Jónsbók (2004)/Landabirgðabálkur

Hér hefur upp hinn átta hlut lögbókar er heitir landabrigðabálkur og segir fyrst hversu ungur maður fulltíða skal jörðum sínum brigða þeim er fjárhaldsmaður hans seldi

1.

Hvar sem ungum manni tæmist land í erfð eður að gjöf eður í vígsbætur eða réttarfar, þeim er eigi á sjálfur varðveislu fjár síns, og selur fjárhaldsmaður hans í brott, þá á hann brigð til þess lands hvort sem er eitt eður fleiri. Hann skal brigt hafa innan tíu vetra síðan hann tók við fjárvarðveislu sinni, og er hann innan lands, ella á hann þess máls aldri uppreist, nema nauðsyn banni. Nú þó að hann eigi fleiri lönd að brigða, þá skal hann brigt hafa öll innan tíu vetra síðan hann er úr ómegð. Og svo ef hann hefir utan lands verið, þá skal hann svo brigt hafa ef hann kemur út fulltíða. Ef maður vill jörð brigða, þá skal hann fara um haustið til bæjar þess er sá býr á sem jörð kallast eiga og segja honum við votta að hann vill þá jörð brigða. Þetta skal hann gert hafa fyrir jólanátt, hvar sem hann finnur hann. Hann skal stefna honum til jarðar þeirrar er hann vill brigða fimmta dag viku þann er þrjár vikur eru af sumri og flyti þar vitni sín að þetta er hans jörð, og hann seldi eigi né galt og eigi gaf hann, og engi sá er hann bauð um. Og ef honum fullnast þessor vitni, þá skulu dómendur dæma honum jörð sína en hinum aura sína af þeim er honum seldi. Ef þórsdag þann er þrjár vikur eru af sumri ber á helgan dag, þá komi öll gögn fram um jarðarbrigði hinn næsta virkan dag eftir. Nú hefir jörð meir að sölum farið, þá eigi hver við sinn heimildarmann eður hans erfingja ef hann er dauður, og hafi þeir fé eftir hann tekið, en við fjárvarðveislumann ef hann er utan lands, þar til sem er fjárvarðveislumaður hins unga manns er, nema hann fái vitni til þess að hann seldi fyrir skulda sakir, þeirra sem áður voru á fénu, og eigi mátti hann þær með öðru gjalda eða til bjargar þeim ómögum er á fénu voru, og ekki var annað til fyrir þá að leggja, og hann seldi sem dýrst mátti hann, og fyrst seldi hann leiguból eður það er ómaginn átti í annarra manna jörðum. Og ef hann fær þessor vitni, standi jörð sem komin er. En ef honum fallast þessi vitni, þá eignist hinn ungi maður jörðina jafngóða að næstum fardögum. En ef hús eru betri en þá er jörð var seld, þá bæti hann fyrir það. En ef verri eru, þá bæti sá honum það er húsum hefir spillt. Nú kemur sá eigi til er stefnt var, þá skal sækjandi bera láta stefnuvætti sín, síðan eignarvitni sín, þá skulu dómendur dæma honum jörð en hinn snúist á sinn sala eftir slíkum aurum sem hann gaf fyrir jörð. Nú fallast honum þessor brigðfyrir einhverrar nauðsynjar sakir eður vankunnandi, og meta það sex skynsamir menn, þá brigði þeirri jörðu sem nú var mælt, þó að síðar sé.

2. Hér segir hversu gamall maður má eigi landsölu ráða

Eigi á maður að selja land undan erfingjum sínum þá er hann er áttatigi vetra gamall eður ellri, nema fyrir fulla þörf sína og svo ef hann liggur í banasótt, nema fulltíða erfingjar lofi. En ef hann selur, þá má erfingi brigða ef hann vill. Hann skal svo brigð hefja og svo að allri sókn fara sem fyrr skilur, fyrir utan það að sá er þessarri jörðu brigðir skal greiða fulla aura fyrir þá jörð af sínu fé að næstum fardögum. Nú vill hinn eigi við aurum taka, þá sýni hann aura, hvort sem það er búfé eður annað fé, og hafi að láni þar til er hinn heimtir, og ábyrgist að öllu. Rétt er honum að byggja öðrum þetta fé og er hann þó fyrir skuld sem áður.

