Jónsbók (2004)/Mannhelgi

Hér hefur upp hinn fjórða hlut lögbókar er heitir mannhelgur og segir hversu mikið þegngildi konungur á

1.

Það er fyrst í mannhelgi vorri að vor landi hver í Noregs konungs ríki skal friðheilagur vera við annan utan lands og innan lands. En ef maður vegur mann, hvort sem karlmaður drepur konu eður kona karlmann, þá fari sá útlægur. En konungur taki þegngildi þrettán merkur af fé eður eignum vegandans, nema hann vegi skemmdarvíg eður gjöri níðingsverk. Ef eign er í þegngildi greidd, þá skulu arfar veganda lausn á eiga ef þeir vilja leyst hafa innan tíu vetra. En erfingi skal taka fé hins útlæga til varðveislu. Og af fé veganda dæmi tólf menn skynsamir lögliga til nefndir af réttaranum slík gjöld eftir laga skilorði sem þeir sjá réttligast fyrir guði eftir atvikum og málavextir eru til erfingjum hins dauða einum. En allar aðrar frændbætur og saktal falli niður, svo að hvorskis frændur aðrir taki né gjaldi framar en nú var skilt. Bóndi á vígsbætur hálfar um húsfreyju sína. Nú ef eigi vinnst fé veganda bæði til þegngildis og bóta, þá skal svo skerða fyrir hvorum sem tala rennur til eftir fjármagni. En ef nökkur gengur á þetta, þá hefir sá fyrirgert fé og friði, landi og lausum eyri, og verði aldri bótamaður, og svo allir þeir sem ráð leggja með honum til þess að sú skipan sé rofin eður á hana gengið. Aldri skal og erfingi selja þær eignir er hann tekur eftir hinn útlaga meðan útlaginn lifir. En gjalda skal hann allar lögligar skuldir af eignum ef eigi eru lausafé til. Nú kann sá einnhver atburður til að gjörast að konungur gefur mannsbana landsvist með bænarstað höfðingja eður annarra góðra manna, eður kemst hann á konungs fund og fær grið af honum, þá skal hann sig svo í frið kaupa við konung sem hans er miskunn til og bæta það sem eftir stendur sem góðir menn sjá að hann megi orka, og meður slíkum salastefnum sem hann fær undir staðið, nema áður sé allar bætur goldnar. Síðan skal þeirra mál fara til sættar sem eftir lifa eftir góðra manna dómi. En þeir sem fé hans varðveittu meðan hann var í útlegð greiði honum slíkt sem þeir tóku í eignum eður lausafé, utan landskyldir.

2. Hér segir um skemmdarvíg og níðingsverk

Engi maður má jörðu sinni fyrirgjöra nema hann vegi skemmdarvíg eða gjöri níðingsverk. Það er níðingsverk hið mesta ef maður ræður lönd eður þegna undan konungi sínum. En ef konungur kennir manni landráð, þá skal hann nefna mann úr hirð sinni til jafnborinn þeim er máli á að svara. En ef arfborinn maður á því máli að svara, þá skal nefna bóndason úr hirð, ef hann er til, og hafi rit og innsigli konungs til, og sæki það mál að lögum. En sá er arfborinn er kominn er til alls réttar. Það er níðingsverk ef maður vegur mann í griðum eða tryggðamann sinn. Hvervetna þar sem maður á á sjálfum sér áverka að heimta eður þeim ómaga eður eigi fulltíða manni er maður á umboð á að lögum eða stendur til arfs, og allra þeirra manna er hann á sjálfur rétt á, eður hefir hann til þess lögligt umboð tekið, þá skal sá sjálfur grið selja og veita tryggðir með sætt og vottum. Eru allir frændur undir þeim griðum og tryggðum sem sjálfur veitti hver. Það er og níðingsvíg ef maður vegur lögmann fyrir rétta lögsögn, þann er til þess er skipaður að segja mönnum lög, því að sá höggur niður réttindi manna þar sem hann á jafnskyldur að vera ríkum sem fátækum til lagaúrskurðar, þar sem hann er yfirskipaður. Það er og níðingsverk ef maður myrðir mann. Það er og níðingsverk ef maður brennir mann inni. Það er og níðingsverk ef maður hefnir þjófa. Það er og níðingsverk ef maður höggur hönd eða fót af manni eða stingur út augu manns eða sker tungu úr höfði manni, geldir mann eða meiðir að vilja sínum sjálfs. Svo eru þeir og óbótamenn er halda mönnum fyrir þessu einshverju nema konungur láti refsa til landhreinsanar. En ef það verður í vopnaskiptum, þá fari eftir því sem konungs umboðsmaður skipar með bestu manna ráði. En ef maður drepur föður sinn eða son, bróður eða móður, dóttur eða systur, þá er hann óbótamaður nema óðs manns víg vegi. Svo og ef maður drepur konu sína eður kona bónda sinn. Það er og óbótamál ef maður vegur mann innanstokks eða á töðuvelli úti eður innan garðs þess er hverfir um akur eða eng að heimili sjálfs hans, og á veg til og frá, nema hann veri hendur sínar. Svo og þeir menn er að slíkum ókynnum verða kenndir að þeir hlaupa í brott með eiginkonur manna, þá eru þeir óbótamenn bæði fyrir konungi og karli, dræpir og deyðandi. Menn þeir sem láta líf sitt fyrir útilegu, þýfsku eður rán, hvort sem heldur ræna á skipum eða á landi, og svo fyrir morð og fordæðuskap og spáfarar allar og útisetur að vekja tröll upp og fremja heiðni. Svo og þeir menn sem gjörast flugumenn til að drepa þá menn er þeir eiga öngar sakir við og taka fé til, nema konungur láti refsa til landhreinsanar og friðar. Svo og þeir menn er konur taka með ráni eður herfangi í móti guðs rétti og manna, hvort er þeir taka eiginkonur manna eður frændkonur eður dætur fyrir utan vilja þeirra manna er forræði eigu á þeim að lögum og svo sjálfra þeirra, hversu sem síðan gjörist vili þeirra er samvista þeirra verður. Og svo þeir sem hefna þessa óbótamanna eður heimta gjöld fyrir svo að vitni vitu það, þá hafa þeir fyrirgert fé og friði, landi og lausum eyri. Og eru þeir allir friðhelgir er fé sitt verja eður eiginkonur eða frændkonur fyrir þeim. En hinir allir ógildir er til sækja, hvort er þeir fá sár eður bana, bæði fyrir konungi og karli. Það er og óbótamál ef maður falsar bréf eður innsigli konungs eður steðja konungs í Noregi. Það er og óbótamál ef maður drepur þann mann er hann hefir fyrir sér bréf og innsigli konungs til landsvistar eður til rannsaks, ef sá vissi það er hann tók af. Það er og óbótamál ef maður tekur konu nauðga ef þar eru tvau löglig vitni til að það er satt. Nú eru eigi vitni til en hon segist nauðig verið hafa, og segir hon það samdægris, þá dæmi tólf hinir skynsömustu menn eftir því sem þeim þikkir líkindi til bera og hvort þeirra þeim þikkir líkara til sanninda. En þó að kona geti vart sig fyrir góðkvensku sakir, svo að hann komi eigi vilja sínum fram, þá ber með öngu móti að hann hafi eigi refsing fyrir eftir dómi ef sannprófast að hann hafi fullan vilja til þess borið og haldi þó lífinu. Ef maður stendur mann á konu sinni meður lögligum vitnum, gjaldi sá full manngjöld bóndanum slík sem hann er maður til er konu lá, ef hann væri þá saklaus drepinn, en hálf manngjöld ef maður stendur mann á móður sinni, dóttur eða systur ef þær eigu sér eigi bændur. Skulu þessi gjöld dæma tólf skynsamir menn lögliga til nefndir af réttaranum.

