Jónsbók (2004)/Búnaðarbálkur

Hér hefur upp hinn níunda hlut lögbókar er heitir búnaðarbálkur og segir í fyrsta capitulo hversu maður skal jörð byggja eður leigja og hversu hann skal leigu afhenda og hverju hann er sekur ef hann byggir af leigujörð sinni við landsdrottin

1.

Ef maður vill annars jörð leiga undir bú sitt, þá skal hann þá jörð taka með handsölum og tveimur skilríkum vitnum eður fleirum, þá skal hann þá jörð hafa heimila hina næstu tólf mánaði að búa á og inna hinum leigu slíka sem þeir verða ásáttir. Nú er leiga eindöguð og kemur eigi fram í eindaga, þá óheimilar hann sér jörð. Nú reiðir hann suma leigu en suma eigi, þá skal sækja út með vottum og fimmtarstefnum það er eftir stendur og svo þó að til allrar þurfi að sækja. Leiguliði skal á jörðu búa til fardaga að öðru vori nema þeir hafi lengri máldaga á gjörva. Af þeirri jörðu má hann ekki öðrum selja á leigu til heimildar nema hann skili það þá er hann tók. En ef hann selur, þá er honum jörð óheimil og svo hinum er tekur, og gjaldi landsdrottni landnám fullt hvor tveggi þeirra, og heimili sér svo jörð sá er af landsdrottni tók. Af skal hinn fara er af leiguliða tók. En allt það er hann missir síns í þá skal hinn bæta honum og hálfa mörk að handsalssliti. Og svo skal hver bæta sá er öðrum selur óheimilt, nema hann hafi aðra jörð jafngóða að fá honum.

2. Hér segir hversu konungsjarðir skal byggja að lögum

Ef umboðsmaður konungs byggir jarðir hans í héraði að réttum jarðarmála, þá skal það haldast eftir þeirri ábúð og landsskyld sem leiguliði fær vitni til, því að svo á konungsjarðir að byggja sem um aðrar skilur að lögum þó að umboðsmannaskipti verði, þá skal hver sinn leigumála hafa. Ef maður tekur mútu til konungsjarðir að byggja eður annarra manna, gjaldi aftur það sem hann tók í mútuna en konungi tvenn slík. En fyrir þær jarðir sem konungur á eigi, gjaldi hálft konungi en hálft landeiganda, og sé skildur við umboð og heiti drengur að verri. En sá er mútuna gaf gjaldi slíkt sem hann gaf eftir því sem áður var skilt og sé skildur við ábúð jarðarinnar. En ef maður byggir dýrra konungsjarðir en vani er á, þá skal því framar telja til leiðangurs og landvarnar sem leigan er meiri á lóðinni, sem annaðhvort aukar fyrir báðum eða minnkar fyrir báðum, eftir því sem byggist. Ef konungs umboðsmaður lætur jarðir hans undan honum ganga að vilja sínum eða fyrir vanræktar sakir, og þó að konungdómurinn fái þær aftur, gjaldi umboðsmaður jafnmikið fé sem hann lét undan honum ganga fyrir vanræktar sakir og skaða þann sem af því varð, ef hann vissi. Ef maður segir eigi lausa jörð manns fyrir náttina helgu, þá skal hann hafa þá jörð ef landsdrottinn vill halda honum í hendur þá tólf mánaði, að slíkri leigu sem áður var mælt. En eftir náttina helgu, þá bjóði landsdrottinn honum jörð sína. Og ef hann vill eigi hafa, þá hafi hann sjálfur jörð sína og leigu með af þeim er af fer, slíka sem áður var skild. Ef maður gjörir kaldakol á jörðu manns, þá er það ef hann fer af henni fyrir náttina helgu svo að engi maður er eftir, þá á landsdrottinn það allt sem eftir er fémætt, nema kvikfé, og gjaldi honum á ofan tólf aura og svari fyrir boðburð og förumannaflutning ef fellur. Ef sá maður andast er á jörðu býr og kallar landsdrottinn að ólokin sé landsskyld, þá njóti arfi hins dauða votta sinna að landsskyld er lokin, og svo um alla ábúð jarðar. En ef hann hefir eigi vitni til, þá hafi landsdrottinn vitni til. En ef hvorgi hefir vitni til, þá sveri arfi og húsfrú hins dauða að eigi standi ábúð jarðar eftir eður landsskyld svo að þau viti skil á. Og ef þau sverja þetta, þá hafi landsdrottinn svo búið, og svo skal fara hið sama ef hinn er í útlegð.

3. Hér segir ábúðarskyldu leiguliða

Skyldur er maður að halda upp húsum þeim öllum er þá voru er hann kom til jarðar. Það skal hann eigi ábyrgjast þó að hús fyrnist. Nú er húsgjörð skild á hendur manni, þá skal hann gert hafa húsið áður en hann fer af jörðu. En ef hann hefir eigi gert, gjaldi landsdrottni húsverð áður hann fer í brott eða láti gera hús sem skilt var. En ef hann gjörir þau hús sem eigi voru skild á hann, þá á hann sjálfur þau. Hann skal bjóða landsdrottni með vottum að kaupa þau hús. Heimolt á hann að færa brott húsið fyrir fardaga. En ef hús stendur eftir fardaga, þá á sá hús er jörð á, nema hinn færi viðinn fyrir fardaga á hölkn eður hreysar, svo að hvorki sé að flytja þaðan yfir akur né eng, þá má hann færa þann við brott eftir fardaga þá er hann á helst tóm til. Svo er og ef maður leggur við sinn í þau hús er áður voru þar, þá skal hann í brott taka viðinn fyrir fardaga og bæta hús sem áður var. Sá eignast viðinn sem land á ef hinn tekur eigi úr húsum áður. Landsdrottinn er skyldur að fá við til að halda upp húsum svo að þar sé óhætt mönnum og fé. En ef hann fær eigi við til, ábyrgist skaða þann allan sem þar gerist af eftir því sem skynsamir menn meta. En ef hann fær við til þá skal leiguliði ábyrgjast þó að hús falli niður og hlaði vegg faðm saman eður lengra.

4. Hér segir nær leiguliði skal til jarðar koma

Leiguliði skal koma til jarðar þegar á vor er hann vill að voryrkja þar. En byggðum á hann til að fara þá er sex vikur eru af sumri. Er honum þar þá heimull hagi og föt sín og búsgögn inn að bera. Þeir skulu miðlast húsrúm við. En ef þeim vinnst eigi báðum húsrúm, þá á hinn heimil fjárhús þrjár nætur er áður bjó þar, því aðeins á sá er þar skal á landi búa smala sinn inni að hafa til laugardags að sá lofi er fyrir situr eða hann þurfi eigi allt húsrúm. En sá á síðan fyrir landi að ráða og húsum er þá hefir leigt. En þegar er sex vikur eru af sumri þá á hinn eigi er þar bjó áður að beita þar eng. Hafa á hann hross í haga til sunnudagsins og annan smala til þess er líður helgina. Rétt er honum og að vera þar um helgina með hjú sín og eru honum þá heimil fjárhús til innivistar ef þeim vinnast eigi báðum innihús. Því aðeins skal hann smala sinn inni hafa ef þeim vinnst báðum rúm og fari brott mánadaginn nema þá sé lögheilagt, ella nátt síðar, meður smala sinn allan og önnur föng.

5. Hér segir hversu fara skal um leigujörð ef leigumaður kemur eigi til

Nú leigir maður jörð að manni og kemur eigi til forfallalaust þá er sjau vikur eru af sumri, þá skal landsdrottinn fara til eður senda til og nýta sér landið svo sem hinn hefði eigi leigt og byggja öðrum ef hann vill, og heimti þó leigu alla af þeim er fyrr leigði. Nú selur maður jörð á leigu og vill eigi þann hafa láta er tók, þá gjöri sá hvort er hann vill er jörð leigði, að hann lögfesti og leggi á fimmtarstefnu, og njóti votta sinna hversu hann hefir jörð tekna. Og ef honum berast vitni að fullu, þá eiga bændur að dæma honum leigujörð sína eftir því sem vitni báru honum. Hinn kost á hann annan að heimta af landsdrottni landsskyld slíka sem hann skildi af honum. Vill hann eigi gjalda, sæki sem vitafé. Sá maður er jörð leigir á grasnautn alla á jörðu þeirri og allt að vinna á henni það er hann vill og þarf til húsa umbóta eður garða að búa um andvirki sitt, þar er hvorki spilli akri né eng. Svo skal leiguliði hjón hafa að hann fái unnið engjar allar, ella bæti landsdrottni skaða þann allan sem menn meta að land spillist af því, utan þeir skili öðruvíss.

6. Hér segir um leigujörð ef tveimur er byggð

Ef maður selur eina jörð tveimur mönnum að leiga, þá skal sá hafa er fyrri tók og svo skal hvervetna þar sem maður selur tveimur mönnum hið sama, að sá skal hafa er fyrri kaupir eður leigir. Halda skal hann skiladómi fyrir kaupi sínu og heyra votta hins að hann tók fyrri. Aðra jörð skal landsdrottinn hinum fá ef hann hefir til. En ef hann hefir eigi jörð til, þá skal landsdrottinn gjalda honum fé jafnmikið sem hann skildi sér af honum í landsskyld og sé síðan sáttir. En þetta skulu þeir reynt hafa innan hálfs mánaðar síðan jörð var tveimur byggð.

7. Hér segir hvað leigulandi á að fylgja eftir lögum

Ef menn beita engjar leiglendings eður haga, þá á hann sök á því en landeigandi ef hann vill eigi sækja, og svo ef jörðu er skatt, þá skal honum það allt bæta skaðabótum og landnámi sem sex grannar þeirra meta. Ef fiskveiður eður fuglveiður eða eggver fylgir leigulandi, þá á leiguliði það allt, nema frá sé skilt í kaupi þeirra, og svo ef þar rekur fugla eður fiska, sela eður háskerðinga og hnísur. Ef við rekur á leigulandsfjöru þá á leiguliði að draga við úr flæðarmáli og marka þess marki er fjöru á og festa sem hann eigi sjálfur. Hann skal eiga þar álnarkefli og smæri. Heimilt á hann að flytja þar farma á fjöru hins. Nú rekur hval á fjöru þar, þá skal hann festa hval sem hann eigi og hafa af sex vættir, hálft hvort spik og rengi, ef hvalur er tvítögur eður lengri. Þó er hann skyldur að festa hval þó að skemmri sé. En ef hann bergur verr hval eða viði en nú var mælt, þá er hann sekur sex aurum við landsdrottin og ábyrgist skaða þann allan sem eigandi fær af hans vanrækt. Leiguliði á þar veiðar allar að hafa þær sem því landi fylgja utan eggversfugla, þá skal engi maður veiða. Nú verpa þar elftur fyrir fardaga, þá eignast sá það er til jarðar kemur þá, en hinn þvílíkt sem var hið fyrra vorið, egg og unga. Leiguliði á þar torf að skera í landinu sem hann þarf til eldiviðar, þar nær sem áður hefir skorið verið, og fella saman torfgrafir. En við skal hann höggva ef áður hefir viði elt verið. Hvort tveggja ef áður hefir svo verið, nema þeir hafi annan veg skilt. Í skógi skal hann höggva slóðahrís og girði og lédengingarkol sér, og neyta þess alls svo hagliga sem hann ætti sjálfur þann skóg. Hann á og að bæta bús búhluti sína úr skógi eða af rekaviði. En ef hann gerir nýja, þá á landsdrottinn það. Nú á hann eldibranda þar eftir þá er hann fer af jörðu, þá skal landsdrottinn eður sá sem til jarðar kemur hafa þá eldibranda og inna hinum fyrir starf sitt eftir sex manna dómi, ella flyti hinn brott eður lógi að ósekju.

8. Hér segir hversu menn skulu færa byggðir sínar á fardögum

Fimmtidagur viku er sex vikur eru af sumri er hinn fyrsti fardagur, frjádagur, laugardagur og sunnudagur. Maður má færa heimili sitt árla fimmtadaginn og þess í milli, svo að hver sá maður er sér hefir tveggja missera vist tekið sé kominn til þess heimiliss sem hann skal hafa sunnudaginn að aftni forfallalaust, en hann er af vist sinni árla mánadaginn. Svo skulu menn koma til jarða sinna sem fyrr segir. Leiguliði er skyldur að færa alla myki á völl undan fé sínu áður hann fer af jörðu. Ella tvígildi fyrir það sem ófært er, þá er hann fer af jörðu, þann kostnað sem hinn þarf til brottfærslunnar er til jarðar fer.