3. Hér segir hversu eignarskipti skal löndum skipta

Ef menn vilja jörðum skipta sín í millum eignarskipti og verða þeir allir á eitt sáttir, skipti sem þeir vilja og leggi hluti á, og hafi það hver sem hlýtur, og lýsi á þingi síðan hvað hver þeirra hefir hlotið. Og ef þeir játa því allir, þá má það skipti engi maður rjúfa. Nú vilja menn jörðum sínum skipta og hafa við héraðsmenn, þá skal sá er skipta vill stefna þeim öllum til jarðar er að móti eigu, svo löngu fyrir að um lið megi sýsla, að snjólausum jörðum og ósánum, og óbreiddum völlum. Sá skal ráða er stærstum vill skipta ef öngvan skaðar þar í. Meður skafti eða taugu á jörðum að skipta innan garðs en sjónhendingum utan garðs. Marksteina skal þar niður setja og grafa sem þeir verða ásáttir og leggja hjá þrjá steina og eru þeir kallaðir lýritar. Svo skulu héraðsmenn jörðum skipta með þeim mönnum öllum er þar eigu hlut í að vel megi hver síns njóta, og engi þeirra þurfi kvikfé sitt heiman yfir annars land að reka. Eigi skal húsum móti jörðum skipta. Nú er þar sumt land betra en sumt, þá skal því skipta þeim mun óvíðara svo að jafngóð sé bæði. Vatn skal og falla til allra bæja og allur saman skal fara hvers þeirra hlutur. Og ef það er öngum þeirra til skaða, þá hafi það hver sem næst er því landi er áður á hann. Um þveran dal skal í sundur skipta ef það er dalland, nema þar falli á sú að eigi gangi kvikfé yfir og sé þeim jafnhægt til, þá er rétt að skipta að endilöngum dalnum. Húsum skal og skipta að jafnaði. Þeir eigu að þverkyrfa hús í sundur en eigi að endilöngum skipta. Nú verður hús manns þar á annars jörðu og skal það hús þar vera meðan sá vill er hús á og skal hann úr sínu landi allt til færa um að bæta. En ef hann vill úr stað færa húsið eður auka það, þá skal hann á sína jörð færa. Menn eiga að brjóta jörð ef þeir vilja til taðna sér eður akra þó að fleiri eigi saman og eiga þeir jafngóðri jörð að auka sína töðu ef þeir vilja sem síðar auka. Þess er og kostur þar sem túnvelli er skipt að muna út garði og kveðja sex skynsama menn til að meta ef þeir verða eigi ásáttir ella nær þeir auka jöfnu. Nú vilja sumir auka en sumir eigi, þá skulu þeir gjalda hinum slíka jörð sem til þeirra kemur eftir sex manna mati ef mismunur er.

4. Hér segir hver búfjárítala vera skal í haga

Þar er menn sjá eigi lögskipti á landi, þá skulu þeir skipta húsum, töðum og akurlöndum, engjum og skógum, veiðum og rekum. En kvikfé skulu þeir telja í haga svo að þeir hyggi eigi nýtra þó að færa sé, og sé þó skipað til fulls. Þar skulu menn ítölu búfjár hafa í haga er skynsömum mönnum lítast þær fleiri nætur er fé gengur í annars land. Þar skal telja þrevett naut við kú og tvau tvævetur naut við kú, en þrjú veturgömul við kú, eigi skal kálfa telja. Hross þrevett við kú og svo þó að ellra sé. Tvau hross tvævetur við kú, eigi skal fyl telja. Geitur fimm við kú. Gamlir sauðir tíu við kú. Lömb tuttugu við kú. Eigi skal svín í land telja né hafa. Nú þó að menn vili húsum einum skipta eður töðuvöllum, engiteigum eða heyjum, rekum eður veiðum, þá skal hann æ þeim heim stefna áður er til móts eigu við hann svo að um lið megt sýsla. Skulu menn jafnan til skiptis koma eður virðingar fyrir miðjan dag, ella sekist tveimur aurum við konung er eigi fer lögliga til kvaddur, nema nauðsyn banni.