3. Hér segir um ránsmenn og þá er hernað gera hver sekt og útlegð við liggur

Nú ræna menn eður herja, þá eru allir menn skyldir til eftir þeim að fara þeir sem megu nema fjórmenningar að frændsemi eður mægðum, þeir sem sýslumaður krefur til eður sá er fyrir ráni eða hernaði verður, hvort sem þeir hlaupa í hella eður hólma eða virki, eða eru á skipi, og hvar sem þeir hafa hæli er hernað gjöra. Sekur er hver sex aurum við konung sá er eigi fer lögliga til krafður. Það er hernaður er þeir taka menn eður fé manna af þeim nauðgum, berja menn eður binda eður særa. Nú róa menn skipi skipuðu að bónda eður gengur flokkur manna að garði hans og bera hann ofríki eða brjóta hús bónda og bera út fé hans, þá er það útlegðarverk. En hver sá er í landi vill vera af þeim, færi aftur fé bónda allt það er þeir tóku og gjaldi konungi tíu merkur, en þeim fullrétti er fyrir ráni eður hernaði varð, eftir tólf manna dómi, eða fari útlægur.

4. Hér segir hver vægð og miskunn á er gjör um óbótamál utan um landráð

Nú hvervetna eftir norrænum lögum þeim sem skipaði hinn heilagi Ólafur konungur og hans réttir eftirkomendur hafa síðan samþykkt, að þar sem maður vegur skemmdarvíg eða gjörir níðingsverk, þá fari hann útlægur og óheilagur, og hafi fyrirgert fé og friði, landi og lausum eyri og jafnvel óðalsjörðum, og komi aldri í land aftur nema hann beri hersögu sanna þá sem landsmenn vitu eigi áður. Þá nái hann landsvist með slíku friðkaupi og miskunn sem konungur leggur á. En fyrir sakir fátæktar landsins og hins annars að mjög vottar svo forn lögbók hér að fátækir frændur útlagans eignist allt það hálft er hann átti, þá gjörum vær þá vægð og skipan á um aldur og um ævi að öll óbótamál utan landráð og drottinsvik við konung fari eftir því sem lögbók vottar, að lögligur erfingi taki hálft við konung bæði í föstu og lausu, að þeir hjálpi því framar og betur af því fé lögligum ómögum og fátækum frændum útlagans, þótt hér til hafi þess eigi meður lögum geymt verið. Og þó með því móti að ef nökkur fellur í slík óbótaverk, sem guð láti öngvan henda, þá skal fyrst bætur af lúka. En ef minna hleypur af en þegngildi, þá skerði svo fyrir hvorum sem tala rennur til eftir fjármagni. En hvergi skal konungur eða erfingjar fyrr taka fé mannsbana og öngvan annan útlægan eyri en áður sé goldnar allar lögligar skuldir, þær sem fyrri voru gjörvar en fé veganda félli í þá sök. Ef maður týnir sér sjálfur, þá taki erfingi hálft fé hans með því skilyrði sem vottar um önnur óbótamál. En hálft standi í umsjá konungs umboðsmanns til slíkrar miskunnar sem konungur vill á gera eftir atvikum. Engi maður má meira fé fyrirgera að einu sinni en því sem þá er hann eigandi að vorðinn. En ef manni tæmist arfur meðan hann er í útlegð, þá skulu frændur hans þann arf taka. En ef konungur gefur honum landsvist, þá skulu frændur hans honum það allt aftur gjalda með fyrra skilyrði sem þeir tóku og hann átti þá er hann féll í útlegð. En eigi eru frændur skyldir aftur að gjalda það er hann átti eður erfði og gjörði undan sér með skemmdarvígum eða níðingsverkum, nema síðan hafi með erfðum undir hann borið.

5. Hér segir ef frjáls maður er seldur af landi í brott

Ef maður selur frjálsan mann af landi í brott, þá er hann sekur þrettán mörkum við konung og komi manninum í land aftur, og bæti honum eftir lögligum tólf manna dómi rétti slíkum sem hann er maður til. En ef hann má honum eigi aftur koma, gjaldi þann mann fullum gjöldum slíkum sem hann er maður til. En ef hann synjar, haldi fyrir séttareiði.

6. Hér segir hver sekt er við liggur ef maður hýsir útlægjan mann

Ef maður heimir eður hýsir útlægan mann, etur með honum eða drekkur, bóndi eður einnhver annarra manna, þá er sá sekur mörk við konung fyrir eina nátt en tveimur fyrir tvær nætur. En ef hann er þrjár nætur meður honum og er hann gjör innan þess héraðs útlægur, þá er hann sekur þrettán mörkum við konung, nema honum sé óvísavargur er hýsir. Aldri skal þess sök meiri er hýsir en hins sök var þá er hann var útlægur gjör. En sýslumaður er skyldur að lýsa útlegð hans samdægris á þingi er hann veit að hann hefir útlegðarverk unnið.

