Skal konungur taka tíu álnar, en aðrar tíu álnar sá sem konungur skipar sýslu meður slíkri afgreiðslu sem lögbók vottar af þeim tíu álnum sem þingfararkaup heitir. Svo skal og hver maður gjalda skatt, einhleypur karl eður kona, þó að hann sé búlaus, ef hann á tíu hundruð fyrir sjálfan sig skuldalaust. Og hundrað fyrir hvern ómaga sinn og eitt hundrað umfram. En eigi skal meira gjaldast en einar tuttugu álnar þar sem bóndi eður húsfreyja andast frá, og halda feðgin, systkin eða mæðgin eður aðrir arfar saman þeim búnaði, hvort sem hann er meiri eða minni. En sá sem í brott fer með sinn hlut, gjaldi sem fyrr vottar. En hver sem þetta geldur eigi forfallalaust áður menn ríða til þings, sekur sex aurum við konung. Skal þetta fé greiðast í vaðmálum og í allri skinnavöru, í ullu og húðum, og þar gjalda sem hann hefir heimili átt fyrir fardaga, þó að hann færi heimili sitt í annan stað. Sá skal skatt gjalda sem búnað reisir en eigi sá er bregður búi ef hann hefir minna fé en tíu hundruð skuldalaust og ómagalaust.

2. Hér segir á hverjum tímum sýslu skal reka

Svo er tekið að sýslumaður skal eigi fjölmennari reka sýslu sína en við hinn tíunda mann. Á þessum tímum skal eigi sýslu reka hér á landi: Frá alþingi til Maríumessu síðari. Frá Marteinsmessu og til Hallvarðsmessu, og fara mánað um Austfirðingafjórðung. Frá Hallvarðsmessu til þings framan og mánað milli síðarri Maríumessu og Marteinsmessu, og svo í öðrum fjórðungum á þessum tímum þá er sýslumaður vill, um sinn á hverjum tólf mánuðum, nema bændur sjálfir beiðist oftar eður nauðsynjar beri til að þingað sé, og reka sýslu mánað síðan hann kemur í Norðlendingafjórðung og mánað um Sunnlendingafjórðung, sex vikur um Vestfirðingafjórðung síðan hann kemur í sýslu sína eftir réttri tiltölu, þó að fleiri sé sýslumenn í hverjum fjórðungi en einn. Eigi skulu sóknarmenn sýslumanna fleiri en fjórir í fjórðungi hverjum, en tveir þar sem sýslumaður situr í fjórðungi. Það er fyrirboðið að þeir sé lénsmenn sem eigi eru fullveðja aftur að bæta það sem þeir taka óréttliga utan bændur samþykki annað.

3. Hér segir um rétt útlendra manna

Ef útlendir menn vanvirða menn og skemma eður frændkonur manna, og með hverju móti vorir landsmenn eigu síns réttar að krefja af útlendum mönnum, þá er vel ef þeir sættast sjálfir sín í milli, ella kæri sá sig fyrir sýslumanni sem mishaldinn er. En hann gjöri rétt af hinum útlenda manni er brotligur varð fyrir Ólafsmessu fyrri. Svo sé þeim hinum útlendum mönnum rétt gjört ef þeim er rangt gjört. En ef sýslumaður fyrirnemst rétt að gjöra þeim sem vanhaldinn er, þá svari hann sektinni og dæmi lögmaður og skynsamir menn með honum þeirra í milli, og slíkt sem dæmist taki sá af þingfararkaupum nær sér slíkt sem sýslumaður á frjálst þar til er hann hefir sitt fullt. En sýslumaður heimti sitt af honum eða missi ella. En stýrimaður sá er þá flytur brott í forboði sekist fjórum mörkum við konung, hvort sem veldur einn eða fleiri, og takist í Noregi sú sekt konungi til handa með því móti að sýslumaður vildi hér eigi rétt af gjöra. Það er fullkomliga fyrirboðið að stýrimenn eður landsmenn taki aðrir hvorir samheldi með sér með fésektum að kaupa eður selja dýrra varning sinn en svo sem kaupi eður sali semja sín í millum. En sá er að slíku verður vitnisfastur svari slíkri sekt konungdóminum sem hann setti viðurlögu á einnhvern. Stefnu skal leggja við skip fyrir heyannir og eftir til kaupa við kaupmenn og seli þar hönd hendi. Um skuldir kaupmanna sekist hálfri mörk fyrir hundrað hvert það sem eigi er goldið að Ólafsmessu hinni fyrri forfallalaust, hálft konungi en hálft þeim er skuld á.