5. Hér segir hversu skipta skal jörðum að lögum

Nú ef einnhver maður eður fleiri vilja eigi til skiptis koma sá er stefnt var, þá skal þó skipta sem nú var talt. Vitni skal sá bera láta er sækir, að hann hefir honum þangað stefnt til jarðarskiptis við sig. Hluti skal þá í skaut bera, jafnmarga sem þeir eiga í jörðu til. Sjá skulu skilríkir menn mark hluta þeirra áður og vita hvað hver þeirra hlýtur í húsum eður jörðu. Aðrir menn skulu hluti þeirra bera er eigi vilja sjálfir bera. Á þing skulu þeir þá fara og lýsa þar eignaskipti sínu. Þá hafa þeir að lögum skipt eignum sínum. Og ef sá maður er eigi innan lands er jörð á með þeim, þá skal stefna umboðsmanni hans til eður erfingja ef hann er eigi til og skipti svo sem hann sé sjálfur hjá. Nú vill maður eigi til skiptis koma, þá skal stefna honum til höfuðbóls með tvo votta og njóta þar votta sinna að hann stefndi honum til jarðaskiptis. Sá skal skipti ráða er stærstum vill skipta. Skipti í sundur heilum bæjum eður hálfum nema þeim þikki annað sannara. Nú skulu valinkunnir menn skipta og hluta á þingi. Síðan merki hann sjálfur sinn hlut. En valinkunnir menn kasti hlut þrjóts ómerktum í skaut og lýsi þar þegar hvað hver hlýtur. Það skipti skal haldast um aldur og ævi síðan.

6. Hér segir hversu gera skal lagakaup á jörðu

Ef maður vill selja land sitt við verði, þá skulu þeir kveða á um merki með sér um land og skóga, engjar og reka, veiðar og afréttu, og allra gæða skulu þeir geta þeirra er því landi eiga að fylgja, þó að það eigi í önnur lönd eða aðrir menn eigi þangað ítök. Síðan skulu þeir í hendur takast og kaupa fyrir vottum tveimur eður fleirum. Hann skal handsala honum það land með hálfum ummerkjum þeim er landinu eigu að fylgja. Hann skal heimila honum fé það allt er þar finnst í jörðu eður á, nema eigandi verði til. En ef land er eigi við votta handsalað, þá er sem ókeypt sé. En annar hvor þeirra skal rift hafa innan tólf mánaða, ella sé fast kaup þeirra, og sekur sex aurum við konung hvor þeirra fyrir það er þeir keyptu vottalaust. Skyldur er sá maður er honum seldi land að ganga á merki innan tólf mánaða og stefna þeim til öllum áður er til móts eigu við hann. Þar er eigi skylt að ganga á merki sem firðir deila eða ár þær er netnæmir fiskar ganga í. En ef þar liggja eyjar fyrir, þá skal kveða á þær. Nú ef maður á við annan mann eyjar þær er mörk eru í, þá skal þau sýna sem á meginlandi. Eigi er skylt að ganga á merki þar er fjöll eru þau er vötn deilast milli héraða, og eigi er skylt að ganga úr búfjárhögum á fjöll upp. Kveða skal þar á um merki. Nú prófast svo að hann átti minna en hann seldi, bæti fyrir eftir sex manna virðingu og haldist þó kaup þeirra.

7. Hér segir hversu fara skulu landsnytjar ef maður selur land sitt fyrir fardaga

Ef maður selur land sitt fyrir fardaga eður á miðjum misserum, þá á hann allar landsnytjar sem áður framan til fardaga, nema frá sé skilt í kaupi þeirra, en reka til miðs dags frjádaginn í fardögum, allt það er þar til rekur á, og fé það allt er finnst þar í jörðu og á. En svo skal hann skóg höggva sem leigumaður. Hann skal ábyrgjast land við eldi og skriðum, vötnum og öllum spellum til fardaga. En ef aðrir menn skeðja þar jörðu eða gera þar önnur spell á landi, þá á sá sókn á því er seldi en hinn ef hann vill eigi.