7. Hér segir ef maður er lostinn eða særður eða högginn á þingi

Ef maður er högginn eður lostinn eða særður á þingi eður samkundu, þá skulu allir eftir renna þeim er víg vakti til skógs eður skips, fjalls eður fjöru. En sá er eigi renn eftir, sekur hálfri mörk við konung, og svo sá er eftir renn og vill eigi taka hann, og má hann, og eru til þess löglig vitni. En ef eigi eru vitni til, syni með einseiði. Fjórmenningar eður nánari að frændsemi eður mægðum eru eigi skyldir eftir að renna nema vili. En hver sem björg veitir veganda, þá er hann útlægur, nema honum sé óvísavargur, og sveri fyrir einseiði. En ef maður er særður á þingi eða samkundu og renna allir eftir til fjalls eða fjöru, skógs eður skips, þeim er víg vakti, og verður hann farinn, og ef hann vill að lögum verjast, þá leggi hann niður vopn sín og er hann þá friðheilagur meðan hinn sári lifir. Binda skal þann mann og færa sýslumanni, en hann á að varðveita hann og svo umboðsmaður hans ef honum er færður. En ef sýslumaður þarf liðs við að gæta hans, þá skal hann nefna svo marga bændur til með sér sem hann þarf þá sem næstir eru. En ef hann kemst í brott frá sýslumanni og verður hinn sári dauður, þá er sýslumaður sjálfur í veði til konungs úrskurðar og skipi hann eftir málavöxtum með hinna bestu manna ráði þeirra sem hann kallar til með sér. En ef sýslumaður synjar honum viðtöku, þá skulu þeir hafa vitni við og setja hann bundinn á flet umboðsmanns, þá varðar honum slíkt hið sama nema ofríki taki af honum. En hvervetna þar sem sýslumaður tekur útlegðarfé, þá skal hann fá mann til að refsa þeim manni eftir dómi þingmanna. Eru bændur hvervetna skyldir að fylgja til refsingar. Sekur er hver hálfri mörk við konung er eigi vill fylgja.

8. Hér segir hversu bæta skal óðs manns verk

Ef óður maður brýst úr böndum og verður mannsbani, þá skal bæta af fé hans fullum bótum ef til er. En ef fé er eigi til og verður hinn óði heill, þá fari hann úrlendiss þar til er hann hefir fullum bótum bætt fyrir sig. En ef menn sjá æði á manni, þá bindi hann að ósekju hver er vill og hafi til þings og bjóði frændum. Síðan leysi hann þar og segi af sína ábyrgð, og taki kostnað sinn óaukinn af fé hins óða ef til er. En öllum mönnum öðrum eigu menn vörð að veita að ósekju. En óður maður er ómagi arfa síns, og þó eigi fyrri en hann veit að hann er óður, og hann má koma höftum á hann ef hann vill. En ef sakaráberi kennir arfa hins óða að hann vill eigi varðveita hann, haldi fyrir einseiði. En ef óður maður særir mann, þá láti arfi uppi læknissfé og sárbætur af fé hins óða. En ekki á konungur á því. Nú er það því aðeins óðs manns verk ef hann brýst úr böndum eður skynsamir menn meta eða vita sanna æði á honum.

9. Hér segir hver vera skal mannsbani og hversu hann skal undan færast

Sá skal vera mannsbani er návistarmenn bera vitni um og þeir segja á hendur og eigi eiðum fyrir koma, nema því aðeins að hann hafi svo fjarri staddur verið á því dægri er víg var vegið að hann mátti eigi samdægris tvívegis til vígs fara og frá, og væri hann staddur að kirkju eða á þingi, skipi eða samkundu, þá beri þeir tólf þegnar hann undan er þá voru í hjá honum, frjálsir menn og fulltíða. En ef hann er í öngum þessum stað staddur og þó svo fjarri sem nú var mælt, þá færist hann undan með tylftareiði. En ef návistarmenn megu eigi til þings fara að bera vitni hér um fyrir einhverrar nauðsynjar sakir, þá skulu tveir menn bóka sögu þeirra á þingi. En ef maður er særður og má hann mæla þá er menn koma að honum, þá skal sá vera bani er hann segir það verk fyrst á hendur ef hann mælir af viti og má hann kenna hann, og kemur saga hans bókuð fram á fyrsta þing nema hinn færi sig undan með lögligum tylftareiði.

10. Hér segir hversu vígi skal lýsa og hversu sækja skal vitnisburðar

Ef maður er af tekinn, þá skal sá vera mannsbani er vígi lýsir á hendur sér. En lýst skal vera vígi samdægris innan héraðs og nefna sig á nafn og náttstað sinn og hérað það er hann er úr, og lýsi fyrir frjálsum manni og fulltíða, og skal það á örvarþingi fram koma um náttstað hans og skal húsbóndi sverja að hann nefndi sig svo á nafn og að hann var að hans um náttina. Víglýsing skal og þar fram koma á þingi. En ef maður vill eigi bera víglýsingarvitni eður sverja náttstað, þá fari til erfingi hins vegna og geri þeim fimmtarstefnu til þings að bera þar það vitni sem framast veit hann í því máli eftir lögum og sinni samvisku, og engu leynir hann af. En ef hann vill þá eigi vitni bera, gjaldi mörk, hálfa konungi en hálfa þeim er sækir, og svo skal um öll vitni vera. Upplykt fjár þessa skal greidd vera á fimmtarþingi eða atför að taka hálfu meira. Eigi skal vegandi ganga um þrjá bæi svo að eigi sé vígi lýst frá þeim er víg var vegið, nema þar sé fyrir fjórmenningar eður nánari að frændsemi eður mægðum hins vegna, eður fjandmenn veganda búi þar fyrir þeir er honum liggur lífsháski við. En ef hann lýsir eigi svo vígi, þá er hann sannur morðingi og hefir fyrirgert fé og friði. En ef bæði kemur fram á fyrsta þingi víglýsing og saga hins sára, svo borin sem nú var skilt, þá skal saga hins sára standa en eigi víglýsing og ber þá morð af veganda þó að hann sé útlægur. En ef eigi kemur fram saga hins sára á fyrsta þingi, og kemur fram sjónarvitni og víglýsingarvitni, þá skal sjónarvitni standa ef það bera tveir menn frjálsir og fulltíða þar á þinginu en eigi víglýsing. En erfingi hins dauða skal fara í það hérað er sá maður lést úr vera. Og ef hann hittir þann mann er svo heitir og honum þikkir líkastur til vera þessa verks, og ef hann gengur eigi í gegn þá skal hann honum til þings stefna. Og á því þingi skulu tólf menn frjálsir og fulltíða af honum bera það verk og eigi nefndarvitni, og fari þar fram á þinginu. En ef hann vill eigi undan færast, þá er hann sannur að máli. En ef hann hefir undan færst, þá fari erfingi hins dauða og sæki svo marga menn sem hann vill þá er hjá voru til tylftareiða með hinu fyrra skilorði. En ef maður er lostinn eður særður, svo að hann má eigi mæla, þá skeri hann örvar upp þegar hann má mæla og skal það örvarþing þá jafnfullt sem það er samdægris eru örvar upp skornar. En ef hann er dauður, þá skeri erfingi örvar upp og láti þing stefna, en sýslumaður ef erfingi er eigi nær.