9. Hér segir hversu upptækt er góss leiguliða ef eigi er brott fært

Ef maður fer af jörðu og á hann þar ker inni, þá skal hann það út hafa fært og allt búsgagn sitt hið síðasta laugardaginn í fardögum, nema hinn lofi. Rétt er manni að brjóta hús til þess að færa ker sitt út ef hann bætir húsið aftur jafnvel sem áður var, ella færi út í stöfum. Nú brýtur maður setstokka úr húsi eður bríkur þær sem greyping nemur eða naglfast er undir bjálka eður bita, þá skal hann það aftur færa. En allt það er húsbrot nemur, leggi á mörk, hálfa konungi en hálfa þeim er hús á, og gjöri hús jafngott sem áður var. Nú skal hann af jörðu flytja allt það sem hann á með réttu, korn sitt og hey, og slíkt sem fyrr sagði. Þá skal hann hafa brott flutt er sex vikur eru af sumri, utan hey og korn má standa meðan hinum er eigi mein að, og færi síðan úr hlöðum eður stakkgörðum og búi þar um á jörðu hins að hvorki spilli akri né eng. Nú vill hann eigi í brott flytja, þá er hinum er mein að, þá ábyrgist hann sjálfur hey sitt eður korn þó að hann kasti út. En allt annað það sem eftir er fémætt þá er sex vikur eru af sumri, utan kvikfé, þá eignast sá sem jörð á undir, utan hinn hafi fært í fjöru eða á holt utan garðs þar er hvorki spilli akri né eng, og hafi þaðan brott flutt fyrir næstu veturnætur. Um kaldakol forfallalaust, það sem fémætt er eftir utan kvikfé, þá eignast sá er jörð á. Svo skal sá maður alla hluti af jörðu færa og svo með öllu fara er jörð sína selur sem fyrr segir um leiguliða þann er af jörðu fer.

10. Hér segir um búfjárlausn á ótekinni jörðu

Hvervetna þar sem maður situr á jörðu ótekinni, þá á landsdrottinn lóð alla. En hinn leysi allt bú sitt undan með fullu landnámi við landsdrottin. Nú vill hann eigi af jörðu fara, þá skal jarðeigandi stefna honum þing og beiða þar bændur liðs að færa hann af jörðu sinni. Sekur er sá hver eyri við konung er eigi vill til fara. Umboðsmaður konungs er skyldur til að fara og öðlast meður því hálfa mörk konungi til handa.

11. Hér segir hversu leiguliði má hey selja að lögum

Leiguliði skal eigi lóga fé sínu til þess að hann seli hey af jörðu. En ef hann gjörir það, þá eigi landsdrottinn hálft heysverðið. En eigi er maður skyldur að taka fúlgufé til. En ef hann á korn eður hey falt í staða þá er hann fer brott af jörðu, þá skal hann bjóða landsdrottni með vottum að kaupa það og gjöra honum hálfs mánaðar stefnu til verðlyktingar, slíks sem sex skynsamir menn meta. En ef hann lýkur þá eigi verðið, seli hverjum er hann vill eða hafi sjálfur og hagi sem fyrr segir. Nú ef tveir menn eiga staða saman, hvort sem það er korn eða hey, þá skal hvorgi í brott flytja fyrr en skipt er. Ef maður höggur hey manns um merki fram, þá sekist hann eigi æ meðan hann hefir jafnmikið hey þar það sem hann þarf til að leggja. Nú ef hann flytur allt í brott þá sekist hann tveimur aurum við þann er heyið átti og eineiði með að hann flutti eigi minna hey aftur, það er granni hans átti, en það var er hann flutti í brott.

12. Hér segir um heysölur í héraði

Ef menn þurfa í byggðum hey að kaupa, þá skal sá er þarf fara til umboðsmanns konungs með tvo votta og biðja hann þing stefna, og nefna til sex skynsama menn að rannsaka byggðarlag til heysalna, svo víða sem þarf, og þar sem hey finnst til afhlaups ætli fyrst hrossum bónda traðgjöf til sumars, sauðfé og geitum til fardaga, mjólkkúm til þings. En það sem af gengur, seli sem flestra manna gengur í milli í því héraði, fyrri þar hreppsmönnum en öðrum, þeim þó að fullar vörslur leggi í móti. En sá er eigi vill svo hey selja sem fyrr skilur, gjaldi hálfa mörk, hálft konungi en hálft þeim er heysölu var synjað, og hafi þó hey fyrir öngvan pening og sé skipt að jafnaði þeirra í milli er þurfa. En ef konungs umboðsmaður vanrækir til að fara, þá gjaldi hann hálfa mörk þeim er hey þurfti að kaupa. En ef nökkur ver oddi og eggju það hey sem uppnæmt er eftir lögum, þá veri hann ógildur, hvort sem hann fær sár eða aðrar ákomur. En ef hann deyr af þá sé undir konungs miskunn.

13. Hér segir hversu leiguliðar skulu húsum skipta

Ef fleiri menn en einn búa í óskiptum húsum, þá skulu þeir elda hús að manntali en eigi að jarðaráhöfn, því að hjón þurfu eldingar en eigi húsin. En hversu sem þeir skipta húsum, þá eiga þeir allar dyr jafnheimilar þær sem óskiptar eru. En ef nökkur maður höggur eða brýtur fleiri dyr á húsum en þá voru er hann kom til lands, gjaldi konungi hálfa mörk en aðra hálfa mörk þeim er land á og á ofan fyrir húsaspell sem sex skynsamir menn meta. Sá skal krefja húsaskiptiss er til jarðar fer og hafa við votta tvo og lýsi því undir þá að hann krefur húsaskiptiss, og gjöri hinum fimmt til skiptiss, utan skipt sé áður. En ef hann vill þá eigi skipta, þá nefni hinn til tvo granna þeirra og skipti til hlutfalla og hluti síðan, og hafi það hvor er hlýtur. En ef hann stendur fyrir því er skipt var, gjaldi þeim mörk er til jarðar fer og hafi þó hús sem áður var skipt. Vill hann eigi gjalda, sæki sem vitafé. En þegar skipt er húsum þá skal sínum hluta húsa hvor halda og ráða. En þó að eitt naut bindi síðan á hlut annars manns leyfislaust í hús inn, þá sekist sá tveimur aurum við þann er til jarðar fer.

14. Hér segir um taðfall

Maður skal það taðfall hafa er þess manns fénaður gerði sem þar byggði er hann hefir sér bólfestu tekið. Ef maður tekur myki af annars manns bólfestu og færir á völl sinn eður akur, þá er hann sekur tveimur aurum við þann er mykina átti og teði honum þó jafngóðan akur eða völl sem hinn taddi sér áður meður þeim töðum sem hann flutti brott og jafnmikinn. Nú koma leiguliðar eigi allir senn til jarðar, þá skal sá krefja skiptiss er hafa vill við tvo votta eður fleiri. En ef óbyggð er jörð eða er sá eigi kominn er jörð hefir tekið, þá mæli hann sér teig jafnmikinn og teði jafnvel, og geri síðan hvort er þeir vilja, hluti eður hafi þann hvar sem taddan hefir. En leiguliðaskipti helst meðan einnhver þeirra býr á jörðu er skipti, en ef einnhver þeirra fer brott en annar kemur til, þá hafi sá þá teiga og þau hús er til kemur sem hinn hafði er brott fór og njóti hver sinnar ábúðar. Svo skal jörðu skipta að allir teigar þikki jafngóðir eftir leiguburð.

15. Hér segir hversu sækja skal til skipta

Svo skal krefja skiptis engja sem akra eður valla. Af annars jörðu skal maður hvorki slá né skera eður sér nýta. En ef maður slær völl manns eða eng eður sker akur manns, þá skal sá sem á fara til og lögfesta fyrir akur eða eng, hvort sem korn eður hey liggur á eður eigi, og leggi sá fimmtarstefnu er heldur þikkist þurfa. En ef þess verður akur eða eng er lögfesti fyrir, þá skal hann beiða afturfærslu að aftur komi fyrir fimmt og leggi á landnám og eineiði með að hann flutti eigi minna aftur korn eður hey en hann flutti brott. En ef hann færir þá eigi aftur þá krefi hinn út og stefni heim innan hálfs mánaðar. Og ef þá kemur eigi heim þá stefni hann honum þing fyrir rán og lögleysu, og láti bera vitni sín á þingi hversu farið er og beiði bændur dóms og atfarar að taka sem vitafé. Ef fleiri menn búa á einum bæ, þá skal engi þeirra fleira fé hafa en landið má vel upp halda, og skipti þeir fé og landi að jafnaði með sér. En ef annar hvor hefir fleira fé í haga gjaldi grasverð sem menn meta.

16. Hér segir um landamerki hversu fara skal að lögum

Nú ganga menn á landamerki og verða eigi ásáttir, þá skulu þeir lögfesta til þeirra ummerkja er þeir segja rétt vera er þar eiga lönd til móts fyrir utan. En ef þeir lögfesta eigi innan tólf mánaða síðan þeir hafa á merki gengið, þá eiga þeir þess máls aldri uppreist. Nú lögfestir maður yfir merki fram þar sem rétt var til gengið, bæti hinum skaða þann allan sem hann hafði af því og öfundarbót með eftir sex manna dómi. Ef maður lögfestir haga sinn, þá skal sá maður er land á þar næst láta reka bú sitt allt í það horn lands síns sem first er lögfestu hins. En ef fleiri menn hafa lögfest, þá skal hann láta reka í miðjan haga sinn fé sitt um aftna. Hann skal hafa rekið það úr haga hins þá er sól er í austri miðju, það sem hann mátti finna, það heita hirðisrismál. Hann skal fá mann til að sitja að um daga. Og ef svo er gjört þá er hann sýkn saka þó að hagi hins beitist. Hvergi á maður að bæta fyrir hagabeit nema lögfest sé, utan hann láti reka að landi eða í land hins svo að hann vildi að hagi hins beittist, þá bæti fyrir skaða og landnám með þeim er gras á. Svo og ef hann varðar minnur við þar sem lögfest er en fyrr var skilt, og svo ef hann fær eigi þann mann til hirðiss er skynsömum mönnum virðist að vel megi gæta ef hann vill.

17. Hér segir hversu maður skal lögfesta jörð sína

Ef maður lögfestir holt eður haga eða veiðistaðir, þá skal lögfesta að kirkju eður á þingi þar sem jörð liggur. Hann skal svo mæla: Eg lögfesti hér í dag eign mína er N. heitir, akra og töður, engjar og skóga, holt og haga, vötn og veiðistaðir, og allar landsnytjar þær er því landi eigu að fylgja til ummerkja þeirra er aðrir menn eiga í móti mér, bæði að orðfullu og lögmáli réttu. Fyrirbýð eg héðan af hverjum manni í að vinna eða sér að nýta nema mitt sé lof eða leyfi til, að vitni þínu N. og þínu N. og allra þeirra er orð mín heyra. En sá maður sem lögfestir skal tala svo hátt að allir heyri þeir sem hjá eru ef þeir vilja. En sú lögfesta skal standa tólf mánaði hina næstu eftir ef eigandi lögfestir eður hans lögligur umboðsmaður.