8. Hér segir hversu lögmála skal gera á landi

Svo er mælt þar er maður selur öðrum manni land sitt og vill hann leggja á lögmála, þá skulu þeir handsalast við þann mála sem þeir verða ásáttir. Það er lögmáli á landi að hann skal eiga kost að kaupa landið fyrstur að jöfnu verði sem annar býður til þá er landið er falt. Vera má og sá máli á landi að þeir kveði sjálfir á meður sér hversu dýrt vera skal landið þá er falt verður. Þeim mála skal hann lýsa fyrir sex grönnum sínum og hið næsta sumar eftir á alþingi svo að lögmaður heyri. Hann skal lýsa þeim mála sinn á hverjum tíu vetrum á héraðsþingum meðan hinn lifir. En ef sá er dauður er málinn er við, þá skal lýsa hið þriðja hvert ár á héraðsþingi. En ef eigi er svo lýst, þá er af málinn eða veð. En ef sá deyr er málann átti, þá skulu erfingjar hans skipta þeim mála með sér og lýsa á héraðsþingi hið þriðja hvert ár.

9. Hér segir hversu leggja skal lögveð í land manns

Ef maður vill leggja lögveð í land manns, hvort sem það er fyrir landsverð eða aðra aura, þá skulu þeir handsalast það við. En það er lögveð í landi manns að hann skal taka jafnmarga aura sem sex skynsamir menn virða að hann sé vel haldinn af. En það skulu þeir gera fimmta dag viku þann er fjórar vikur eru af sumri, hið sama vor er hann missir fjár síns. Þá eignast hann svo mikið fé í landi sem þeir dæma honum. Svo skal maður lýsa veði sem mála. Rétt er að selja eður gefa landsmála eða veð og svo annarra gripa ef sá er innan héraðs er við tekur. Og skal hann segja með vottum þeim er land á hið fyrsta vor að hann skal bjóða honum þann mála og skal hann lýsa á þingi á hverjum þrimur vetrum. En ef hann gjörir eigi svo, þá er hann af þeim mála eða veði, hvort sem það er land eður annar gripur.

10. Hér segir hversu maður skal selja málaland að lögum

Ef maður vill selja málaland sitt, þá skal hann fara til fundar við þann er málann á eður umboðsmann hans, hvort sem hann er í ómegð eða er hann úr landi farinn, sjau náttum fyrir sumar, og segja honum að landið er falt. Hann skal stefna honum heim með vottum sumarsdag hinn fyrsta og segja honum að hann man þá þar koma og bjóða honum landsmála, og hafa þá þann meður sér er kaupa vill. Nú er hann eigi heima þá er honum er heim stefnt sumarsdag hinn fyrsta að nauðsynjalausu, og hafi hann öngvan mann fengið til kjörs fyrir sig, þann er handsöl sé við eigandi, þá verður sá sekur sex aurum við konung er landið var boðið, en landið málalaust utan því aðeins að hinn kaupi ódýrra en honum var boðið eður gerðu þeir til þess að vilja koma mála hans af landinu en kaupa öngu, þá er hvor þeirra sekur sex aurum við konung og fastur máli sem áður. Sektalaust er manni að kjósa undan sér málaland sitt.

11. Hér segir ef maður selur annars manns málaland hversu skal brigða er á

Ef maður selur málaland annars manns eða það er annar á veð í, þá skal sá er málann á eða veð þessi lönd brigða innan næstu tólf mánaða, nema forföll banni, ellar á hann þess máls aldri uppreist. Nú á maður fé að manni, en sá er gjalda á handsalar honum land sitt og heimilar fyrir hverjum manni. Og ef fé gelst eigi að gjalddaga, þá verður hans land svo mikið sem hann átti fé að honum og þarf þeim máldaga eigi að lýsa. Nú selur hann í brott landið en hinn missir fjár síns að gjalddögum, þá gangi hann að frjálsu til lands síns.

12. Hér segir hversu fara skal um það land er maður gefur með sér

Ef maður gefur land með sér til fósturs eður þeim manni öðrum er hann vill framfæra, og skilur svo fyrir að ómagaeyrir skal í því landi liggja meðan hann þarf framfærslu, og verður framfærslan eigi efnd eður svo illa að skynsömum mönnum virðist eigi viðvært, þá skal sá er til ómagaframfærslu stendur brigða landið þegar hann veit það og hann má fyrir nauðsynja sakir, og brigði sem fyrr segir. En sá er sekur sex aurum við konung er ómagann skyldi fram hafa fært.