11. Hér segir hvað banaráð eru og hversu það skal bæta

Ef maður færir frjálsan mann í sker eða úteyjar og hvar sem hann kemur honum svo að hann fái bana af, eður ræður manni banaráð eður sára og allt það er hinn fær skömm eður vanvirðing af hans ráðum. En það eru ráð ef maður mælir þeim orðum eður gerir það nökkuð að hinn sé lífi sínu að firr eða nökkurri skömm að nær ef það væri gjört er hann mælir, svo að hann vildi að það kæmi fram, bæti eftir lagadómi fullum bótum þeim er það mál á að lögum og svo konungdóminum, nema hinn færist undan að lögum. Það er og ráð ef maður gildrar til þess að vopn skuli falla á hann sjálf eða fljúga að honum, eður voði nökkur, eður vísar manni á forað eður þar sem ólm kvikendi eru fyrir. Svo og ef maður vísar að manni alibirni eður ólmum hundi eður fælir hross að manni eður naut eður önnur kvikendi, svo að hann vildi að hinn fengi af skömm eður skaða, bæti sem fyrr segir.

12. Hér segir um rétt þess manns er eigi er í föðurætt kominn

Ef sá maður verður veginn sem eigi er í föðurætt kominn að lögum þó að hann sé nökkurum manni kenndur að syni, þá eigu móðurfrændur hans bætur og svo arf eftir hann. En ef hann er barður eður skemmdur, þá tekur hann rétt eftir móðurfeður sínum.

13. Hér segir um voðaverk

Voðaverk eru með mikilli skynsemd og miskunn greinandi, meður hverjum atburð er þau kunnu til að falla, því að þar sem maður tekur manni blóð eður leggur eld á mann eða það annað meður lækningu er hvortveggi hyggur heilsubót af skulu verða, þá er það bótalaust hvort er þeir fá þar af mein eður bana. En í öllum stöðum öðrum þeim er menn skulu sér til þarfinda vinna og mönnum til hagligra hluta lið veita, þá eru þessi voðaverk meir virðandi en hin sem ekki dregur nauðsyn til nema gáleysi og mikið skammsýni. Nú þó að tveir menn fari í skóg saman og skýst öx annars á annan á óvilja þess er á skafti hélt og deyr hinn af því, þá skal sá er það gjörði bæta þann mann fjórðungi bóta erfingjum hins dauða og syni vilja síns með séttareiði að hann vildi það verk eigi gjört hafa, og svo skal hvervetna þessor voðaverk bæta ef þeir hafast það að er til nytsemdar heyrir, hvort er menn fá af mein eða bana að óvilja þess er gjörði, og er þetta sektalaust við konung. En öll önnur voðaverk, svo sem er að skjóta eður kasta yfir skip, hús eður hæðir, eður aðra þarfleysu að gera, hvort sem menn fá mein af, sár eður bana að óvilja þess er gjörði, þá skal það bæta hálfum bótum og syni þó vilja síns með séttareiði. Og er þetta sektalaust við konung. Ekki á konungur á voðaverkum. Það má eigi voðaverk kalla ef maður höggur eður lýstur til manns þó að á annan komi en hann vildi, með því að hann vildi einshverjum illt gera. Nú heldur maður á vopni en annar hrasar að og skeinist eður meiðist þar á, bæti eftir dómi og atvikum og þó aldri meira en fjórðungi bóta, en minna ef svo dæmist. En ef annar hrindur manni á vopn, bæti sá hálfum bótum og syni þó vilja síns með séttareiði. En hvar sem maður hefir komið vopni sínu og hefir hann eigi sjálfur á haldið, og sver hann þess að hann hugði að þar skyldi öngum manni mein að verða, þá bæti öngu þó að menn skeinist á nema sjálft falli ofan ef maður hefir upp fest. Þá bæti sá er upp festi fjórðungi bóta. En ef annar maður kemur við, þá bæti sá fjórðungi bóta og syni þó vilja síns með séttareiði, en hinn sé við skildur er upp festi vopn. Nú gengur maður til leiks, fangs eður skinndráttar að vilja sínum, þá ábyrgist hann sig sjálfur að öllu þó að hann fái mein af eður skaða. En sá sem lék við hann skal synja vilja síns meður séttareiði eða bæti eftir dómi.

14. Hér segir um skot, knífalög og rýtningaburð

Það er öllum mönnum kunnigt að rýtningar eru fyrirboðnir að bera. En sá er ber er sekur þrimur aurum við konung. En sá er knífi bregður að öðrum manni og kemur eigi fram, það skal hann bæta fullrétti þeim er hann brá að eftir sex manna dómi en konungi þrimur aurum. En ef maður leggur mann með knífi þá er sá útlægur og bæti þeim er hann lagði eftir tólf manna dómi fullrétti sem þeir sjá að hinn sé vel sæmdur af er lagður var. En konungs sóknari skal taka þann mann er lagði og færa á þing. Og umboðsmaður konungs taki kníf þann er hann lagði með og keyri þar á þinginu í gegnum hönd þess er lagði og skal hann sig svo í frið kaupa við konung meður þessarri refsing ef hinn lifnar, og ábyrgist sjálfur sár sitt hversu sem honum tekst til. En ef sá deyr af laginu er saklaus var lagður, þá er sá dræpur og deyðandi er lagði. En ef sá kemst undan er lagði, þá fari hann útlægur og komi aldri í land aftur nema konungi sýnist nökkurar nauðsynjar til þess verks gengið hafa. En fé veganda fari eftir fyrra skilorði, bæði þegn og bætur. Meður sama skilorði skal og vera ef maður skýtur að manni þó að ekki taki. Þá bæti konungi þrimur aurum sá er gjörði. En þeim fullrétti er hann skaut að eftir sex manna dómi. En ef maður særir mann með skoti, þá skal sá er skaut slíka refsing fyrir taka sem hinn er lagði með knífi og undir sama skilorði. Og svo þó að sá dey er skotinn var, þá skal sá er skaut undir sömu refsing sem hinn er lagði, bæði þegn að greiða og svo bætur.

15. Hér segir sekt á mannsbiti

Það er óviðurkvæmiligt að menn bítist sem hundar eður hestar. Nú sá maður er bítur mann, þá skal sýslumaður taka þann mann er mann beit og færa á þing og láta brjóta framan tenn úr höfði honum, og sé síðan sektalaus við konung fyrir þessa refsing um þetta mál, nema skynsömum mönnum virðist nökkur sú nauðsyn til hafa gengið að hann megi bótum fyrir sig koma, þá bæti hann og svo þeim sem hann beit eftir því sem tólf menn dæma og þeir vilja svara fyrir guði að hinn er vel sæmdur af er bitinn var.