18. Hér segir hvert landnám hver maður skal taka

Ef í er ort konungs jörðu þá skal hann taka áverkabót svo mikla sem áverki er verður eftir skynsamra manna virðingu og landnám jafnmikið áverkabót þar til er áverki er verður þriggja marka. En landnám er hálfu meira áverka ef lögfest er. En þó að áverki sé meira verður, þá skal þó landnám aldri lengra fram ganga. Ef í er ort jörð erkibyskups eða hertoga, þá skulu þeir taka áverkabót eftir virðingu, hvort sem áverki er verður meiri eður minni, og svo skulu allir menn áverkabót eftir virðingu taka. En landnám jafnmikið áverkabót þar til sem áverki er verður tuttugu aura, en hálfu meira ef lögfest er. Ef í er ort jörð byskups eður jarls, þá skulu þeir taka landnám eftir áverkabót þar til sem áverki er verður tveggja marka, hálfu meira ef lögfest er. Ef í er ort jörð ábóta eður abbadísar eða umboðsmanns heilagrar kirkju, þá skulu þau taka landnám eftir áverkabót þar til sem áverki er verður tólf aura, hálfu meira ef lögfest er. Ef í er ort jörð baróns, stallara eður merkismanns, þá skal hver þeirra taka landnám eftir áverkabót þar til er áverki er verður níu aura, hálfu meira ef lögfest er. Ef í er ort jörðu riddara, þá skal hann taka landnám eftir áverkabót þar til er áverki er verður sex aura, hálfu meira ef lögfest er. Ef í er ort jörð bónda eður hölds eða þeirra manna úr Noregs konungs ríki eru og staðfestast hér á landi, þá skulu þeir taka landnám eftir áverkabót þar til sem áverki er verður hálfrar merkur, hálfu meira ef lögfest er, nema þeir sé hæri menn að nafnbótum. En enskis manns landnám skal lengra fram ganga en hér er ákveðið. En allan áverka jarðar skulu meta sex skynsamir menn.

19. Hér greinir um landnám og áverkabót að óskiptri jörðu

Ef fleiri menn eigu jörð saman, þá skulu allir eftir hinum besta manni landnám taka þeim er í jörðu á með þeim að óskiptri jörðu, og skipti áverka og landnámi eftir jarðarmegni, slíkt hverjum sem í jörðu á. En mær taki landnám eftir feður sínum. En ekkja eftir þeim er næst átti hana. Nú ef sumir leyfa íneyslu í jörðu en sumir eigi, þá taki sá hver landnám sitt fullt er eigi leyfði slíkt sem hann er maður til. En svo mikið af áverka sem hann á í jörðu til. En ef fleiri hafa óleyft, þá taki allir eitt landnám. En áverkabót eftir jafnaði þeir sem óleyft hafa, og svo þótt þeir allir hafi óleyft ef jörðu er óskipt. En ef jörðu er eignarskipti skipt, þá tekur hver þeirra fullt landnám af sínum hlut eftir því sem hann er maður til. Nú fer maður í skóg annars manns utan leyfi þess er á og vinnur sér þar í, þá skal sá er skóg á leiða til sex skynsama menn að sjá stofna og meta markarspell, og svo þó að maður rífi hrís á annars manns jörðu, þá skal sá er sér vann í landnámi fyrir svara og bæta þó skógarspell sem virt er, ef eigandi hefir vitni til á hendur honum. En ella syni hann fyrir með lýritareiði. Nú höggur maður svo tré í annars manns skógi að hann hylur stofna og hefir sjálfur eður fær öðrum, þá verður hann þjófur af sem hann hefði stolið öðru jafnmiklu ef tré eru svo mikils verð að þjófssök nemur. Ef maður höggur skýlihögg á viði manns, birkir eður skefur svo að spell er í, bæti skógarspell sem metið er og landnám með. Ef maður höggur upp merkibjörk og veit hann það, bæti skaða og fulla öfundarbót með eftir dómi hverjum er mark átti í þá björk. Hvervetna er maður hittir áverka í skógi sínum, þá skal hann að ósekju í brott taka.

20. Hér segir af skógarskipti

Ef tveir menn eða fleiri eigu skóg saman, eng eður úthaga, þá skal engi meira í vinna að óskiptri jörðu en í eign á eður tala rennur til, nema eldivið. En þar sem menn eigu skóg saman, eng eður úthaga, þá skal sá er skipta vill sækja þá til skiptiss er í móti honum eigu eftir því sem lögbók vottar í eignarskiptum, því að sá skal skiptum ráða er skipta vill, en engi skal svo ráða að gjöra öðrum spellvirki né fjárskaða í skiptum. En hver sem meira yrkir í óskiptri jörðu en til kemur eftir réttri tiltölu, þá svari slíku fyrir við þann er í móti á sem sá ætti er í vann í óleyfi og ekki átti áður í jörðinni, bæði áverka og landnám með. Svo skal skógi skipta að þeim skal rjóður ætla er meir hefir skóg höggvið en lög votta. En ef eigi er skógur rjóðurhögginn og er meir valdur, þá skal sá hafa því víðara skóg er minnur hefir neytt svo að jafngóður þikki vera hvors þeirra hlutur þeim er skipta. En ef hinn hefir svo mjög höggvið að eigi má með skógi jafna, bæti þá með öðru fé svo að fullt sé og þó landnám með. Ekki skal maður höggva í annars manns skógi, nema umferðarmenn farargreiðabót, og bæta hvað sem bilar að vögnum eður sleða, klyfbera eður öðrum tréreiða og keyrisvönd, og til eldsneytis, ef úti býr um nætursakir í sama stað, utan hann nái hvorki að gjöf né að kaupi og gengur nauðsyn til, þá höggvi meðan þarf og bæti skógarspell landnámslaust ef sá ámálgar er skóg á eður hans lögligur umboðsmaður. Svo skal og fara um rekavið ef menn fara á skipi og um næturvistir hið sama til eldinga. En ef meira höggur eða hefir en fyrr segir, bæti fyrir spell og skaða landsdrottni á skógi eður viði og landnám með nema hann lofi.

21. Hér segir um skógarneyslu

Ef maður á skóg á annars manns jörðu, þá á hann að njóta skógar þess svo sem í hans jörðu sé sjálfs að höggva. Eigi skal hann þar eyki hafa um nætur, hann skal gjöra þar kol og hafa brott flutt fyrir veturnætur hinar næstu og hylja grafir allar svo að eigi liggi búfé í. En ef hann gjörir eigi svo, bæti landsdrottni skaða þann allan sem af gjörist gröfum þeim er eigi voru huldar og landnám með, og svo skal hvervetna þar er maður gjörir kol á annars manns jörðu. Ef maður færir eigi kol af annars manns jörðu innan næstu tólf mánaða síðan þau voru brennd forfallalaust, þá eignast sá kol er jörð á og er þá lokið landnám og öslagjöld. Nú vill sá nýta lim er skóg á á annars manns jörðu þá skal hann láta bera saman lim og fauska og stofna í köstu fyrir veturnætur hinar næstu, ella á sá er jörð á undir, og svo ef eigi er brott flutt innan næstu tólf mánaða þó að saman sé borið. Ef maður höggur skóg annars manns til hlutar þá skal það haldast sem í kaup þeirra kom. Hann skal hafa grafagjörð að frjálsu svo sem þá er maður á skóg á annars manns jörðu. Nú vill annar eigi skipta kolum eður kolviði, þá skal þó skipta sem fyrr segir. Ef viður vex um þjóðbraut þvera svo að þar má eigi aka eður klyfjar bera, þá höggvi sá er vill að ósekju þann við og kasti í skóg brott frá götu. Sá maður má beita fé sínu í skógi annars manns er jörð á undir meðan meir bítur gras en skóg. En sá maður er skóg á má beita búi sínu meðan meir bítur skóg en sinu. En hver sem öðruvíss beitir bæti skaða sem menn meta og landnám með. Ef sá rekur eður reka lætur bú sitt í skóg manns er hvorki á skóg né jörð undir, bæti hvorum tveggja skaða sem menn meta og landnám með. Hver maður á viðarvöxt í sínu skógarmarki meðan hann á þar nökkurn fornan við. Ef menn höggva skóg þann allan upp er tveir menn eður fleiri eigu saman þá skulu þeir skipta með sér merkibjörkum og höggva þær síðast. Og þá er skógur sá er svo höggvinn að engi viður finnst eftir þá eignist sá skógarstöðu er jörð á undir.

22. Hér segir um varðhald á engi

Ef maður á eng á annars manns jörðu þá skal hinn eigi beita það engi þaðan frá er sex vikur eru af sumri. En sá er engið á skal það fyrst láta vinna, nema hann vili töðu sína fyrri vinna. En ef hann vinnur eigi svo og vill þó unnið hafa, þá bæti hálfri mörk þeim er jörð á og er þó óheilagt heyið og engið. Nú á maður engi á fleiri manna löndum þá skal hann sitt sumar hvert fyrst slá og eigi fyrri heima en þau eru öll slegin. Maður má gjöra stíflur á engi því sem hann á á annars manns jörðu og grafa í sínu landi torf til, og veita svo vötn á engið. Hann skal á sínu engi upphefja veituna og skal þaðan falla vatn í hinn forna farveg. En ef annars manns land spillist af vötnum þeim, bæti skaða sem metinn verður og landnám með, og svo ef búfé fær þar skaða af. Kost á maður að gera löggarð um þetta engi ef eigi liggja þar í beituteigar annarra manna fimm aura verðir eður meira, og skal hann grafa í sínu engimarki torf til og láta hlið á garði. En ef hann vill grjótgarð hafa þá brjóti grjót á annars manns jörð ef hann vill og bæti landnámslaust skaða þann sem af verður. Rétt er honum að setja garð þann á jörð hins þar sem er hrjóstur eða hölkn ef eigi verða innan garðs beituteigar hins fimm aura verðir. En ef hann gjörir annan veg, bæti skaða sem menn meta og landnám með landsdrottni. Honum er rétt að byrgja aftur hliðið á garðinum fimmta dag viku er sex vikur eru af sumri. Hann skal hirt hafa hey sitt úr garðinum og upplokið hlið er fjórar vikur eru til vetrar, nema nauðsyn banni. Síðan er óheilagt heyið og svo engið fyrir þeim er jörð á undir og svo garðurinn ef eigi er hlið á.

23. Hér segir hversu lofað er löggarð að gera á annars jörðu

Maður skal gjöra löggarð um hey sitt á annars manns jörðu og grafa í sínu engimarki torf til. Og svo skal gera löggarð í fjárhögum þó að hann eigi sjálfur jörð undir og í engimarki sjálfs síns ef eigi er lengra frá annars manns landamerki en tvau hundruð faðma tólfræð. Og ef garður sá fellur eða þrútnar svell upp hjá eður vötn, þá skal sá er beit á um garðinn, eður svo nær sem fyrr segir, gera orð þeim er hey á í garðinum og varða búfé sínu við heyi hins meðan. Hinn skal þegar til fara um að búa eður brott færa heyið er honum er sagt, forfallalaust, ellar er heyið óheilagt við búfé þess er þar á beit svo nær. Sömu leið skal fara þó að snjó leggi undir garðinn, nema sjálfur hann vili frá láta moka. En ef hann varðar eigi við eða gerir eigi svo orð eiganda sem nú er mælt, bæti skaða þann allan er fé hans gerir, þeim er hey á, og landnám með. Ef maður lætur engi sitt uppi liggja óslegið þrjú sumur í samt, þá er sá eigi skyldur við að verða er jörð á undir, nema hinn segi honum fyrir fardaga að hann vill þá slá engið. Nú ef maður býr svo nær engi sínu því er hann á á annars manns jörðu að hann vill heiman beita engið og slá eigi, þá á hann það frjálst meður því að hann skal hafa mann að fé sínu þann er svo gæti að eigi gangi í eng eður haga þeirra sem næstir eru. Ef fé manns þess er beit á svo nær sem fyrr segir treðst undir í garði þess manns er engi á, af því að eigi var löggarður þar sem hann átti að vera, þá skal það allt bæta fullum skaðabótum eiganda sá er þeim garði átti upp að halda. En ef hey er fært í hlöður eða hús svo nær beit hins sem fyrr segir, þá á svo um að búa að fé komist eigi að heyinu. En ef hús fellur ofan þá skal beitarmaður láta segja það eiganda og varða við fé sínu þar til er hinn kemur til að gera upp húsið er hey á. Nú vill hann eigi til fara að gjöra upp húsið eða hefir eigi byrgt vindaugu, og kemst þar fé hins inn og treðst þar undir eða fellur hús á, þá ábyrgist sá það fé og skaða þann sem þar verður af er hús á, og sæki sem vitafé. Ef fen, vötn eður foruð eða díki gerða um hey manns, þá er hey það óheilagt þegar fé kemst yfir.

24. Hér segir hversu fara skal um eigu eður sölu ef á annars manns jörðu vex skógur eða eggver

Hver maður á engivöxt í sínu engimarki. En ef víðara vex, þá á sá er jörð á undir. Nú vex viður í engi manns þar sem annar á jörð undir, þá er rétt að sá maður rífi upp við þann allan er engið á, ef það er rifhrís, ella á sá við þann er jörð á undir. En það er rifhrís er skjótara er að rífa en að höggva. En það er höggskógur er skjótara er að höggva en að rífa. Nú á maður engi á jörð manns og vex þar höggskógur, þá skal sá kaupa er jörð á undir ef hann vill eftir því sem sex skynsamir menn meta að engið var vert, og skal sá kjósa er engið átti hvort hann vill heldur hafa engi jafngott eður aðra aura. Sá er jörð á undir eignast bæði engið og skóginn, ef hinn vill eigi selja. En ef landeigandi vill eigi kaupa, þá eignast hinn bæði engi sitt og skóginn. En ef engi það spillist af eggveri er maður á á annars manns jörðu, þá skal á sömu leið fara sem um það engi er skógur vex á, og svo þó að þar komi fiskivötn upp. Svo skal engi virða sem þá var vert áður en það spilltist af skógi eður eggveri eður vatni. Menn megu veita vötnum þeim er upp spretta í sjálfs hans jörðu og í sínu landi hver. En ef það eru brunnar manna, þá skal hver fella í hinn forna farveg af sinni jörðu. En engi maður skal veita svo að þeim verði mein að er þann brunnlæk hafa haft. En ef hann gjörir öðruvíss, bæti skaða allan þann sem af gerist og landnám með þeim er brunn átti og óheilagar stíflur hans allar við broti, þó að á sjálfs hans landi sé. Nú eiga menn merkivatn saman og vill annar veita því á engi sitt eður akur. En ef hinum þikkir mein að, þá skal skipta sem fyrr segir, utan vatn sé svo lítið að þeim vinnst eigi báðum, þá skal sína viku hafa hvor. Mönnum er rétt að æja eykjum sínum á sumar í annars manns landi þar sem eigi hefir áður slegið verið. Hver maður á ávöxt á sinni jörðu. Ef þar brjóta merkivötn svarðfast land af jörðu manns, þá á sá hólm sinn er áður átti og nýti sér og lögfesti eigi fyrir búfé hins. Rétt er honum að fella vatn í hinn forna farveg. Eigi skal hinn reka þangað fé sitt. En ef það er engi, þá skal hann þar svo við varða sem engi annars manns sé á hans jörðu. Eigandi skal og svo vinna láta. Ef engi vex í hinum forna farveg, þá á það hver sem land á að.

25. Hér segir hversu heyi skal skipta og þurrka

Ef sjór eður vötn eða veður rekur hey manna saman, þá skal sá er hey á á annars manns jörðu kveðja þann mann til skiptiss er hey á með honum. Vill hann eigi skipta, lögfesti heyið og leggi á fimmtarstefnu. Hafi það hvor sem dómur dæmir. Þeir menn er það hey eigu saman sem á annars jörð rekur skulu að frjálsu þurrka þar heyið, en eigi í brott færa áður skipt sé. Hann má það og vinna á jörðu hins, þar er hvorki spilli akri né eng, að gjöra löggarð um heyið. En ef hey rekur á engi manns, þá bæti sá þann skaða allan sem metinn verður er heyið átti. Ef hey rekur í haga manns, þá á sá að gera löggarð um heyið er það á og þurrka þar ef hann vill.

26. Hér segir um lögfestu og fimmtarstefnu

Allt það er menn skilur á um áverka á akri eður eng, holti eður haga, skógi eður reka, eður svo um landamerki, þá skal lögfesta fyrir og leggi sá fimmtarstefnu er heldur þikkist þurfa. Hann skal svo mæla: Eg lögfesti hér í dag eign mína þessa er N. heitir, eður þar liggur bú og lóð, og allt það er þar má til gagns af hafa, þar til er dómur fellur á millum okkar að lögmáli réttu. Gef eg þér það að sök N. að þú situr á ótekinni jörðu, eigi eftir eign eður umboði, og eignar þér það er eg þikkjumst eiga. Fyrirbýð eg þér héðan af á að yrkja eða gagn af að hafa nema mitt sé lof eða leyfi til, að vitni þínu N. og þínu N. og allra þeirra er orð mín heyra. En eftir lögfestu mína legg eg fimmtarstefnu við þig á fimm nátta fresti á þessi jörðu sem nú hefir eg lögfest. Eiga hvort er eg vil úti eður inni, og skal allur dagur til stefnu þar til er eg hefir málum mínum lokið. Beiði eg þig lagabeiðslu og lýritar, að þú leggir fimmtarstefnu í móti lögfestu minni. Býður eg þér N. að gera heimildarmanni þínum stefnu til varnar í móti sakargift minni eftir lögum og nefni vitni við. Sex skynsama menn skal hvor þeirra í dóm nefna á stefnu að virða vitni þeirra og málaefni. En allt það er maður vinnur á akri eður eng til fimmtarstefnu og færir eigi undan lagadómi, þá sekist hann eigi. Sá skal fyrri tjá sína votta fyrir dómsmönnum er fyrri lagði lög og dóm fyrir, en verjandi síðar. Og skal sá sverja láta sína votta er dómsmönnum þikkir líkara að sannara segi og þeir vilja svara fyrir guði eftir sinni samvisku að réttara hafi. En eigi skulu þeir báða sverja láta. En ef þeim semur eigi er í dómi sitja, leggi til lögmanns. Nú hefir maður skóg, eng eður haga, reka eður aðrar landsnytjar tuttugu vetur eða lengur átölulaust, þá á sá það er haft hefir nema hinn hafi löglig vitni til þess að hann á ef hann skal óræntur vera.

27. Hér segir hverra vottar ganga skulu á fimmtarstefnu

Allar þær eignir er menn skulu fimmtarstefnu til leggja, þá skal sakaráberi lögfesta fyrir og nefna votta tvo og leggja fimmtarstefnu eftir, og skal þeirri stefnu eigi spilla mega. En ef nökkur spillir, gjaldi sá sex aura, hálft konungi en hálft sakarábera. Vottar hans skulu svo bera og halda á einni bók. Þeir skulu svo mæla að þeir skjóta því til guðs að þeir voru því nær er fimmtarstefna var lögð og sveri eigi framar. En ef þá skilur á er í dómi sitja og verða eigi samdóma, þá gjaldi sá sex aura er rangara hefir að mæla, hálft konungi en hálft sakarábera, nema hann sveri þess eineið að hann vissi eigi annað sannara fyrir guði.

28. Hér segir hversu lagaumboð skulu haldast

Hver maður skal hafa sér umboðsmann innan fjórðungs þess er jörð hans liggur eður reki, nema hann sé sjálfur innan þess fjórðungs, og þó má hann hafa umboðsmann ef hann vill. Sá maður sem umboð hefir sæki landnám og allan jarðaráverka sem hann eigi sjálfur, hálft landsdrottni til handa en hálft sjálfum sér. En ef hann sækir eigi, hafi af alls ekki. Umboðsmaður má jarðir byggja öðrum en eigi sjálfum sér og leigu af taka ef landsdrottinn vill. Hann er og skyldur að svara fyrir að lögum af landsdrottins hendi ef nökkur kærir á þá jörð eður gera orð landsdrottni. Nú dylur umboðsmaður að hann hafi umboð tekið, þá hafi landsdrottinn til tveggja manna vitni að hann hafi honum umboð fengið. En ef landsdrottinn dylur að hann hafi honum umboð sitt fengið, þá hafi sá er umboð tók tveggja manna vitni til að landsdrottinn eður hans umboðsmaður fékk honum það umboð, og hafi svo lengi sem vitni bera ef landsdrottinn er innan lands. En þá er landsdrottinn vill umboð af honum taka, bjóði um þeim er hann vill að af honum taki það umboð ef hann hefir eigi með ákveðnum tíma áður. Svo má og skyti gera um sínar heimtur. En sá hafi vitni til að eigandi bauð honum um að taka af þeim umboð er áður hafði og fá þeim er hann vill það umboð að jafnfullu sem eigandi sjálfur. Ef landsdrottinn er utan lands eður andaður, eður andast umboðsmaður hans hér, þá haldist ábúð jarðar til næstu fardaga en eigi lengur, þó að lengur hafi byggt verið, nema þeim semi annað er byggir og hinum er á jörðu býr, og svo skal vera ef maður andast utan lands þó að umboðsmaður lifi, síðan erfingi hefir sannspurt andlát hans. Ef maður er utan lands, hvort sem hann fer konungs örinda eður sinna, þá skal umboðsmaður hans eður lögarfi svara réttindum af hans góssi um þau mál sem hann hefir aflaga gert áður hann fór í brott.

29. Hér segir um ábyrgð á voðaeldi

Sinn eld skal hver ábyrgjast frjáls maður og fulltíða. Þann eld á hver maður er á heldur og kveykir síðan. Nú brennir maður og eigi með heiftugri hendi, þá skal sá ábyrgjast er með eld fer og bæti skaða allan er þar verður af sem sex skynsamir menn meta, nema mein verði af þeim eldi er menn hafa til þarfinda sér, þá ábyrgist landsdrottinn þriðjung húsa en leiguliði tvo hluti. Engar liggja þar sektir við. Það heitir voðaeldur. Ef maður vísar ómaga sínum eftir eldi, þá skal sá ábyrgja öll ómagaverk er ómagann á. En ef fulltíða maður vísar ómaga annars að gjöra það sem öðrum er mein að, þá skal sá bæta skaða þann er ómaganum vísaði. En sá sé liðugur er ómagann átti og svo ómaginn. Brenna má maður sinu af jörðu sinni þar sem hann vill og bæti skaða þann allan er aðrir menn fá þar af, og landnám með, ef hann hefir eigi orlofs að beðið þá er næstir búa.

30. Hér segir um brennuvarga

Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri, en tvígildi þeim aftur er hann brenndi fyrir slíkt sem sex skynsamir menn meta og rétt sinn á ofan eftir lagadómi áður en undir konung falli eður frændur, meður því skipti sem segir í óbótamálum í mannhelgi. En ef með öðrum hætti verður, fari eftir skynsamra manna virðingu eður dóm eftir atvikum. Nú kveður sá maður nei við er brenna var kennd, þá skal sakaráberi fara til heimilis hans og stefna honum þing fyrir brennu og útlegð, þá skal sá er synja vill festa tylftareið þar á þinginu og hafa þann unnið innan tíu vikna særra daga, fellur til útlegðar ef fellur. Ef maður ræður brennu og verður að því sannur, þá skal hann það allt tvígilda aftur er brennt var af hans ráðum. En ef hann segir nei fyrir, syni með séttareiði, og skal sá eiður fram koma innan tíu vikna særra daga, fellur til hálfra gjalda ef fellur. Ef maður brennir fyrir manni viðarköst, timbur eða grindur eður sleða, eður önnur andboð þau er mönnum þikkir betra að hafa en missa. Nú hver er það gerir, sekur mörk við konung en tvígildi þeim er hann brenndi fyrir og öfundarbót eftir dómi. Landsdrottinn á jafnan landnám ef það er brennt er hann skaðar.