16. Hér segir hversu fara skal eftir veganda og hver hann á að refsa

Svo er mælt og staðfastliga tekið um allt landið að ef maður vegur mann eður veitir þær ákomur eða gjörir nökkur þau verk er hann á að láta fyrir líf eður limar að lögum, þá skulu þeir er næstir verða staddir eður þeir sem fyrst megu ná taka þann mann og færa sýslumanni bundinn eður fjötraðan. En ef þeir gjöra eigi svo og megu þeir því við koma, svo að þeir megi öngva skömm eður skaða af honum fá, þá er hver þeirra sekur hálfri mörk við konung nema fjórmenningar að frændsemi eður mægðum og nánari. Þeir eru eigi skyldir að taka þann mann eða færa á þing nema þeir vili. Sýslumaður er skyldur að taka þann mann og færa á þing. En bændur eru skyldir að dæma þann mann eftir lögum á þingi. En sýslumaður er skyldur að láta refsa honum eftir lögum. Nú er þessu fyrir því svo skipað að þetta mega öngir syndalaust gjöra nema sá sem dómari er og konungur hefir til þess skipað, því að lögin refsa en eigi hann þó að hann gjöri skyldu sína eftir því sem lögin bjóða honum. En aðrir gera með heift og öfund. Og þó veitir það oft að þeir fá fyrst mannskaðann en svara síðan stórum skriftum með frekum fégjöldum. En hver sem öðruvíss gjörir og prófast að hann mátti þessu við koma, þá er hann útlægur þar til er konungur gerir aðra skipan á eftir málavöxtum, hvað nauðsyn eða vorkynnd til rak þann er gjörði. Nú hefir sá eigi liðskost til sem að telur, þá skal hann segja sýslumanni. Og ef sýslumaður krefur liðs með sér, þá er hver sá sekur mörk við konung er eigi fer nema fjórmenningar útlagans að frændsemi eður mægðum eða skyldari. Nú eru þeir allir friðhelgir sem að sækja en hinir allir útlægir er verja, hvort er þeir fá ben eða bana, og óheilög hús þeirra ef brjóta þarf. Nú hlaupa útlaga menn í auðnahús eður þau hús er þeir menn eru fyrir er eigi vilja verja þá, þá eiga þeir er að sækja að brjóta hús að ósekju til þeirra ef þarf og bæta þeim fyrir skaða er hús átti eftir því sem sex skynsamir menn meta. Nú verður sýslumaður eður hans umboðsmaður þar viðstaddur sem maður er högginn, lostinn eður særður, og vill hann eigi eftir renna þeim er víg vakti, þá fellir hann með því þá konungs sekt sem við liggur, hver sem þá vill eigi eftir renna.

17. Hér segir hvað þeir eiga að skoða, óttast og varast er dæma skulu

Nú af því að lögbók vottar svo víða að þá menn sem til refsinga hafa gert skal á þing færa og dæma eftir lögum og eftir þeim dómi refsing á leggja, þá ber þeim innvirðuliga að rannsaka og með mikilli skynsemd og hófi að meta er til dómanna eru nefndir, hvort misgert er við saklausan mann eða fyrir litlar sakir og þó nökkurar, eður fyrir miklar sakir og þó eigi nógar, eða fyrir svo nógar að full nauðsyn og vorkynnd þikki til hafa rekið þess verks þann er gerði. Svo og hvort nökkur hafa lagaboð í milli komið eður engi, eða það sem harðast er að sá hafi bóta beiðst er misþyrmt var og öngar fengið. Svo og hvort nökkuð var kært fyrir réttaranum er lagaúrskurðurinn sjálfur er skipaður yfir þeim mönnum er á saklausum mönnum vinna. En því er dómurinn til nefndur að þá skal rannsaka og meta sakir og misgjörningar og tempra svo dóminn eftir málavöxtum sem þingmenn og réttarinn sjá réttast fyrir guði, og þeir vilja svara fyrir guði á dómadegi eftir sinni samvisku. En eigi sem margur snápur svarar að þeir dæma ekki utan lög, því að sannliga skulu þeir því fyrir svara sem lögin votta þeim á hendur er vonda menn láta ódæmda eður vanrefsta undan ganga. Svo og ef vanrefst er af hendi dómarans og svo ef ofrefst er þeim sem miskunnar eru verðir af þarfnan þeirra tillögu. Finnast og nóg dæmi til þess að þeir hafa hlotið harðar hefndir af guði sem vandæmt hafa en þó hinir harðari sem ofdæmt hafa, og því eiga dómendur dóminn hvervetna til betra vegar að færa ef þeir vitu jafnvíst hvor tveggja og er allmjótt mundangs hófið. En því mjóra sem það er, þá eru þeir því sælli sem svo fá hæft þeirra fjögurra systra hófi sem í öllum réttum dómum eigu að vera að guði líki en mönnum hæfi. En það er miskunn og sannindi, réttvísi og friðsemi. Miskunn á að varast að eigi komi grimmd eða heift í dóma. Sannindi ber að geyma að eigi verði logið fram borið. Réttvísi á að varast að eigi verði með rangindum hallað réttum dómi. Friðsemi á að varðveita þar til er réttur dómur fellur á, að eigi verði með bræði ákafur áfellisdómur á lagður. Og því geymi dómarar þessa að þetta er æ því þurftuligra í öllum dómum sem gjör verður að reynt. En að menn varist því meir ranga dóma, þá má varla illt varast nema viti. Og því minnist menn jafnan á að með fjórum háttum megu verða rangir dómar. Annaðhvort með hræðslugeði þar sem maður óttast þann sem hann skal um dæma, elligar með fégirnd þar sem maður sníkir til nökkurrar fémútu, eða með vináttu þar sem maður vill lið veita félaga sínum, eður með heift þar sem maður hatar þann mann er hann skal um dæma. Og er þá illa skipað ef þessum hórbörnum er inn vísað en hinar skilgetnu systur eru á brott reknar, þær sem áður eru taldar, því að illa man sá dómur virðast fyrir góðum mönnum en allra verst fyrir guði. Er og æ því betur sem þessi kapítuli er oftar lesinn þar sem um stór mál er að dæma. Minnist menn og einkanliga að fá þeim mönnum prest er til bana eður limaláts eru dæmdir áður en þeim er refst og gefi til þess góða tómstund, því að illt verk skal hata en elska manninn af náttúruligu eðli, en sálina allra helst sem sinn jafnkristinn.