31. Hér segir um garðaskipti og skaðabót

Nú skal görðum skipta og öllum áverka eftir jarðarhöfn. Garður skal granna sættir. Hver maður skal löggarð hafa um töðu sína og völl sinn þó að eigi hafi fyrr verið, ef svo nær er annars landi að minnur sé frá en tvau hundruð faðma tólfræð, og svo fyrir þá völlu alla sem áður hafa löggarðar um verið. Fulla skaðabót skal greiða fyrir beit töðu, akra og engja, landnámslaust fyrir þeirra manna fé er beit eigu í örskotshelgi, þó að eigi sé löggarður um, en ella fullt landnám með. Skylt er að hafa löggarð hvar sem hlaðið er korni eða töðu. Það er löggarður er fimm fóta er þykkur við jörð en þriggja ofan, hann skal taka í öxl meðalmanni af þrepi þeim er hann er hálfrar fjórðu álnar hár. Og þó að þá hlaupi fé þann garð, þá bæti sá skaða landnámslaust er það fé á. Menn skulu gjörvan hafa garð að Bótólfsvöku og ábyrgist síðan hver sinn garð. En ef kýr er garðbrjótur eður annað búfé, þá skulu fara til grannar þeirra og sjá garð. Og ef þeim líst sá garður gildur, þá skal sá gjalda fyrir garðbrot er garðbrjót á og skaða þann allan sem af verður. Ef búfé gengur úr kvíum eður geldfé úr afréttum og gerir mönnum skaða, gjaldi sá er það fé á skaða þann sem metinn verður landnámslaust, utan hinn hafi eigi löggarð þar sem hann skyldi hafa, þá missir hann skaðabóta. Bótólfsvökudag skal vera grannastefna. Þeir garðar skulu gildir vera sem þeir taka þá fyrir gilda á þeirri stefnu. Og ef sá garður verður brotinn, þá skal sá er þann garð á leiða menn til að sjá garðinn, og ef þeim sýnist garður gildur verið hafa, þá skal sá gjalda öslann er þann fénað átti er gildan garð braut. En ef þeim sýnist garður eigi gildur verið hafa, þá skal sá gjalda ösla allan er þann garð átti. Ef merkigarður hefir verið bólstaða í millum og er sá niður fallinn, þá skulu þeir er garð vilja hafa gerða sinn hlut og bjóða hinum til er í móti eigu að gerða að sínum hlut. En sá er eigi vill gerða ábyrgist skaða þann allan sem af verður, hvers fé sem gerir, og tvo aura meður í þokkabót þeim er fyrir skaða verður.

32. Hér segir um löghlið á löggarði

Ef menn vilja löggarð hafa bóla í milli þar sem eigi hefir fyrr verið, þá gerði hver að jarðarmagni sá sem hafa vill og svo skal hver er til móts á að jarðarhefð halda síðan. En sá er eigi vill garð gera eður halda honum síðan, gjaldi að öllu skaða þann allan sem þar gerist af. Eigi er maður skyldur að gjöra þenna garð þó að hann verði beiddur ef torf þarf á eykjum til að bera. Ef þar verður höggskógur eður eggver eður töðuvöllur fyrir, þá skal fyrir nes gerða en eigi í gegnum. En ef rifhrís eru fyrir eður engjar, þá skal þar eigi fyrir nes gerða, nema vili, en bæta skal þá þeim er átti öðru engi jafngóðu og jafnmiklu. Fimmt skal gera til görðum að skipta og hluta, og hafa votta við, hvort sem hinn vill eður eigi, og ábyrgja honum síðan garðinn og allan ösla þann sem fénaður gerir þar, hverir sem þann fénað eiga. Ef þjóðvegur liggur að garði manns, þá skal hlið á vera hálfrar fimmtu álnar breitt og hjarragrind fyrir, og rimar í svo að fénaður megi eigi smjúga. Okar tveir á endum en krossband í miðju, þá er grind gild. Svo skal grind setja að hon renni sjálf aftur ef maður tekur af hrossi til. Ef maður skýtur upp grind og gengur fénaður í akur eða eng, bæti skaða þann er gjör var þeim er korn eður gras á, sá er það gjörði, og landnám með. Svo og ef maður höggur grindarhæla eður veltir steini fyrir eður frá og stendur fyrir það hlið opið. Nú liggur þjóðvegur um bæ manns eða að garði, þá má hann færa götu af bæ sínum og svo frá garði ef hann gjörir aðra jafngóða utan garðs að fara í þurru og votu, eigi lengra frá þjóðleið en tvau hundruð faðma tólfræð, og skal þá þann veg fara þó að sá sé lengri. Ef maður ríður eður gengur yfir töðuvöll, akur eður eng, og vill eigi fara vegu rétta, hann er sekur mörk við þann er lóð á og bæti skaða þann allan sem af verður. Ef maður brýtur garðinn, þá liggja tveir aurar við hliðbrot. Hlið er þar til er hálfrar fimmtu álnar er breitt. En ef lengra brýtur, þá sekist sá mörk við þann er garð á og bæti skaða þann allan sem af gerist, nema girt sé um þjóðbraut þvera eða gata sé lengra af þjóðveg færð en fyrr segir, þá er sá garður óheilagur við broti fyrir þeim er þar þurfu að fara, hvort sem þeir fara virkan dag eður helgan, og svo lóð sú er af því spillist.

33. Hér segir hversu réttliga skal innsetja fénað til öslagjalda

Ef einn maður á akur, töðu eður eng, annar fénað, þriði garð ógildan. Sá er lóð á skal eftir mönnum ganga og láta sjá að fénaður er kominn í akur, töðu eður eng, þá skal hann með vottum úr taka og láta þá sex menn meta skaða þann er ger var, og seti síðan inn fénað þann allan og reki lausan í hús inn eður tröð og leggi hvorki á bast né band, en þó að hvert stangi annað til bana þá er það í ábyrgð eiganda en eigi þess er inn setti. Það skal hann ábyrgjast ef treðst undir af húsþröng eður fellur hús á eða garður, nema fénaður felli sjálfur ofan. Nú allt sem sá missir er búið á fyrir þeim er lóð á, þá bæti sá honum það er garð átti ógildan þar sem gildur skyldi vera. Sá skal boð gera eiganda samdægris er bú er inn sett er bú setti inn. Nú vill hann eigi út leysa, þá skal bú inni standa til fimmtar. En ef þá er eigi út leyst, þá á sá fé er inn setti og heita þá lokin öslagjöld. Ef maður tekur út fénað þann er inn var settur og vill eigi út leysa að lögum, það heitir lokurán. Sekur höfðingi mörk við þann er inn setti. En hver annar er að er með honum, sekur tveimur aurum. Ef svín kemst í akur eður eng eður annað búfé að görðum gildum, þá skal inn setja til öslagjalda og leysi eigandi út að lögum. Sama mál er um annan fénað ef mein gerir að görðum gildum, þá skal inn setja og út leysa að lögum. En tjóðurhestar og tjóðurkýr og allur sá fénaður er bændur setja sjálfir innan garða, og verður það laust og gerir mönnum skaða, seti inn til öslagjalda og leysi eigandi út að lögum.

34. Hér segir um útleysing á fénaði manna

Ef maður vill bú sitt út leysa ef inn er sett og hefir eigi vaðmál til, þá skal hann veð leggja eður fá vörslumann jafngóðan veði. En ef hinn vill eigi láta fé út fyrr en hann hefir sektarfé í hendi, þá sveltir hann aflaga hjörð hins og hjú og sé sekur mörk við þann er bú á, og bæti búmissu sem sex skynsamir menn meta og fjárskaða með. Nú vill hann eigi bú hins út láta eður sekt gjalda, þá beiði hann út bús síns við votta og lýsi á ráni, og stefni sá er bú á kirkjusóknarþing og beiði bændur atfarar að taka út bú hans og sektina með. Hver maður er sekur eyri við konung sá er eigi fer. Umboðsmaður konungs er skyldur til að fara ef hann er nær og öðlast með því hálfa mörk konungi til handa fyrir búrán. Þeir eru allir friðhelgir er til sækja en hinir allir ógildir er fyrir standa, hvort sem þeir fá ben eður bana. Ef sá maður er fyrir beit verður rekur eður reka lætur bú hins aftur í akur eða töðu, eng eða andvirki þess er fé á, bæti skaða þann allan sem af verður og landnám með, og hafi ekki fyrir þann skaða er hann fékk. Nú rekur maður eður reka lætur bú annars manns svo að máls missir, bæti búmissu sem sex skynsamir menn meta og mörk með þeim er bú á. Þá missir búfé máls er það kemur heim um aftan er um morgin skyldi, en það um morgin er um aftan skyldi, nema sá er á vanræki og vili eigi leita láta.

35. Hér segir hversu geyma skal graðan hest

Ef maður á graðan hest að varðveita, þá skal hann kaupa hross til hans eður fá að láni. Og ef honum er léð, þá skulu það vottar vita. Ef þeir hestar bítast er svo eru varðveittir og fær annar hvor bana af, þá skal þann meta sem dauður er og gjalda þann hálfum verðaurum, nema sá sé verri allur er lifir en hinn hálfur er dauður er, þá skal eigi meira bæta en sá er verður er lifir, því að eigi mátti hann meira fyrirgera en sjálfum sér. Ef maður á þann hest er ekki fylgir hross og bíst hann til stallstæðu annars hests, á þeim hesti er algildi. En ef sá fær bana er til hleypur, þá liggur hann dauður á verkum sínum sjálfs, ógildur eiganda. Ef hestur bítur hross til dauðs, það er algildi. Ef hross bítur hest til dauðs, það er hálfgildi. Ef graður hestur bítur eður lýstur jálk til bana, það er algildi. Ef jálkur bítur hross til bana, það er hálfgildi. Ef hross liggur úti dautt, þá skal sá er það hross á leiða menn til að sjá, og ef þeim sýnist hestsverk á vera þá má eigandi gefa þrimur mönnum sök til jafns réttar, þeim er hesta eiga í grennd, því aðeins hinum fjórða að hann gjöri þess hest vitnissannan að. Syni hver eineiði fyrir sinn hest eftir sinni samvisku. En ef einnhver vill eigi synja fyrir sinn hest, gjaldi sá hest verðaurum. Ef hross er rekið í bekk eður dý, fyrir fjall eða í forað, og má sjá tveggja hrossa far til en eins frá, þá skulu þeir menn sem hesta eiga í grennd svara hinum sama rétti sem fyrr vottar. Ef hross eður naut drepa smáfénað, það er algildi, og á öllu því fé sem ofríki gengur að.

36. Hér segir hver sekt á er óleyfðu hestaati

Hvervetna þar sem menn etja hesti manns að óleyfi þess er á, bæti skaða þann allan sem af verður og öfundarbót með eftir dómi þeim er hest á. En ef hálfrar merkur skaði verður eður meiri, bæti fullrétti eftir dómi eiganda eftir því sem með heift eða öfund væri gert. Hver maður skal ábyrgjast sig sjálfur á hestavígum hverir sem etja. Ef maður lýstur hest manns á hestavígi nauðsynjalaust, gjaldi eiganda öfundarbót eftir dómi. En ef hestur spillist af, bæti fyrir spell og fullrétti þeim er hest á eftir lagadómi. Ef maður sker tagl úr stóðhesti manns eður þinghesti, eður þeim hesti er maður hefir í brúðferð, bæti fullrétti þeim er með hest fer, nema hann hyggi annað, þá bæti sem síðar segir. Ef maður tekur hefting af hrossi manns ólofað, gjaldi eiganda fyrir eftir dómi og ábyrgist hross að öllu og svo verk þess, þar til er eigandi kemur höndum á, ella syni einseiði fyrir, utan maður seti inn til öslagjalda. En ef hross eður annar fénaður rennur eftir manni, þá seti hann inn á fyrsta bæ er fyrir honum verður á leið, ella ábyrgist hann að öllu þann fénað eður hross og bæti skaða þann sem eigandi fær af. Nú vill sá eigi taka með honum er fyrir situr eður inn láta, þá ábyrgist hann að öllu þann fénað.

37. Hér segir um ábyrgð á leiguhrossi

Ef maður leigir hross að manni eða er honum léð til þings, ábyrgist sá er með fer, utan það ef halt verður eður sárt og verði heilt innan næstu fjórtán nátta er heim kemur. Nú deyr hross fyrir manni, bæti sem þá er vert er hann tók og þá önga leigu með. Nú verður riðið hrossi því er maður fer með að leigu eður láni, þá á hann sókn á því. Alin skal kaupa gæslu á hross hvert á alþingi. En gæslumaður skal svo með fara og varðveita hross sem hann eigi sjálfur og vili þó vel með fara og geyma, og ábyrgist hann þá eigi. Ríða má gæslumaður ef hann vill og reka hross til þings og frá þingi, og skal hann skipta því að jafnaði og ábyrgist hann hross það í þessa sína nauðsyn. Gæslumaður skal sýna hross hvert að þinglausnum hverjum, annaðhvort lífs eður dautt, ella ábyrgist hann við eiganda. Ef gæslumaður geldur eiganda verð fyrir hross það er hverfur frá honum á þingi, þá á hann sök á því og heimtu á þeim er í brott tók. Eigi skulu þingmenn heldur en aðrir menn æja í engjum bónda. En ef þeir vita eigi engjamörk manna, þá skulu þeir eigi æja þar sem stakkgarðar eru nær. Ef menn reka frá mönnum hross á áiföngum, bæti öfundarbót eftir lagadómi.