18. Hér segir um þá vægð sem á er ger við manndrápara

Nú ef maður verður manni að skaða eða gjörir önnur útlegðarverk þau er svo virðist lögmanni og sýslumanni og öðrum skynsömum mönnum að sú nökkur nauðsyn eður vorkunn hafi til gengið þeim er gerði að hann megi fyrir það halda lífi eður limum, og hafi hann boðum í milli komið bæði við erfingja og svo konungdóminn, þá skal þann mann að ósekju flytja til Noregs til slíkrar miskunnar sem konungur vill á gera við hann. En hver sá maður er manni verður að skaða, þá skal utan fara sem fyrst má hann þó að hann hafi nökkur nauðsyn til rekið þess verks, hverja miskunn sem konungur vill á gera um landsvist hans þá er hann kemur á konungs vald. Svo er og staðfest að alla þá vandræðamenn sem komast á kirkjunáðir skal sektalaust flytja til Noregs og koma þeim þar í kirkju eftir lögmanns ráði og sýslumanns, utan þá sem kirkja á eigi að halda eftir lögum.

19. Hér segir bardagasektir á þingum

Ef menn berjast á Öxarárþingi, fari sem fyrr vottar lögbók og svo féskipti, og svo ef menn verða vegnir eður særðir lemstrarsárum sem vottar um önnur óbótamál. En ef menn berjast á öðrum þingum eður fimmtarstefnum, fyrir lögmanni eða í brúðlaupum, um jól eður skírdag og fram um páskaviku, þá eykst réttur þeirra að helmingi er fyrir skemmdum eður sársaukum verða. Svo eykst og að helmingi sekt við konungdóminn, því að sjálfsett eru grið í þessum stöðum öllum og á þessum tímum. En ef maður særir mann eða ber eður skemmir fullréttisverkum í heimili sjálfs hans, þá eykst að helmingi réttur þeirra er fyrir skemmdum eður sársaukum verða. Svo eru þeir og hálfu meira sekir við konung er heimsókn veita eður heimafrið brjóta ef hinir lifna, en meður öllu útlægir ef þeir deyja.

20. Hér segir um sekt ef maður bindur frjálsan mann

Ef maður bindur frjálsan mann að ósynju, gjaldi konungi fimm merkur, en hinum fullrétti er bundinn var eftir tólf manna dómi, þeirra sem réttarinn nefnir til lögliga. Binda má maður þjóf að ósekju og alla þá menn er hann kennir að ódáðaverk hafa gert. Og hefir hann vitni til að hann gat eigi öðruvíss fært þann mann til réttarans. En ef hann hefir eigi vitni til, syni með einseiði.

21. Hér segir sektir á höggum og lemstrarsárum

Ef maður lýstur mann með heiftugri hendi þar sem eigi eru griðastaðir, með öxi, lurki eður steini, þó er högg að maður reiði það fram að manni er hann veit að sjálft man hlaupa að honum ef hann lætur laust, svo og ef maður fellir á mann það sem hinn fær högg af. Nú skal hann bæta konungi mörk fyrir hið fyrsta högg. En ef hann slær annað samfleytt, bæti konungi tveimur mörkum. En ef hann slær hið þriðja samfleytt, bæti konungi þrimur mörkum. En ef hann slær hið fjórða samfleytt, bæti konungi fimm mörkum. En ef hann slær hið fimmta samfleytt, bæti konungi þrettán mörkum. En þeim sem fyrir varð bæti eftir tólf manna dómi lögliga til nefndum af réttaranum, hvort sem er eitt högg eða fleiri. En ef maður lýstur í höfuð manni eður höggur eða hrindur á kaf eða hvelfir skipi undir manni á djúpi, eða brýtur farskost manns svo að þeim er hætt á djúpi, eður særir mann lemstrarsárum, hvort sem það er högg eður sár, bæti konungi tveimur mörkum fyrir hverja grein þessa. En hinum sem fyrir varð bæti eftir tólf manna dómi lögliga til nefndum af réttaranum. En það eru lemstrarsár er maður er síðan verr fær en áður eður eigi hylur hár eður klæði og jafnan má á sjá. En ef sá vill eigi bæta er misgjörði, lögliga til sóttur, fari útlægur svo langt sem þingmenn dæma. Nú vill sá eigi bætur taka er fyrir vanvirðingu varð eður sýslumaður, þá friðhelgar hann sig til dóms, hvort sem þeir taka við eða eigi. Nú ef einn maður lýstur, höggur eða særir tvo menn eður fleiri í einu atvígi, gjaldi sinn rétt hverjum þeirra og svo konungi slíka sekt sem fyrr var skild. En ef tveir menn eður fleiri særa einn mann eður ljósta, þá er hver þeirra sekur fullri sekt fyrir sig við þann sem fyrir varð. En við konung slíkum rétti sem áður var skilt. Nú ef annars sár gróa en annars eigi og fær sá af því bana, þá er sá útlægur er þau sár veitti er eigi vilja gróa og hann einn haldi upp fullum bótum og manngjöldum slíkum sem tólf menn dæma eftir lögum fyrir þann mann, og svo konungi þegngildi. En þeir menn sem mönnum veita lið til eður föruneyti, hylla eður samþykkja með þeim þann hug að taka menn af, svari slíku fyrir konungdóminum og erfingjum hins dauða sem réttarinn konungdómsins og skynsamir menn tólf dæma með honum eftir lögum og atvikum. En landsvist þeirra sé undir konungs miskunn.

22. Hér segir hversu réttarinn skal menn sætta og sekt hans ef hann gerir eigi rétt

Nú vill sá eigi bæta er misgerði, þá skal sá er misgjört er við kæra fyrir konungs umboðsmanni þeim sem hann hefir sitt réttindavald í hendur fengið. Þá skal réttarinn stefna honum fyrir sig til þings og nefna þar tólf skynsama menn að dæmi þeirra í milli að áður teknu prófi og seti á salastefnur. Og ef sá vill þá eigi gjalda er misgerði það sem dæmt var, þá sæki út með dómrofum og atferðum. Nú vill sá eigi bæta er misgerði, en konungs umboðsmaður afrækist rétt að gera þeirra í milli, og hefnir sá síðan er misgert var við sinna svívirðinga, og verður hefndin meiri en hinn gjörði til. En það sem í milli ber eftir skynsamra manna dómi þá er þeir sættast, þá skal það gjalda hálft sá er hefndi sín en hálft konungs umboðsmaður, bæði konungi og svo þeim er fyrir vanvirðu varð, því að hann afræktist rétt að gjöra. En ef sá hefnir sín svo að hefndin verður eigi meiri en áður var til gert, þá er hann saklaus við konung um það mál, því að hann beiddi réttar síns áður og fékk eigi. En umboðsmaður konungs gjaldi einn saman slíkan sakareyri konungi sem á þeim verkum eður áskilnaði stóð, því að hann afræktist rétt að gjöra. Hvervetna þar sem sá kærir sig fyrir réttara er misgert er við, þá á réttarinn fyrri að gera þeim rétt sem mishaldinn er en taka konungi sekt til handa. Og hvervetna þar sem dómurinn vægir eftir málavöxtum þeim er misgert hefir og fellir rétt þess er fyrir vanvirðing varð, þá ber betur rétturum konungdómsins að fella eftir því konungs sakeyri ef þeir vilja rétt með fara, því að svo gjörir konungur sjálfur um þegngildi.