38. Hér segir um ábyrgð sendimanna á hrossi

Ef eigandi sendir mann með hross sitt, eyk eður annan grip síns eyrindis, þá ábyrgist sá það eigi er með fer, utan hann fari aðra leið eður lengra, eður fari eigi svo með sem eigandi kveður á, þá ábyrgist sá er með fer. Nú kemur hross það í land manns er maður veit eigi hver á, þá skal hann lýsa að kirkju eður á þingi, og ef engi kemur eigandi eftir innan hálfs mánaðar frá því er lýst var, þá er honum rétt að láta virða hrossið. Síðan má hann með fara sem hann eigi og ábyrgist að öllu. Svo skal virða sem þá var vert er lýst var. Nú kemur eigandi eftir því hrossi, kjósi sjálfur hvort er hann vill hross eður hrossverð. Nú mistrúir hinn að hann eigi, þá láti eigandi bera tveggja manna vitni að það er hans eign ef hann skal óræntur vera. Sömu leið skal fara er lögligur umboðsmaður eiganda kemur eftir hrossi.

39. Hér segir um ábyrgð ef fénaður er særður eða drepinn

Aldrigi gengur fénaður sér til ógildis. Nú drepur maður fénað manns og gengur við og segir sjálfur eiganda, hafi sá hið dauða og hið lamda er drap óviljandi, en hinn heilt fyrir. En ef maður drepur fénað manns viljahendi og segir eigi eiganda, bæti fullrétti eftir dómi ef hálfrar merkur skaði verður, en öfundarbót eftir dómi ef minni verður, hálft konungi en hálft þeim er fé á. Og að auk bæti löstu á fénaði sem sex skynsamir menn meta. Eigi skal sárbót á fénaði ef heill verður, verkafall og nytfall skal bæta sem menn meta. Tveir aurar liggja við auga á nauti, svo við horn, svo við hala, en fjórðungur verðs við auga á hrossi. Ef maður höggur tagl af hrossi svo að rófa fylgir, sekist tólf aurum, hálft konungi en hálft þeim er hross á, og gjaldi hross verðaurum, hafi sá stöku er stýfði og heiti maður að heimskari, en hinn heilt hross fyrir jafngott er átti eður annað fé ef eigi er hross til. Ef maður höggur tagl af hrossi fyrir neðan rófu, bæti mörk, hálfa konungi en hálfa þeim er hross á, utan þá hesta sem áður vottar fari sem fyrr segir. Nú sker maður hala af þrimur nautum eður færum, bæti hálfri mörk, hálft konungi en hálft þeim er naut á. En ef maður sker af fleirum nautum en þrimur, sekist mörk við konung, annarri við þann er naut á. Nú er ein sókn á öllum öfundarrétti þeim er fénaður er barður eður drepinn, þá skal eigandi stefna honum þing þrínætt í því héraði sem sá maður er er fénað hefir drepið eða sært. Þar skal hann sækja og láta sátt gjöra með tveggja manna vitni, að þeim sýndust manna handaverk vera á fénaði þeim, nema hinn vili við ganga, ella skulu þingmenn dæma honum lýritareið. Þann skal hann unnið hafa innan mánaðar særra daga og ef sá eiður fellur, gjaldi fénað verðaurum og það meira sem fyrr segir.

40. Hér segir um vitnissburð hirðingja

Nú fer allt saman hjörð og hirðir, þá skal hirðir vita hvað af hjörð verður og bera þar um bókarvitni ef hann er vottbær um það mál. Ef uxi stangar uxa, það er hálfgildi. En ef uxi stangar kú, það er algildi, og á öllum þeim nautum sem yngri eru en þrevetur, utan graðungur, þá er algildi á þeim, og svo á öllum kollóttum nautum. Nú ef naut er stangað, þá skal sá er á menn til leiða að sjá, og ef þeim sýnist að naut hafi stangað, þá skal hyggja að nautum og hornum nauta þeirra er með hafa gengið, og ef eitthvert naut hefir ben á hornum, blóð eður gor eður hár, þá er það líkast til og bæti sá þann fénað aftur þeim er á er það naut átti eftir lögum sem áður segir. Ef hundur bítur fénað manns eður eltir á forað, fyrir björg eða á sjó, bæti sá er hund á, hálft fyrsta sinni en allt jafnan síðan ef vitni eru til. En ef eigi eru löglig vitni til, haldi fyrir einseiði fyrir sérhverja grein þessa að sinni vitand.

41. Hér segir hversu maður skal fara með þá jörð er hann fær eigi byggt

Engi maður skal bólstað sinn í eyði leggja ef hann fær byggt. En ef hann fær eigi til leigu byggt, þá skal hann bjóða þeim með vottum þá jörð að leiga er næstir búa eftir því sem sex skynsamir menn meta. En ef þeir vilja eigi leiga, þá sekjast þeir þar svo á beit sem á byggðu bóli, og svo skulu þeir við varða. Sá má og lögfesta þá jörð er á, ef hann vill. En ef hann vill eigi byggja landið eður bjóða grönnum sínum, þá sekist hann hálfri mörk við konung en landið óheilagt við beit granna hans ef fé þeirra gengur misgöngum þannig, en eigi skulu þeir reka láta þannig fé sitt.

42. Hér segir um sætraferð hvern veg vera skal

Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu. En ef einnhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánað.

43. Hér segir um sætragjörð

Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.

44. Hér segir hversu þjóðgata skal vera

Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið, utan færa má götu ef vill sem fyrr segir. Nú skal þjóðgata vera fimm álna breið. En ef hann spillir víðara akri eður eng, þá skal hann það bæta sem sex skynsamir menn meta og landnám með. Nú rænir maður annan mann þjóðgötu, þá skal hann gjalda konungi hálfa mörk, og svo fyrir handrán, en þeim fullrétti eftir dómi er ræntur var. Skylt er bóndum að gera vegu færa um þver héruð og endilöng þar sem mestur er almannavegur eftir ráði lögmanns og sýslumanns. Sekur er hver eyri er eigi vill gjöra og leggist það til vegabóta. Nú brýtur maður brú af þjóðgötu eður sæturgötu, gjöri aftur aðra brú jafngóða sem áður var og bæti þeim mörk er brú átti. Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

45. Hér segir brúargerð og ferjuhald

Ef á skilur lönd manna, þá skal sá er brú vill gjöra bjóða þeim er til móts eigu land við hann öðrum megin að gjöra brú ef hann vill. En ef hann vill eigi, þá má hann grafa báðum megin torf til að frjálsu. Nú verður hinum mein að gröfum þeim er þar gjörast af brúargjörð þeirri, þá skal sá er brú gerði þar sem eigi hefir fyrr verið bæta skaða þann allan sem þar verður af gröfum þeim landnámslaust, þeim er til móts á. Nú vill sá brú gera er hvorigum megin á land, þá bjóði hann þeim fyrst að gjöra brú er þar eigu lönd tveim megin við. Og ef þeir taka eigi til innan næstu tólf mánaða, þá má hann að ósekju brú gera og taka torf og grjót báðum megin, og bæti landnámslaust þeim er jörð á ef mein verður af gröfum þeim. Hann skal gera skilorð á brúnni það sem hann vill og lýsa því á héraðsþingi, og sekist sá eftir lögum er af bregður. Hvorgi má banna öðrum þeirra manna er land eigu við ána að hafa skip á. Rétt er og þeim manni er hvorigum megin á land við að hafa skip á ánni ef hann vill að þar sé jafnan skip meðan áin er þíð og meta eigi leigu. Svo er þar um götur sem fyrr segir. Ef maður varðveitir brú eður skip það er fé er til lagið, þá sekist hann ef hann efnir eigi þann máldaga sem þar var á gjör. Nú fyrnist skip það sem fé var til lagið svo að eigi er fært, fái til annað innan þriggja nátta, sá er ferju varðveitir, ef hann skal skipinu halda. En ef ferjan brotnar fyrir vötnum eður veðrum, fái til aðra sem fyrst má hann. Eigi skal sá ábyrgjast almenningsfar er fluttur er. Nú metur farhirðir þar leigu sem leigulaust skal flytja, þá er synjað fars. Nú neyðir hann vegferla til meiri leigu en skild er, þá er synjað fars. Sú er hin þriðja sök ef hann synjar þeim manni fars er fulla leigu býður. Sú er hin fjórða sök ef þess fars missir dægri lengur sem skylt er að flytja. Og ef farhirðir verður að þessu kunnur og sannur, það heitir vegafall, og er hann sekur hálfri mörk við konung og bæti þeim fyrir farartálma er fars missir, og skaða þann allan sem hann fær af og tvo aura í þokkabót. Ef maður lætur flytja naut á skipi, komi kaupi sem hann getur. En ef hann gengur á skip farhirðiss ólofað eða tekur fyrir hendur honum, það er fornæmi, sekur mörk sá er það gjörir, hálfri við konung en hálfri við farhirði. Nú er farhirðir eigi skyldur lengur að flytja á sumar en til þess er sólu er sett og eigi fyrr en sól kemur upp, því að sól skal um sumar flutningi ráða en dagur um vetur. Ef farhirðir flytur sekan þjóf yfir á óduldur, þá hefir hann fyrirgjört húð sinni og heitir þjófsnautur. Ef brúargjörð er skild á hendur manni og skilt eigi gjör, þá skal hann að gjöra svo að brú sé örugg og hon haldist fyrir fyrnsku sakir, og gjöra skal hann aðra sem fyrst má hann ef áin brýtur brú af.

46. Hér segir um afréttu og fjallgöngur

Allir þeir menn sem afrétt eigu skulu reka fé sitt í miðja afrétt. Um geldfjárrekstur á vorum til afréttar og fjallgöngur á haustum hvern tíma vera skal, þá gjöri eftir því sem hreppstjórnarmenn gjöra ráð fyrir og hverju byggðarlagi hæfir, því að það hæfir eigi öllum byggðarlögum einn veg til. Nú er eigi svo gert, þá er hver sekur sex aurum er þann afrétt á, hálft konungi en hálft þeim er næstir búa. Lofað er að geldfé sé í heimalöndum ef hreppstjórar eður grannar lofa og gefa önga sök á. Eigi skulu menn málnytu sína í afrétt reka nema þeir eigi ítölu. Eigi eiga menn að lofa afrétt nema ítala sé, þá má hver fylla sína ítölu. En ef sumir lofa en sumir eigi, þá taki þeir er eigi lofa slíkt grasverð sem menn meta og eitt landnám með. En ef einnhver hefir óleyft, hafi sá grasverð á sinn hlut og fullt landnám með. Eigi skal sætur gera í afrétt. En ef gjörir, þá eru þau óheilög við broti fyrir þeim er þann afrétt eigu og bæti þó fyrir skaða sá er sætur gerði og landnám með þeim er þann afrétt eiga. Ef maður rekur eður reka lætur fé sitt í afrétt frá því er sex vikur eru af sumri og til sunnudags þess er laugardaginn áður eru fjórar vikur til vetrar, þá bæti fullt grasverð hverjum er þann afrétt eiga og landnám með. Sá maður má beita afrétt á vetur er hlut á í henni ef hann þarf eigi að reka fé sitt yfir annars land. Það heitir afréttur er tveir menn eður fleiri eiga saman, hversu mikið sem hver á í. Ef maður slær afrétt utan orlof þeirra er eiga, þá eigu þeir heyið er afréttinn eiga og landnám með hver þeirra.

47. Hér segir nær merkja skal fé

Menn skulu einkenna fé sitt allt utan hross og hafa einkennt er átta vikur eru af sumri, allt það er hann má á henda. Eitt mark skal hver maður hafa á öllu fé sínu. En ef hann gerir eigi svo, þá er hann sekur hálfri mörk við konung. Eigi er maður sekur þó að eigi verði rétt hans mark á því fé sem hann hefir af öðrum til. En færa skal hann sem hann má næst sínu marki. Erfðamark skal hver maður hafa ef hann á. Skipta skal marki sem öðrum arfi ef fleiri standa til en einn. Nú vill maður gjöra sér mark, þá skal hann lýsa því á héraðsþingi hvert mark hann vill hafa. Eigi skal hann það mark hafa sem annar hefir áður í því héraði eður svo nær að fjárgangur þeirra komi saman. Af skal hann láta marki þó að hann hafi á þingi lýst ef nökkur verður síðar eigandi til þess marks. Um kálfa og lömb, kið og grísu, þá sekist maður eigi þó að ómarkað sé meðan í sjálfs hans landi gengur. Nú er fé ómarkað þá er átta vikur eru af sumri, þá má hver bóndi er vill og þess kyns fé á leiða til skilríka menn að sjá það fé sem ómarkað hefir gengið í land hans, hvað fé sem það var og skylt var að marka, og leggja á sitt mark og eignast, nema hinn hafi vitni til að það er hans fé og hann mátti það fé fyrir nauðsynja sakir eigi marka. Og ef hann fær þessor vitni, þá á hann sjálfur fé sitt og er þá hvor tveggi sýkn saka. En ef hinn vill þá eigi laust láta, sæki sem vitafé. Ef maður færir búnað sinn hreppa á meðal, þá skal hann segja til einkunnar sinnar í þeim hrepp sem hann hefir bú sitt í fært og láta skrá með einkunnum þeirra manna er þar búa áður fyrir. Ef menn verða eigi fyrri varir við að mark ber saman með þeim en fé er á fjall rekið, þar sem þeir eiga samgengt, þá skulu þeir taka fé það allt er þeir létu reka í afrétt og reikna, og sveri hver að sínu fé eineiði, að svo margt var sem þá hefir hann talt og þess kyns fé og svo gamalt. Nú skal hvor þeirra sýna á haustið grönnum sínum sex það fé er þeir heimta, og þeir skipti sem þeim þikkir jafnligast eftir fjárfjölda hversu margs hvor þeirra skal missa ef þeir heimta eigi allt, nema annar hvor hafi til tvo lögliga kennendur að það er hans fé og eigi gaf hann né galt né sölum seldi, og það er hans eign ef hann skal óræntur vera. Og ef þeir sverja þetta, þá skal hann taka það fé að námi en því færa á hann eftir að heimta. Nú þikkir svo öðrum hvorum sem eigi sé allt til skiptis látið, þá sveri hinn fyrir lýritareið, ella greiði honum slíkt sem hann sver eigi fyrir. Rétt er manni að ljá öðrum mark ef hann er sauðlaus og hafi sjálfur þegar hann á fé til á að leggja, ella á hann eigi heldur en aðrir þó að það hafi áður hans erfðamark verið. En ef dilkær eru, þá er mönnum eigi skylt að marka dilka undir þeim, því að móðir ber þar vitni um og svo kýr um kálf, gyltur um grís.

48. Hér segir ef menn eiga sammerkt hver af skal bregða

Ef tveir menn eiga mark saman, þá skal sá af bregða er eigi á erfðamark, nema sá sé þangað kominn í hérað er erfðamark á. Þá skal hann af bregða en hinn haldi marki er fyrir situr þó að honum sé eigi erfðamark. Nú á annar kaupamark en annar gjafamark eður gjörðarmark, þá skal sá af bregða er gjörðarmark á. Nú eiga báðir erfðamark eður hvorgi, þá skal sá af bregða er færi sauði á og skulu þeir skipta á næsta hausti er þeir vita að mörk ber saman með þeim. Skal sá er mark á að hafa beiða hinn með vitnum að bregða af marki. Og ef hann vill þá eigi af bregða, þá skal sá er mark á að hafa eignast svo margt fé sem hann á von hvert haust síðan er fé kemur af fjalli, en hinn er þó sekur hálfri mörk við konung og hafi þá eina sauði er hinum gengur af tölu sinni er mark á að hafa. Ef sauðir eru goldnir manni, þá skal hann af marki bregða sama dag og færa sem næst sínu marki, og þótt þá verði annars manns mark á þá á hann en eigi sá er mark á. Svo og ef naut verða goldin manni, þá skal af bregða marki innan hálfs mánaðar. Allt það kvikfé sem gefið er eður goldið utan hross, þá eignast sá það fé sem mark á ef eigi er af brugðið innan hálfs mánaðar síðan hann bannaði lögliga með vitnum. Eyrnamörk skulu vera á öllu ganganda fé en engin önnur. Skilur mörk þó að eyrnaskipti sé á fé. Nú verður lamb mismarkað í stekk, þá skal sá er markaði gjalda annað lamb fyrir jafngott ómarkað eður verð lambs, nema hinn vili heldur eiga lamb sitt og færa sem næst má hann sínu marki. Ef maður markar fé annars manns utan orlof þess er á, gjaldi fyrir spell sem menn meta og öfundarbót með eftir dómi þeim er fé á. Ef maður leggur sitt mark á annars manns fé með leynd og villir svo heimildir á, þá er hann þjófur ef fé er svo mikið að þjófssök nemur. Nú verður maður vitnisfastur að því að hann markar fé manns annars manns marki til þess að rægja þeim saman, gjaldi fullrétti hvorum tveggja eftir sex manna dómi en konungi fjórar merkur.

49. Hér segir hversu fjallgöngur skulu vera á haust

Hver maður er sauði á skal ganga á fjall eitt sinn og um landeign sína hvert sinn er lögrétt skal vera á haust. En skipta skal öðrum göngum sem hreppstjórar gjöra ráð fyrir. Sekur er sá maður hálfri mörk við konung er eigi gengur um landeign sína og ábyrgist sauði við þá er eigu alla þá sem í hans landi voru sénir þá er hann átti gönguna. Þar skulu réttir vera sem að fornu hafa verið og svo langt og víða til reka. Nú villast dilkar í rétt og verða þeir er til kalla eigi ásáttir, þá skulu þeir sýna sex grönnum sínum þeim er næstir búa rétt og skal þar sýna þá sauði er þess væri von að þá dilka mundi leiða, og skulu þeir menn skipta dilkum með þeim er til kalla öllum þeim er ær kannast eigi við. Nú verður nökkurum dilkum óskipt að síðustu rétt, þá skal bóndi sá er réttina varðveitir sýna grönnum sínum sex dilka þá áður hann leggur sitt mark á og eignast hann þá. En ef þaðan af ganga dilkar ómerktir, þá má svo gjöra hver maður í sínu landi, hvar sem þeir kunna fram að koma, sá er sauði á. Sama mál er um ellri sauði ómarkaða eður annað fé það sem engi telst til, utan maður mætti eigi marka. Nú finnur maður fé ómarkað í almenning eftir síðustu rétt, það sem móðir mörkuð ber eigi vitni um, þá eignast sá það fé er finnur. Ef hrútur eða hafur kemur í fé manns fyrir veturnætur og þikkir honum mein að, þá má hann inn setja og ala sem sitt fé og segja grönnum sínum hvert mark á er. Rétt er honum og að láta sauma fyrir. Nú verða hrútar eður hafrar ótíndir að veturnáttum, þá skal sá er réttina varðveitir sýna þá sauði grönnum sínum sex. Og ef þeir vita eigi hver þá sauði á gjöri hvort er hann vill, skeri eður leggi á sitt mark, og eignist að allraheilagramessu veturgamlan hrút eður hafur fyrir lambgymbri eður átján álnar. En tvævetran fyrir hálfan fimmta eyri. Hrútlamb eður hafurkið fyrir eyri og skal hann láta skrá mörk sauða þeirra og lýsi að kirkju sinn á hverjum tveim mánuðum til sumars, og eitt sinn á héraðsþingi hið næsta sumar, annað og hið þriðja. Og ef þá verður nökkur eigandi að, þá lúki hann þeim þetta verð, ella eignast hann á þriðja hausti ef hann hefir að lögum lýst. Nú kemur sá hrútur eður hafur til fjár manns er hann veit hver á, seti inn og fæði, og geri orð eiganda. En eigandi láti gera eftir sem fyrst má hann og þó að hinum hafi þar til mein af vorðið þá skal eigandi það eigi ábyrgjast, utan hann hafi heimt áður, þá bæti sá er átti fyrir skaða þeim er fé það átti er hrútur eða hafur kom til.

50. Hér segir um meðferð á úrgangsfé

Ef að síðustu rétt verður fé það eftir er eigi verður eigandi að, þá skal bóndi sá er réttina varðveitir og fimm aðrir þeir er næst búa réttinni og þangað eiga sauðum til að samna skipta þeim sauðum og annast sem sitt fé, og segja til að sóknarkirkju sinni eða samkundu hversu margir sauðir þar eru að hans og með hverju marki eru, og svo skal hver bóndi gera er á jörðu býr. Ef sauðir koma í fé manns eftir veturnætur, þá skal hann hafa sagt til innan næsta hálfs mánaðar. Nú kemur sá til er sauði á eður hans lögligur umboðsmaður áður tveir mánaðir eru af vetri, þá skal hann sauði í brott hafa fyrir önga fúlgu og sýna þeim áður er á jörðu býr. En ef hann tekur svo í brott að hann sýnir eigi áður þar, gjaldi hálfa mörk, hálft konungi en hálft þeim er á jörðu býr. En ef maður kemur síðar eftir fénu en tveir mánaðir eru af vetri, þá skal hinn hafa slíka fúlgu sem þar væri til sumars og láta eigi laust fé fyrri en hann hefir fúlgu í hendi eður vörslu fyrir er hann vill. Nú kemur engi eftir fé því fyrir miðjan vetur er bóndi veit eigi hver á, og hefir þar verið hálfan mánað síðan sagt var til, þá er honum rétt á fyrstu viku þorra að láta virða fé það sex skynsama menn. Þeir skulu svo virða féið sem þá er vert er þeir virða. Eigi skal þess kyns fé virða fyrr né síðar. Standa skal þá fé með marki hinu sama. Hann skal segja til fjár og marks þrjú sumur hin næstu á þingi. Hann eignast á þriðja hausti ef áður kemur eigi eigandi eftir, nema hann lýsi eigi áður að lögum, þá tvígildi þeim er fé á en konungi hálfa mörk. Nú kemur eigandi eður hans umboðsmaður eftir því fé áður þrjú sumur eru úti og eigi er virt, þá hafi hann í brott fé sitt en hinn skal hafa fyrir fúlgu, mjólk og kálfa undan kúm, lömb og ull af sauðum, kið og nyt undan geitum, og bæti öngu fyrir þó að það sé meira vert og annist sem sitt fé en ábyrgist að öngu.

51. Hér segir um skipti á afréttum

Ef tveir menn eður fleiri eigu afrétt saman, sumarhaga eða veturhaga, þann er fé gengur sjálfala í, og sá er mishaldinn þikkist af stefni þeim öllum til afréttar eður haga er til móts eigu svo miklu fyrir að um lið megi sýsla. Tólf bændur þeir er næstir búa skulu telja fé í afrétt eður haga svo að þeir ætli eigi muni feitara þó að færa sé. Þeir skulu þetta gjöra þó að eigi komi allir þeir er stefnt var. Þeir skulu svo í haga telja að þeim þikki til fulls skipað. Sína ítölu má hver maður fylla, hvort sem hann vill sínu fé eður annars manns. En sá þeirra er síðar lætur fleira fé í haga reka en ítölu sína, tvígildi þeim fyrir grasverð er í móti eiga. Menn skulu kúgildum telja fé í afrétt eður í haga sem í búland. Eigi skal svín þangað reka. Landnám og skaðabætur skal sá gjalda er þau svín á er skaða gjöra sem fyrir annan fénað.

52. Hér segir hvað afrétt eða almenningar eru

Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið bæði hið efra og hið ytra. En ef menn skilur á og kallar annar sér almenning eður afrétt, þá festi sá lög fyrir er sér kallar og stefni þing þar er menn eiga því máli að skipta, og skeri upp þingboð fyrir fimmt. En ef hann gerir eigi svo, þá er ónýt lögfesta hans að því sinni. En á þingi skulu þeir nefna tólf bændur hina skynsömustu sex hvor þeirra í þinghá þeirri og hafa þá tvo af þeim tólf að bera megi og sverja hvort sú afrétt er hans eign eður almenningur. En af því þingi leggi sá fimmtarstefnu er sér kallar þá jörð og njóti þar vitnis þess er á þingi var nefnt. Ef fimmt ber á helgan dag, þá sé fimmtarstefna hinn næsta rúmhelgan dag eftir og færi þar þá vitni fram að jafnfullu sem á fimmtarstefnu. En svo skal þann eið sverja: Að því skýtur hann til guðs, að það hefir hann sér ellri skynsama menn heyrt segja að þar skilur mark millum eignar bónda og almennings eður afréttar, og eigi veit eg annað sannara fyrir guði í þvísa máli. En síðan sé sett fimmtarstefna og dæmist þá hverjum það sem hafa skal.