23. Hér hefur upp og segir konungi sektarfé á blaki öllu

Ef maður hrífur mann svo að blæðir eður klýpir svo að blátt er eða lýstur mann pústur eða hnefahögg, eður ryskjast menn eða berjast með hnefum og með hverjum hætti maður fellir mann af baki ef hann ríður eða hrindur, eður eys eldi á mann svo að hann brenn eða hár eður klæði af honum, og svo ef maður stingur öxarskafti eður spjótskafti á manni með heiftugri hendi, bæti þeim er misgert var við eftir sex manna dómi. En konungi hálfa mörk fyrir hverja grein þessa. En um blak allt og svo ef maður hrindur manni eða drepur hross undir manni, eða hnykkir til sín eður frá eða á hverja lund maður fellir mann eða hnykkir hetti að hálsi manni, eður rífur klæði af manni eður byrgir mann í húsi svo að hann kemst eigi í brott nema hann brjóti húsið, eður tálmar ferð manns eða eys á mann saur eður vætu, eður sker hár eða klæði af manni með heiftugri hendi, og allt annað það er manni verður með öfund misþyrmt með þeim hætti að sá gefur sök á er fyrir verður og hafa skynsamir menn séð á, þá skal sá er misgerði bæta eftir lögligum sex manna dómi þeim er fyrir varð en konungi tvo aura fyrir hverja grein þessa. En þó að engin sé vitni til þá eigi hann kost að beiða út réttar síns þegar hann vill. En ef sá synjar er fyrir sök verður, syni með lýritareiði eður bæti sem áður var skilt. En ef maður hleypur að manni með heift og verður haldinn, bæti eftir dómi þeim sem hann hljóp að en konungi tvo aura. En ef maður hleypur að manni og heldur sér sjálfur, það heitir argafas. Öngan á konungur rétt á því. Sakaráberi skal vera fyrir sök hverri en enginn sóknari skal gefa sök á annars sæmdum eða fjárhlutum nema heimiliskviðarvitni fylgi, og þó því aðeins ef verða lemstrarsár eða þaðan af stærri. En ef minni eru þegar sá gefur sök á er málaefni á, þó að hann sættist og gefi upp síðan, þá á konungur rétt sinn og megu hans sóknarar sækja þegar þeir vilja honum til handa. Engan á konungur rétt á þeim manni sem engan á sjálfur á sér. Ef maður særir mann, bindur eður ber eða skemmir fullréttisorðum eður verkum og vitu það vitni, og krefur sá lagafestu er fyrir vanvirðu varð en hinn neitar, þá sekist hann hálfri mörk, hálft konungi en hálft þeim er mál á.

24. Hér segir ef fénaður verður manni að skaða hverju sá skal fyrir svara að lögum er átti

Nú er graðungur í yxnatali þar til sem hann er þrevetur og ábyrgist sem fyrir annan fénað. En ef graðungur eður uxi verður manni að skaða, þá skal erfingi beiða út uxa eða graðungs. En eigandi leggi band við og fái honum í hendur eða hans umboðsmaður. En ef eigandi vill það eigi og fæðir hann síðan graðung eður uxa, bæti þeim er fyrir verður eður hans erfingjum tíu mörkum og uxann eður graðung á ofan og fellur niður konungs réttur. Ef hestur eður hross bítur mann eða lýstur, eður stangar naut eða svín höggur, bæti sá er þann fénað átti hálfum sárbótum þar til er bót er slíks verð sem það kvikendi er vert er hinn fékk mein af, eftir sex manna dómi, nema þeim sýnist af þess völdum vorðið hafa er mein fékk, hafi fyrir eftir dómi. En ef hundur bítur mann, þá krefi sá hunds er bitinn var en hinn leggi band á og fái honum í hönd er bitinn var, nema skynsömum mönnum virðist sá valdið hafa er bitinn var, þá bæti fyrir eftir dómi. En ef hann fæðir hund síðan og bítur hann mann oftar, bæti sem sjálfur hann hafi gert.

25. Hér segir um fullréttisorð hver sekt við liggur

Engi maður skal það við annan mæla að hann hafi þegið skömm á sjálfum sér, hvorki sýslumaður né annar maður, nema honum fylgi tíu menn til þings og sanni mál hans sem mælt er í lögum, að tveir skulu sverja en átta sanna mál hans. Og þeir tveir skulu hafa bók í hendi og sveri svo: Til þess leggur hann hönd á helga bók og segir það guði, að það höfum við heyrt, en eigi vitum við hvað satt er. En ef hann missir þessa votta þá er hann sekur fjórum mörkum við konung, en bæti þeim er hann mælti við fullrétti eftir sex manna dómi lögliga til nefndum. En hinn er til var mælt skal þó hafa fyrir sér lýritareið þó að hinn hafi þessa votta alla. Ef maður mælir það við mann að hann ráði land eður þegna undan konungi sínum, það skal hvorki mæla sýslumaður né annar maður nema heimiliskviðarvitni fylgi. En sá er það mælir er sekur fjórum mörkum við konung og hinum sem sex skynsamir menn dæma. En ef maður mælir þá skömm við konu manns að hon liggi með manni öðrum en bónda sínum eður kennir það dóttur manns eður systur að þær liggi með manni, það skal engi mæla nema heimiliskviðarvitni fylgi, nema hann geri sig sekan fjórum mörkum við konung en hinum fullrétti eftir sex manna dómi. En ef maður kallar mann drottinsvika, fordæðu, morðingja, þjóf, hvinn, pútuson, hórkonuson eður önnur jafnskemmilig orð, þá er sá sekur fjórum mörkum við konung en hinum eftir dómi er við var mælt. En öll önnur fjölmæli þau er smæri dæmast og til minni hneyksla horfa skulu eftir dómi ganga, bæði sekt við konungdóminn og réttur þeirra sem talað er til. En ef maður talar ókvæðisorð við karlmann eður konu það er þessor sekt liggur við, þá skal þó fullrétti uppi eftir sex manna dómi við þann er við var mælt þó að hinn helgi sig meður heimiliskviðarvitni, nema hann eigi að lögum sókn á því máli, þá er þar ekki réttarfar á, og svo skal um öll fjölmæli og fullréttisorð.