53. Hér segir um fjárgöngur úr afrétt

Ef fé gengur úr afrétt í land þess manns er næstur býr afrétt, þá má hann reka fé það aftur í afrétt miðja. Rétt er honum að hafa það fé í sínu landi, svo og að láta reka heim til þess er á. En ef hann rekur fé í annars manns land, bæti þeim fyrir skaða sem menn meta og landnám með. Sama mál á sá er þá er fé í land rekið og svo hver þeirra manna er það fé kemur í land. Rétt er mönnum að láta ganga fé það hvert er vill. Ef maður rekur fé manns úr afrétt og hvaðan sem hann rekur svo að hann þikkist eigi fyrir góðu gera, ábyrgist sá að öllu og öfundarbót með eftir dómi þeim er fé á, ella sveri fyrir lýritareið að hann þóttist eigi fyrir illu gjöra, þá falli niður öfundarbót en hann bæti þó fyrir skaða, utan hinn hafi honum um boðið, þá er sektalaust.

54. Hér segir um afréttarstefnur

Rétt er þeim manni er næstur býr afrétt að gjöra stefnu á einmánaðarsamkomu við sig til garðlags þeim mönnum er þann afrétt eigu. En það er afrétt er tveir menn eður fleiri eigu saman. Þeir skulu gjöra garð þann að jarðarmagni svo sem hver þeirra á í afrétt til, svo að þeir gjöri hálfan en sá hálfan er garðlags beiddi og haldi svo hver síðan. En sá er eigi vill gerða tvígildi þeim fyrir skaða þann allan er gjörir þeirra fé og svo allra þeirra manna fé er þeir hafa lofað þann afrétt. Sú er hin fyrsta lagastefna til þessa garðlags þegar torfuþítt er og þar til að menn vinna völlu sína. Sú er önnur þá er lokið er vororku og til þess er heyslátta tekur til. Sú hin þriðja þá er hey er hirt og til þess er jörð frýs. Þetta eru lagastefnur til þenna garð að gera og svo bólstaða í millum, það heitir anna í milli. Allt það er þar í millum spillist að þessum görðum, þá skal í þessum stefnum bæta. Ekki skal vinna meðan garðönn er, annað en reka smala heim og heiman og færa heim eldibranda. En eigi er maður skyldur að gjöra þenna garð þó að hann sé til krafður, þar sem eigi hefir áður verið, nema hann fái gert sinn hlut á þrimur sumrum svo að hann taki fyrir það eigi fleiri vinnumenn.

55. Hér segir sekt ef ólofað er leitt berfé til graðfjár

Ef maður leiðir kú ólofað öxna til griðungs eður hross álægt til hests, sú ræða til galtar, á blæsma til hrúts, geit til hafurs, þá eignast sá það er undir elst er það graðfé átti er til var leitt. Ef griðungur eltir fang úr kúm svo að skaði virðist af sá er heima er gætt með búi, bæti fjórðungi bóta ef sannprófað er en öngu ef hann lér. En ef eigandi eður sá er léð var vill eigi varðveita griðung eða reka hann í afrétt, bæti skaða sem menn meta þann sem hann gjörir.

56. Hér segir hversu veiðar eiga löndum að fylgja

Hver maður á vötn og veiðistöð fyrir sinni jörðu og á, svo sem að fornu hefir verið, nema með lögum sé frá komið. Vötn öll skulu svo renna sem að fornu hafa runnið. Veita á þeim engi maður á bæ eður af bæ annars, nema þau brjóti sjálf. En ef það er veitt, þá skal veita aftur vatn og gjalda eiganda jarðarspell og landnám með. Ef á eða bekkur rennur í milli bæja manna og eru fiskar í, þá eigu hálfa hvorir ef þeir eiga svo jörð tveim megin til. En ef á eður bekkur rennur rétt og brýtur á hvorskiss land, þá geri svo hver veiðivæl af sinni jörðu sem að fornu hefir verið. Ef á brýtur af annars þeirra jörðu, þá skal sá er jörð átti þá er hon braut á eiga en hinn granda eður eyri, þangað sem hon var mið meðan áin féll rétt að fornu. En ef hon brýtur meira, þá á sá er jörð átti bæði á og granda, þangað til sem hon var mið meðan hon rann rétt. Engi skal fyrir öðrum veiði spilla eður banna, þá sem hann hefir áður að fornu haft. Hvervetna þar sem menn eiga fiskiá saman, þá skal hver þeirra veiða sem vill meðan ánni er óskipt og draga voðir að hvoru landi sem hann vill. En eigi skal hann öðrum veita né veiða. En ef nökkur þikkist mishaldinn af vera, þá beiði sá skiptis á og skipti sex grannar þeirra ánni. Þeir skulu skipta vikum eður smærum, þeir skulu ráða er lengstum vilja skipta ef þá greinir á. Svo má og skipta fleirum veiðistöðum. Það skipti skal haldast með þeim það sumar og má þá hver er vill veita sinn hluta. Hver maður má gjöra veiðivæl í sinni á og gjöri þó svo að fiskar megi fara upp að á hverri. Ganga skal guðs gjöf til fjalls og fjöru ef gengið vill hafa. En ef einnhver gerðir fyrir, þá skulu þeir er ána eigu fyrir ofan gera honum fimmtarstefnu til af þingi úr að brjóta. En ef hann kveður nei við þá skal sá er að telur æsta bændur liðs til úr að brjóta. Bóndi hver er synjar honum til að fara er sekur eyri við konung. En þeir er garð gerðu í að ólögum, gjaldi mörk hverjum þeim er fyrir ofan býr og þeir meinuðu veiði fyrir. Engi skal í annars á fara ólofað nema hann vili veiða þeim er ána á og gjaldi honum þó landnám með, svo sem veiður er mikil til. Svo er og ef maður eltir fugla eður fiska úr annars manns veiðistöð, hvar sem hann veiðir þá. Engi skal öðrum veiðistöð banna fyrir sínu landi og engi annars veiðistöð spilla. En ef menn spilla þeirri veiðistöð og brjóta úr garða utan þvergarðar sé, þeir sem fyrirboðnir eru eður spilla veiðigögnum, sekur höfðingi mörk við konung en annarri við eiganda í öfundarbót. En hver annarra er honum veitir lið til, sekur hálfri mörk við konung en annarri hálfri mörk við eiganda í öfundarbót, og bæti garð aftur og veiðigögn öll og spellvirki sem sex skynsamir menn meta.

57. Hér segir um eign á fuglaveiðum

Vali alla, elftur og gæs og alla aðra fugla ómerkta á hver maður á sinni jörðu, leiguliði sem landsdrottinn, nema frá sé skilt í kaupi þeirra, utan þernur, æðar og andir skal engi maður veiða nær annars landi en tvau hundruð faðma tólfræð sé til eggvers annars manns, og eigi skal maður þá fugla veiða svo mjög í sínu landi þó að firr sé eggveri hins að skynsömum mönnum sex þeim er næstir búa þikki þess von að eggver spillist af því. En ef hann veiðir annan veg en nú er mælt, tvígildi fyrir fugla þá er hann veiddi þeim er eggver á, en konungi hálfa mörk. Nú tekur maður merktan fugl í sínu landi, þá skal hann gera orð eiganda innan hálfs mánaðar ef hann er samhéraðs og varðveita svo fuglinn að hann spillist eigi. En ef hann fær eigi svo varðveitt hann, hafi sjálfur fuglinn eftir virðingu granna sinna sex og gjaldi þeim verð er fuglinn átti, og svo ef hann veit eigi hver á, þá láti hann virða og lýsi að kirkju eður á þingi innan hálfs mánaðar, og svo hvert mark á er. Á fitjum skal fugla merkja og sýna sex grönnum sínum, eigi er lögmark ella. Ef maður nýtir sér merkta fugla óvirða, þá tvígildi þeim er á, en þjófur verður hann af ef hann lýsir eigi. Í hvers landi sem elftur verpa þá eignast sá er markar ef hann veitir í sínu landi aðróður í fyrstu. Og svo er það um alla fugla og fiska ef þeir róa í sínu landi að fyrst, þó að hann taki við annars land eður á, og er fyrst í hans landi að róið eður í þeim hluta vatns er hann á. Nú drepur maður vísvitandi merktan fugl, gjaldi þeim fugl verðaurum er átti og öfundarbót með eftir dómi. Nú hafa þar orpið elftur þrjú sumur í sama landi samfleytt, þá eignast sá það er land átti, í hvers landi er hann kreppir eður merkir. Og þó að annar marki, þá eignast hinn ef grannar hans vilja það með eiði sanna að þeim þikkir það líkast að þær elftur hafi í hans landi orpið, en hinn hafi fyrir starf sitt.

58. Hér segir um fálkatekju

Kóngur má láta veiða vali alla á hvers manns jörðu er hann vill. Ef maður tekur fálka á annars manns jörðu, eigi sá þriðjung verðs er tók en jarðeigandi tvo hluti eður leiguliði er á jörðu býr. En hver sá maður er fugla veiðir eða tekur egg undan á annars jörðu, bæti fugla og egg fullu verði og landnám með þeim er á jörðu býr, utan rétt er að veiða á annars jörðu hverjum er vill örnu, hrafna, smyrla, lær og spóa, og alla smáfugla þá er eigi fljóta á vatni nema rjúpur. Melrakki er á hvers manns jörðu óheilagur. Ef maður fer yfir annars manns land, þá er honum rétt að taka fugla ómerkta er á götu hans eru eða egg undan ef það er eigi í veiðistöð annars, og fiska ef liggja á leið hans á brotum, ef það er eigi í veiðistöð hins. Ekki skal maður víðara fara yfir landeign annars til þess. Björn er óheilagur á hvers manns jörðu og á sá björn er fyrst kemur banasári á hann. Rosmhval eigu menn að veiða á hvers manns jörðu eður netlögum er vill og á landsdrottinn hálfan en sá hálfan er veiðir. Engi maður skal lesa ber á annars manns jörðu, né grös til heim að bera, utan sá lofi er á. En ef hann les, tvígildi ber og svo grös.

59. Hér segir hvað almenningar eru og nær í þeim skal vinna

Það eru almenningar er að fornu hafa verið. Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er úr búfjárgangi. Ef tveir menn ganga í eina sláttu báðir senn, hafi báðir það er þeir slá. En ef þá skilur á hvor þeirra fyrri orti á, hafi sá sitt mál er sannar með eineiði nema hinn leiði votta í móti. Fiskivötn öll í almenningi eru öllum jafnheimil, þar eigu menn að taka fiska og fugla. Engi maður skal beita í almenningi frá krossmessu á vor og til Bótólfsvöku. Þar eiga menn að telgja við og færa til skips eður búðar og er þá viðurinn heilagur. Nú koma þar menn öðru skipi og fá eigi farm á sitt skip en hinir hafa meir en farm sínu skipi, hvort sem það er viður eður hvalur, þá er rétt að þeir taki farm sínu skipi en bæti hinum fyrir starf sitt. Ekki á jörð í viði þeim er fluttur er úr almenningi nema hann liggi lengur en lög votta. Nú kemur hvalur þá er menn eru í almenningi, þá skal boð upp skera sá er næstur býr og láta fara alla vega sem dagur endist. Sekur er hann sex aurum við konung ef hann sker eigi boð upp en eyri hver er fellir nema nauðsyn banni. Í almenningi skal hval skera hver sem vill og brott færa hvort sem vill á skipi eður eykjum. En svo skal fara um þann sem eigi verður brott fluttur sem áður skilur. En ef skot finnst í hval þeim, þá skal sá varðveita járnhval er næstur býr. Nú brennir maður sætur í almenningi, veiðibúð eður andvirki það sem þar er, þá sekist sá er það gerir þrimur mörkum við konung en tvígildi þeim er hann brenndi fyrir það sama aftur jafngott og rétt sinn á ofan eftir lagadómi.