26. Hér segir um rógsmenn alla

Svo er mælt um rógsmenn alla að sá maður sem hann rægir mann við konung eður byskup, jarl eður sýslumann svari slíku fyrir sem sá ætti er rægður var ef hann væri þess sannur, nema sá er rægði syni og hafi fyrir sér séttareið. En ef maður kennir manni það róg að hann hafi fengið óþokka konungs af hans orðum, haldi fyrir einseiði eður bæti eftir sex manna dómi sakarábera, en engi á sök á sönnum rógi.

27. Hér segir um kveðskap

Ef maður yrkir um mann það sem mönnum virðist til háðungar eður níðs fjórðungi lengra, þá skal sakaráberi kveðja þings og kveði á þingi en hinn færist undan með lýritareiði ef hann er fær til þess, ella gjaldi konungi fjórar merkur, en hinum rétt sinn eftir sex manna dómi. Nú kveða fleiri en einn fjórðungi lengra, þá sekist hver fyrir sig fullri sekt við konungdóminn og þann sem um var kveðið. Nú kveður maður skáldskap til háðungar manni þó að um annan sé ort eður snýr hann á hönd honum nokkuru orði, bæti þeim eftir sex manna dómi en kóngi tvær merkur. Nú mál hvert er mælir maður við annan svo að honum horfi til hneyksla eður kennir manni hvinnsku eður fordæðu, og á hann eigi sjálfur sök á því máli, þá er hann fjölmælismaður nema hann hafi heimiliskviðarvitni á hendur hönum, þá skal hann sverja fyrir lýritareið, en ef hann missir heimiliskviðarvitnis á þingi þá er hann sekur fjórum mörkum við konung en bæti hinum rétti sínum eftir sex manna dómi. Svo skal orð hvert vera sem mælt er og skal að skáldskaparmálum ráða. Engi maður sekist á því orði sem færa má til góðs og ills. Jafnt sekist maður hvort sem mælt er við mann áheyranda eður afheyranda ef það er vitnisfast.

28. Hér segir um legorð með annars konu

Ef maður gjörir svo mikið óhæfuverk að hann leggst með konu manns, þá skal hann bæta bónda hennar slíku sem tólf menn dæma löglega til nefndir. En ef hann er fær til undanfærslu syni með tylftareiði. Nú ef maður sættist við þann mann sem legið hefur konu hans, þá skal sá veita tryggðir er konu á. En ef hann tekur hana aftur í sætt og liggur hinn hana annað sinn meðan þau eru saman, þá er hann tryggrofi sem hinn er vegur á tryggðir óspilltar.

29. Um boðslettur hálfréttissmenn

En þeir menn sem til þess vilja hafa sig að ganga í samkundur manna óboðnir af þess hendi sem veisluna á og situr þar slímusetu, og þó að hann verði harðlega brutt rekinn eður misþyrmt þar nokkuð, þá skulu þeir vera hálfréttismenn og sekur eyri við konung. Er þetta fyrir því svo gjört að margir góðir menn hafa fengið skemmdir og vandræði af þeirra óhlutvendi.

30. Hér segir um heila förumenn

Maður hver fulltíða er gengur húsa á meðal og þiggur ölmusu, hann á öngvan rétt á sér þó að sé nauðigur burt rekinn meðan hann gengur á vonarvöl ef hann er heill maður og verkfær, nema hann beiði sér vistar og fái eigi. En þegar hann fær sér sjálfur matar og klæða eður vopna eður frændur hans, þá er hann þegar réttnæmur. Þeim mönnum skal eigi gefast ölmusa sem ganga húsa meðal og bera vopn. En ef þeir menn sem með vonarvöl ganga og þiggja ölmusu vanvirða bændur eður aðra dugandi menn, þá sem heimilisfastir eru, með orðum eður verkum svo að það verði vitnisfast, þá svari líkamlegri refsing eftir lögligum dómi, utan þeir fái fullan borgunarmann að lúka slíkt fé sem er dæmt í rétta salastefnu. Ef maður særir mann, bindur eður ber eður skemmir fullréttisorðum eður verkum og vita það vitni, og krefur sá lagafestu og réttar síns er fyrir vanvirðing varð, en hinn neitar, þá sekist sá hálfri mörk, hálft kóngi en hálft þeim er mál á. Nú ef þeir sem misgjörðu vilja hlaupast undan dómi, krefji sá granna sína til er fyrir vanvirðing varð ef konungs umboðsmaður er ekki nær, að taka þann mann og fjötra og flytja hann undir löglegan dóm, utan sá fái borgunarmann sem brotligur varð að hann skal hvergi undan hlaupa.

31. Hér segir um rétt á frændkonum manna ef þær eru legnar

Konur þær allar er mönnum eru skyldar og menn vilja öngva rækt á leggja, þá taki enginn meira rétt á þeim en lagarétt tólf aura. En ef frændur konunnar vilja leggja til hennar heimanfylgju slíka sem sex skynsamir menn sjá að hinn megi við taka er konu hefur legið og vill hann þá eigi festa hana, þá skal hann gjalda slíkan rétt fyrir þá konu sem tólf menn löglega til nefndir vilja dæmt hafa. En ef frændur konunnar vilja ekki til leggja, þá skal sá er konu hefur legið bæði bjóða og bæta lagarétt. En ef hann vill eigi viður taka sem þann rétt á með lögum taka og vinnur hann á þeim er konu hefur legið, þá vinnur hann á saklausum manni og svari slíku sem lög votta. En allar meyjar og konur er menn leggja rækt á og verða þær legnar, þá skulu það dæma tólf menn bæði rétt og ráðspell eftir því sem þeir sjá að hann sé vel sæmdur af er réttinn á að heimta. Nú vænist maður því að hann hafi legið með konu, og ef hún færist undan að lögum þá gjaldi hann slíkan rétt fyrir þá konu sem hann sé þess sannur, heitir snápur æ síðan og því heitir þessi réttur snápsgjöld. Erfingi skal rétt taka á konu hverri ef hún er legin, karlmaður en eigi kona, þó að hún sé erfingi, svo sá sem í ómegð er sem fulltíða, og taki umboðsmaður hans honum til handa nema hún eigi sér bónda, þá tekur hann rétt á konu sinni. Kona sjálf á rétt á sér ef hún er börð og á hún sér eigi bónda. Hvervetna þar sem kona verður barnshafandi, þá skal sá er það barn á inna þeim fyrir kost er konu annaðist meðan hún var í þeim sjúkleika og svo fyrir barnfóstur. Nú ef sá maður er andaður er konu hefir legið, þá skal erfingi svara þeim rétti og kostnaði svo miklum sem hann hefir fé tekið eftir hann en eigi meira. En öngu á hann að svara þar sem hann erfir ekki.